Sussa SUSarar á frelsið?
Samtök ungra sjálfstæðismanna rekur upp sitt árvissa org vegna birtingar upplýsinga um eigur og tekjur manna. Þessa upplýsingabirtingin sé árás á frelsið. Nánar tiltekið á þann anga frelsins sem varðar friðhelgi einkalífsins. Birting þessara upplýsinga sé valdbeiting, segja SUSarar og þeirra andlegu skyldmenni. Rétt sé því að banna birtingu.
En ef boð og bönn eru andstæður frelsisins þá er freistandi að segja að bann við upplýsingabirtingu sé valdbeiting og þar með takmörkun á frelsi. Þess utan má deila um hvort upplýsingar um hlutabréfaeign og tekjur af atvinnustarfsemi séu einkamál. Slík eign og starfsemi varðar afkomu fjölda annarra en eigenda. Auk þess er skattlagning lýðræðisatriði og eðlilegt að kjósendur geti fengið upplýsingar um það hvernig skattbyrði dreifist. Til að skilja það til fullnustu verða menn að vita sitthvað um tekjur og eigur fólks.
Jón Trausti og frelsið til að vita.
Jón Trausti Reynisson svarar SUSurum fullum hálsi og bendir á að vel megi tala um frelsi til að vita, frelsi til að afla upplýsinga. Þessu til stuðnings staðhæfir hann réttilega að ósamhverfi upplýsinga þjóni hagsmunum hinna ríku og voldugu (á þetta bendir nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz). Viti launþegar ekkert um auðæfi atvinnurekenda veiki það samningsstöðu þeirra og dragi þar með úr frelsi. Í ofan á lag hafi margir þeirra sem mest þéni miklar tekjur af auðlind sem er í sameign, þ.e. fiskurinn í sjónum. Almenningur eigi því rétt á að vita hvað menn græði á þessari auðlind sem tilheyrir honum. Enda hafi brask sægreifana með kvóta sett heilu byggðarlögin á hausinn og haft vægast slæm áhrif á afkomu íbúanna.
Hárrétt athugað hjá Jóni Trausta, eins og talað úr mínu hjarta. Þýðir það að ég hafni því að krafa SUS um upplýsingaleynd hljóti að vera andstæð frelsinu? Engan veginn en frelsi er margrar ættar og frelsisgerðir vilja rekast á, í þessu tilviki rétturinn til að leyna upplýsingum og rétturinn til að afla upplýsinga.
Jón Trausti bendir réttilega á að frjálshyggjumenn heimti sem mest frelsi til bílaakstrar en það frelsi rekst á frelsi manna til að fara um Reykjavík gagnandi. Helmingur borgarlands fari undir umferðarmannvirki. Með svipuðum hætti hafi sumir frelsi til að kaupa upp land í stórum stíl og girða það af, banna öðrum að ferðast um landið. Með þessu takmarki þeir frelsi manna til að ferðast óhindrað um og njóta náttúrunnar.
Nefna má að bandarískur fræðimaður, Cheney Ryan, notað svipað dæmi í gagnrýni sinn á frjálshyggjuspeki heimspekingsins Ronerts Nozicks. Hann benti á að þetta þýddi að einkaeign gæt stundum heft ferðafrelsi, því væri einkaeignarétturinn ekki alltaf bandamaður frelsisins, gagnstætt því sem frjálshyggju-Nozick ímyndaði sér.
Fjölbrigði frelsisins.
Þessu er ég algerlega sammála og bæti við: Það er ekki til nein konungsleið að því eina sanna frelsi og hinum eina sanna frelsisskilningi. Heimspekingurinn Charles Taylor segir að hvað sem tauti og rauli sé gildismat á endanum mælikvarði á frelsi. Í hinu örfátæka alræðisríki Norður-Kóreu séu kannski færri frelsisathafnir bannaðar en hjá okkur því lítið sé um umferðarljósi sem banni mönnum að ganga eða aka. En við teljum okkar samfélög samt mun frjálsari þar eð við metum tjáningarfrelsi og annað slíkt meir en frelsi frá umferðarljósum. Ég met t.d. upplýsingafrelsi meir en rétt ríkisbubba til að leyna upplýsingum um tekjur sínar enda tel ég að auðvald takmarki frelsi. Þetta er ekki bara huglægt mat heldur styð ég það rökum sem sum hver eru ættuð frá Jóni Trausta, önnur frá Ryan, enn önnur frá Taylor og Stiglitz. Og sum frá mér sjálfum.
SUSarar hafa annað gildismat, mat sem ég tel lakara en mitt mat, en þeir eru að sjálfssögðu á annarri skoðun. Þeir styðja sitt gildismat rökum sem ég er ekki sammála.
Lokaorð.
SUS sussar ekki endilega á frelsið enda frelsi aðallega til í fleirtölu og engin formúla fyrir beitingu hugtaksins um frelsi. SUSararnir sussa hins vegar á gott gildismat og hagsmuni alþýðu manna.
Þeir standa með hinum ofurríku.
Heimildir:
Jón Trausti Reynisson (2019): „Frelsið til að vita“ Stundin.
Cheyney C. Ryan (1981): "Property Rights and Individual Liberty", J. Paul (ritstjóri): Reading Nozick. Totowa, N.J.:Rowman & Allanhead, bls. 323-343.
Joseph Stiglitz (2002): Globalization and its Discontents. Harmondsworth: Penguin Books.
Charles Taylor (1996a): "What is Wrong With Negative Liberty?", Philosophical Papers 2. Cambridge: Cambridge University Press, Bls. 211-229.
Athugasemdir