Tapar Miliband?
Fyrir rétt rúmum hálftíma var kjörstöðum lokað í Bretlandi. Skoðanakannanir á kjörstöðum (exit polls) benda til þess að Íhaldsflokkurinn vinni nokkuð óvæntan sigur, Verkamannaflokkurinn tapi þingsætum.
Gangi þetta eftir (sem er alls ekki víst) þá má ætla að þetta sé fyrst og fremst ósigur Ed Milibands, ekki sigur Camerons. Ed varð leiðtogi Verkmannaflokksins eftir sérkennilega viðureign við bróður sinn, David.
Ég sá viðureignina í beinni útsendingu á BBC og var hún hin furðulegasta. Bræðurnir kepptust við að tala í væmnum tóni um hve vænt þeim þótti um hvorn annan. Var öll þessi uppákoma mjög í hollívúddskum anda.
Ed hefur verið milli tannana á fjölmiðlum enda þykir hann klaufalegur í framgöngu og tali, ólíkt hinum veraldarvana bróður sínum.
Ed er einfaldlega ekki traustvekjandi, hafi flokkurinn tapað kosningunum má ætla að það sé honum að kenna.
Því miður eru litlar líkur á því að David snúi aftur og taki við stjórnartaumum Verkamannaflokksins.
Þeir bræður eru Gyðingar, synir belgísk-pólsks flóttamanns sem kallaði sig «Ralph» en var skírður «Adolphe». Ekki par gott Gyðinganafn um 1940.
Ralph var einn helsti teoretiker breskra marxista og háði fræga fræða-glímu við grísk-franska teoretikerinn Nicos Poulantzsas. Sá síðarnefndi var lítt kreddutrúar þótt marxisti væri og staðhæfði að ríkið hefði ákveðið sjálfsstæði gagnvart ríkjandi stéttum, gagnstætt því sem kreddumenn á borð við Ralph Miliband héldu.
Seint verður David borin þeim sökum að vera kredduvinstrimaður, sem utanríkisráðherra var hann óþarflega fylgsispakur Bandaríkjamönnum. En augljóslega leiðtogaefni, hefði getað orðið góður forsætisráðherra ef strákkvölin hann Ed hefði ekki brugðið fyrir hann fæti með aðstoð verkalýðshreyfingarinnar.
Alltént er huggun harmi gegn að sá alfúli UKIP flokkur virðist ekki fá nema fáein þingsæti. «Count your blessings».
Athugasemdir