Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Talibanar við borgarhliðið

Það hefur tæpast farið fram hjá neinum að Talíbanarnir eru við það að taka völdin í Afganistan. Lítill vafi er á að þeir munu koma á alræðisstjórn, svipta konur öllum réttindum, ofsækja samkynhneigða og svo framvegis. Talíbanarnir bana öllum sem ekki dansa eftir þeirra pípu.

Vesturveldin hafa svikið þjóðina á svívirðilegan máta. Fyrst hvöttu Vesturveldin   ungt fólk til frelsis og valdeflingar, það  trúði því að Vesturveldin myndu verja það  gegn myrkraöflunum. En þegar á hólminn var komið drógu þau heri sína út úr landinu, skildu  framsækið fólk eftir berskjaldað gegn Talibönunum.

Sovétríkin sálugu bera líka mikla ábyrgð á vanþróun landsins á síðustu áratugum. Þeir studdu sér hliðholla menn til valda í landinu og réðust inn í það til að bjarga þeim. Þetta varð til þess að öfgafullir íslamistar tóku forystu í andófinu gegn hernáminu.

Til að gera illt verra studdu Bandaríkjamenn öfgaíslamistana með ráðum og dáð.  Og eftir innrásina 2001 dældu þeir fé í sér hliðholl yfirvöld, sá fjáraustur skapaði hrikalega spillingu (Kanar hafa hneigð til að halda að hægt sé að leysa öll vandamál með peningum).

Fé sem fara átti til að borga hermönnum laun lenti í vösum spillingarfursta. Það er ein af ástæðum þess að afganski herinn hreinlega leystist upp. Hermennirnir höfðu lítinn hvata til að berjast fyrir sína spilltu yfirmenn.

Hvað þetta varðar minnir Afganistan ekki eilítið á Suður-Víetnam sáluga. Þar olli amerískt fjáraustur gífurlegri spillingu, ekki síst í hernum. Að nafninu til voru um tvær milljónir manna í hernum en þetta var "draugaher", miklu fámennari.

Spilltir hershöfðingjar stungu launum "draugana" í eigin vasa. Og vorið 1975 hrundi herinn eins og spilaborg, hermennirnir höfðu litla ástæðu að berjast fyrir gjörspillta yfirmenn.

Eins og þá féll stjórnin í Afganistan miklu fyrr en menn héldu. Eins og þá er floti þyrla í því að flytja Bandaríkjamenn og samstarfsmenn þeirra úr landi. 

En engin þyrlufloti til að bjarga sjálfsstæðum konum, samkynhneigðum og frjálslyndu fólki. 

Strangt tekið var það ekki Bandaríkjamönnum að kenna að eina andófið gegn Sovéthernáminu var andóf öfgaíslamista. En stefna þeirra í landinu hefur verið flest annað en skynsamleg. 

Þeir ýttu undir spillingu með því að borga alls konar skunkum í reiðufé sem flutt var í gámum til landsins. Féð endaði einatt í skattaparadísum, stjórn Karzais var kölluð "kleptokrati" (ræingjaræði) af bandarískum ráðamanni. 

Bandaríkjamenn gerðu lítið sem ekkert til að berjast gegn spillingunni, kosningasvindli og öðrum sóðaskap. Þessi ósómi hrakti marga Afgani í náðarfaðm Talíbana 

Þó mega Bandaríkjamenn  eiga að fjöldi Afgana, ekki síst konur,  hefur getað menntast og samfélagið hefur verið öllu frjálslyndara en fyrr. Vonandi verður hærra menntunarstig og aukið frjálslyndi til þess að Afganar (alla vega í borgunum) veiti Talibönum öfluga mótspyrnu, láti þá ekki komast upp með að miðaldavæða þjóðfélagið. 

Fyrr á árum voru drjúgir hlutar landsins talsvert vestrænir, konur í Kabúl gengu um í stuttum pilsum. En valdataka kommúnista og stuðningur Bandaríkjamanna við öfgamennina gaf  þeim síðastnefndu tækifæri til að koma á fornaldarlegu alræðiskerfi í landinu.

Sigur Talíbana verður mikill hvati fyrir hryðjuverkamenn, búast má við ýmsu úr þeirra átt á næstunni. 

Hvað getur Ísland gert? Tekið á móti flóttamönnum frá landinu, stutt þrýsting á Talibanastjórnina.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu