Stjórnin og Marx
"Þegar hnígur húm að þorra oft ég hygg til feðra vorra og þá fyrst og fremst til..."
Karls Marx sem samdi Auðmagnið. Reyndar hefur annað rit Marx verið mér hugstætt á dögum ríkra-ríkisstjórnarinnar, Kommúnistaávarpið, sem hann setti saman í félagi við Friedrich Engels. Þar segir: „Ríkisvald vorra tíma er ekkert annað en framkvæmdaráð er annast sameiginleg málefni allrar borgarastéttarinnar“ (Marx og Engels (2008), bls. 178).
Fyrir daga ríkra-ríkisstjórnarinnar fussaði ég og sveiaði yfir slíkum staðhæfingum og kenndi við dólgamarxisma. Þarf ég að útskýra hvers vegna ég hætti að fussa og sveia? Var þessi ríksstjórn nokkuð annað en framkvæmdaráð ríkisbubba? Fáum við nýtt framkvæmdaráð, ögn Evrópusinnaðra?
Stéttin og valdið (aftur)
Alla vega mega þeir Marx og Engels eiga að þeir buðu upp á fágaðri kenningar um stéttarvald en þá áðurnefndu. Í ritum á borð við Átjanda Brumaire Lúðvíks Bonaparte lagði Marx áherslu á að völd séu oft í höndum stétta-bandalaga, aukheldur gerist einstaka sinnum að eignastéttin gefist upp á að stjórna og feli skrifræðinu völdin. Þó gíni auðmagnið sjálft yfir öllu og öllum í kapítalísku samfélagi, meira að segja auðfyrirtækjum og auðmönnunum (í doðranti sínum, Auðmagninu, dregur Marx þessa mynd upp af auðmagninu). Sjálfur tel ég ekki sérlega frjótt að tala um auðmagn í eintölu, Google hefur sitt auðmagn, General Motors annað. Ekkert þessara „auðmagna“ er nógu máttugt til að sveigja allt samfélagið undir vald sitt, milli þeirra er oft togstreita. Þess utan koma auðmögn og fara, fæst risafyrirtækja nútímans voru til fyrir hálfri öld. Því má telja ólíklegt að auðmögnin sameinist í eitt ofurvalds-auðmagn. M.a. þess vegna sýnir saga kapítalismans að samfélagsvöldin eru ekki endilega í höndum eignastétta, skrifræðið er stundum öflugra og það þjónar ekki nauðsynlega auðmönnum. Gott dæmi um það er skrifræðið í skandinavískum kratalöndum. Í Noregi og Svíþjóð voru krataflokkarnir og þeim tengt skrifræði lengi langöflugustu valdaapparötin en bæði peningamenn og alþýða manna höfðu viss áhrif. Ekki má gleyma því að almenningur í lýðræðisríkjum hefur talsverð völd sem geta vegið upp á móti auðvaldi og skrifræði. Marx yfirsást möguleikinn á slíku lýðræðisvaldi. Sannleikskjarninn í marxismanum
En sá er sannleikskjarni í boðskap hans að það er kerfislæg hætta á auðvaldi í borgaralegum samfélögum. Samþjöppun auðs hefur aukist víðast hvar á síðustu áratugum og þar með hættan á ofurveldi auðsins. Ekki bætir úr skák að tekjudreifing hefur orðið ójafnari víða um heim, ekkert af þessu hefði komið Marx á óvart, öðru nær. „Þróun“ Íslands á undanförnum 25-30 árum sýnir auðvaldshættuna með skýrum hætti.
Lausnarorðið er „jafnaðarstefna“.
Athugasemdir