Stjúphundurinn Gaia, f. 14/2 2001, d. 17/12 2015
Stjúphundur minn, tíkin Gaia, lést í fyrradag, tæplega fimmtán ára gömul. Greindur og geðgóður hundur af kyni Parson Russell. Hún var yfirleitt vingjarnleg við jafnt hunda sem menn, og einstaka kött. Hún hafði tvímælalaust ákveðinn sjarma, í hvert sinn sem ég kom með hana til dýralæknis hrópuðu starfskonur upp yfir sig "Gaia! Gaia!" Enda flaðraði hún upp um þær og dillaði skottinu með ótrúlegum ákafa.
Ef ég hafði boð var hún ekki sein á sér að sjarma gesti upp úr skónum og varð miðdepill veislunnar.
Sunir lesenda muna kannski sögur mínar um stjúphundinn sem ég sagði í eyjublogginu. Kveikjan að þeim var Gaia, ég gætti hennar lengi á meðan eigandinn var á sjúkrahúsi og svaf hún til fóta hjá mér. Ég var farinn að tala við hundinn án þess að taka eftir því, þetta eintal varð að samtölum við stjúphundinn í bloggfærslunum góðu.
Í dag eru hundrað ár síðan franska stórsöngkonan Edith Piaf fæddist. Ekki áttu þær Gaia mikið sameiginlegt nema einkar falleg brún augu. Það var sál í augum beggja.
Gaia átti til að raula með lögum á sinn spangólsmáta, kannski er hún nú á hundahimnum og raular með Piaf „Je ne regrette rien“, „ég sé ekki eftir neinu“.
Vildi að ég gæti sagt hið sama.
Athugasemdir