Stóra ættarnafnamálið o.fl.
Á feisbók kennir margra grasa. Ein jurtin er ritdeila þeirra Hannesar Gissurarsonar og Árna Snævarr, sá síðarnefndi er reyndar mér náskyldur. Árni gagnrýnir Hannes fyrir múslimafóbíu og að sverta verkalýðshreyfinguna, auk þess að lofa hinn varhugaverða Bolsanaro, Brasilíuforseta. Sá hefur komið með fjandsamlegar yfirlýsingar um homma og konur, auk þess að dásama herforingjastjórnina sem lengi réði Brasilíu. Með því sé Hannes kominn býsna langt frá frjálshyggjunni. Hannes svarar með einkar málefnalegum hætti, Árni sé með ættarnafn og slíkt beri vitni um snobb og fordild. Honum bæri að kenna sig við foreldra sína eins og venjulegir Íslendingar. Árni svarar með því að benda á að Geir Haarde, Þór Whitehead, Ólafur Thors, og fleiri pólitískir samherjar Hannesar, séu eða hafi verið með ættarnöfn. Hann spyr hvort Hannes telji að þessir menn séu eða hafi verið þjakaðir af snobbi og fordild. Og hefði getað bætt við að Hannes gerist með þessu kommúnistamæltur, kommarnir hafa löngum talið sér trú um að fólk með ættarnöfn gíni yfir öllu, sú della verður hrakin hér að neðan.
Frjálshyggja
Ég er ekki sammála Árna um að Hannes hafi fjarlægst frjálshyggjuna að ráði með þessum ummælum. Nefna má að frjálshyggjumenn hafa ávallt haft horn í síðu verkalýðshreyfingarinnar. Hún trufli hið ginnhelga gangvirki markaðarins, skekki hans hátign. Sú staðreynd að austurríski einræðisherrann Engelbert Dollfuß braut verkalýðshreyfinguna á bak aftur er af mörgum talin vera ein af ástæðum þess að frjálshyggjupáfinn Ludwig von Mises gekk til liðs við einræðisstjórnina. Einnig hefur verið bent á að frjálshyggjumenn eru efins um ágæti lýðræðisins, því hafi Mises ekki endilega fúlsað við einræði Dellufúsa. Áður hafði hann lofsungið ítalska fasismann og sagt að hann hefði bjargað evrópskri siðmenningu. Hvað um það, frjálshyggjumenn segja að það sem þeir kalla „frelsi“ sé forsenda lýðræðis, en ekki öfugt. Þótt lýðræðið sé að jafnaði illskásti kosturinn þá geti það ógnað frelsinu. Stjórnmálamenn hyllist til að kaupa atkvæði með skattfé og ýta undir hið illa velferðaríki en það ógni frelsinu. Mig rekur minni til þess að íslenskur frjálshyggjumaður hafi skrifað að sem stendur (ca. 1980) væri lýðræðið helsti ógnvaldur frelsisins. Það er því ekkert ófrjálshyggjulegt við að lofa forseta sem hælir einræðisstjórn.
Goðsögnin um ættarnöfnin
Hannes virðist trúa á goðsögnina um ættarnöfnin, að þeir sem hafi ættarnöfn tilheyri yfirstétt. Það er löngu liðin tíð, fyrirr aldamótin 1900 voru brögð að því að yfirstéttarmenn bæru ættarnöfn, slíkt var fágætt meðal alþýðunnar, þótt henni hafi alls ekki verið bannað að taka upp slík nöfn. En um aldamótin 1900 tóku stjórnvöld að hverja alþýðumennn til að taka upp ættarnöfn. Bláfátækur barnaskólakennari, Valdemar Valvesson, sem soltið hafði á harðindaárunum, tók upp ættarnafnið Snævarr. Um líkt leyti urðu til fleiri alþýðuættarnöfn, t.d. Eldjárn og Hafstað. Eða hvaða ríkisbubbar og valdsmenn hafa borið ættarnöfn á borð við Bergdal, Norðfjörð, Hafnfjörð, Önfjörð, og Norðdahl? Svar: Mér vitanlega enginn. Hvað þá um Snævarrættina? Faðir minn vann fyrir öllu sínu námi, fékk ekki einseyring að heiman frá 13 ára aldri enda foreldrar hans ekki aflögufær. Minnstu munaði að hann yrði að segja sig úr skóla vegna fátæktar. En með harðfylgi og dugnaði tókst honum að ná mjög góðum árangri í lífinu, það án flokks- og ættartengsla (öfundarmönnum sínum til sárrar gremju). Kannski hafa tveir aðrir einstaklingar með ættarnafnið Snævarr „meikað það“, af um það bil tuttugu manns sem bera eða hafa borið það. Af þeim sem bera/báru þetta ættarnafn eru/voru fjórir kennarar, einn prófessor, einn blaðamaður, tvær fóstrur, ein húsmóðir, einn skrifstofumaður, einn fulltrúi í banka, einn lögregluþjónn, tveir lögfræðingar hjá ríkinu, einn lögmaður, einn hagfræðingur hjá ríkinu, einn myndlistamaður og stúdent, einn prófessor og hæstaréttardómari, einn verkfræðingur (rak eigið fyrirtæki), og einn sendiherra. Það er aldeilis yfirstétt í lagi, vita ekki allir að kennarablækur, fóstrur, blaðamenn og bankafulltrúar ráða öllu og eiga allt? Í fullri alvöru: Hvar eru þingmennirnir og stórauðvaldsseggirnir í þessari fjölskyldu? Eins og sjá má er um að ræða ósköp venjulega íslenska fjölskyldu, hið sama gildir líklega um flestar ættarnafnaættir, annars staðar en í hugarheimi íslenskra kommúnista og Hannesar Gissurarsonar. Ef Hannes meinti það sem hann sagði, það er alls óvíst.
Lokaorð
Ættarnafnatuðið er vægast sagt þreytandi. Eins og annað tuð.
Athugasemdir