Stiglitz um ójöfnuð
Hvaða landi skyldi nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz lýsa með svofelldum hætti?
Auðlindir hafa verið seldar auðfyrirtækjum á spottprís enda hafi nýtingaréttur á þeim ekki verið seldar á uppboði eins og skynsamlegt sé. Hinir ofurríku hafa orðið enn ríkari vegna aðstöðuhagnaðar (e. rent profit) af þessu tagi. Í ofan á lag njóti stórfyrirtæki beinna og óbeinna niðurgreiðslna. Auk þess hafi markaðsfrelsi aukist á sviðum þar sem það á ekki heima. Það hafi gert illt verra. Eins og það væri ekki nóg þá mergsjúgi bankar almenning með allra handa klækjum. Markaðurinn er mótaður af hagsmunum auðkýfinga sem sitja beggja vegna borðsins. Þeir ríku eiga ríkan þátt í að semja lög og reglugerðir sem þjóna þeirra eiginhagsmunum. Þeim hafi tekist að forma skattakerfið sér í vil, þeir borgi hlutfallslega mun minna af tekjum sínum í skatta en venjulegir borgarar. Engan skyldi því undra þótt samfélagið sé þrælspillt, réttarkerfið og stjórnmálamenn eru að miklu leyti í vasa auðjöfra og stórfyrirtækja. Afleiðingin af þessari vanþróun er stóraukin ójöfnuður, bæði hvað varðar dreifingu tekna og eignadreifingu. Til að gera illt verra berjist ungt fólk í bökkum, námslán séu að sliga það og tekjur þess lægri en tekjur fyrri kynslóða. Því sé orðið mun algengara en áður að ungt fólk búi heima hjá foreldrum sínum, það hafi ekki ráð á að verða sér út um eigið húsnæði.
Einhverjir svara spurningu minni sjálfssagt svona: „Hann hlýtur að vera að tala um Ísland“. Nei, hann lýsir Bandaríkjum Norður-Ameríku á þennan máta, vanþróun Íslands er liður í alþjóðavanþróun. Ekki er ósennilegt að hneigð íslenskra hægri-ráðamanna til að stæla Bandaríkin eigi sinn þátt í mörgu sem miður fer á Íslandi í dag.
Vanþróun vestanhafs
Hvað um það, lítum nánar á boðskap Stiglitz eins og hann birtist í tveimur nýlegum bókum, The Price of Inequality og The Great Divide. Hann hefur enga trú á því að frjáls markaður sé mögulegur. Markaðir eru ávallt mótaðir af gerendum, málið er að móta þá með skynsamlegum og réttlátum hætti. Að auka markaðsfrelsið með því að afnema greinarmuninn á fjárfestingabönkum og venjulegum bönkum voru mikil mistök. Þau gerðu bönkunum kleyft að spila fjárhættuspil með sparifé almennings. Svo þegar bankarnir fóru á hausinn var þeim bjargað með skattfé almennings og ekki einn einasti fjárglæframaður sóttur til saka fyrir afbrot. Ekki bætir úr skák að Bandaríkin eru ekki lengur land möguleikanna, félagslegur hreyfanleiki er nú minni þar vestra en víða annars staðar á Vesturlöndum, ekki síst á Norðurlöndum. Það er sem sagt ekki lengur auðveldara að „,meika það“ vestanhafs en austan. En hver er kostnaðurinn af ójöfnuði? Eitt er fyrir sig að tekjutap almennings leiðir til minni eftirspurnar sem aftur dregur úr hagvexti. Annað er að ójöfn tekju- og eignadreifing dregur úr möguleikum hinna fátæku á að nýta hæfileika sína. Vannýttir hæfileikar þýða minni hagsæld og lakari kjör flestra. Nú er svo komið að Bandaríkin eru ekki lengur það land heimsins þar sem hlutfallslega flestir einstaklingar hafa lokið háskólaprófi. Háskólavist er orðin afar dýr og námslán æ þyngri baggi á menntafólki. Ungt fólk hafi tvo kosti og hvoruga góða: Annað hvort að láta eiga sig að ganga menntaveginn og uppskera láglaunastörf alla ævi. Eða skakklappast þá þyrnum stráðu braut og koma úr námi með níðþungar skuldabyrðir. Síður menntað starfsfólk er síður framleiðið en velmenntað fólk. Því tapi allir Bandaríkjamenn á þessari mennta-minnkun. Ríka pakkið sendir börn sín í einkaskóla og sjálft sig á einkasjúkrahús, lætur keyra sig á einkavegum og býr í víggirtum hverfum. Því er ekki að undra þótt það skilji ekki þörfina á opinberum fjárfestingum í innviðum, heilsu og menntun. Skortur á slíkum fjárfestingum stórskaði efnahagslífið. Eitt er fyrir sig að fjárfestingarleysið þýðir minni eftirspurn, annað að æ lélegri heilsugæsla þýði að launþegar hafi lélegri heilsu en áður sem aftur dregur úr afköstum þeirra. Hinir ofurríku verði að skilja að það er þeim sjálfum í hag að draga úr ójöfnuði. Ójöfnuðurinn hefur dregið úr framleiðni og hagvexti, þegar til lengdar lætur tapi þeir fokríku á því.
Aðrar heimildir sem staðfesta boðskap Stiglitz
Nefna má að OECD stofnunin er sama sinnis og Stiglitz. Fyrir nokkrum árum birti stofnunin skýrslu þar sem áætlað er að Nýja Sjáland og Mexíkó hefðu misst af 10% hagvexti vegna aukins ójafnaðar á tímabilinu 1988-2008. Meira að segja Svíþjóð og Noregur hafi tapað vegna þess að ójöfnuður hafi aukist. Hvað um staðhæfingar Stiglitz um aukið auðvald vestanhafs? Bandarísku fræðimennirnir Martin Gilens og Benjamin I. Page gerðu empiríska úttekt á ýmsum kenningum um vald í amerísku samfélagi. Sú kenning sem kom best út úr rannsókninni var kenningin um hlutdrægt fjölmiðjukerfi (e. biased pluralism). Samkvæmt henni er bandarískt samfélag vissulega fjölmiðjusamfélag (í slíku samfélagi eru ýmsar valdamiðjur, engin ein valdamiðja eins og er í alræðisríkjum). En kerfið dregur samt taum ríkisbubba og stórfyrirtækja í mun ríkari mæli en almennings, það er því hlutdrægt (Gilens og Page (2014): 564-581). Séu niðurstöður þeirra Gilens og Page réttar þá staðfesta þær staðhæfingar Stiglitz. Hræddur er ég um að Ísland sé komið góða leið með að verða eins, hlutdrægt fjölmiðjusamfélag. Gegn því ber að berjast með oddi og egg.
Lokaorð
The Price of Inequality er mjög læsileg og fróðleg bók, The Great Divide er bara safn af tækifærisgreinum um sama efni, ágæt sem slík. Ég hef stiklað á stóru í þessari umfjöllun um bækurnar, Stiglitz hefur miklu fleira til málanna að leggja en það sem hér er nefnt. Áhugamenn um aukin jöfnuð ættu að lesa þessi ágætu rit.
Heimildir:
Martin Gilens og Benjamin I. Page (2014): “Testing Theories of American Politics: Elites, Interest Groups, and Average Citizens”, Perspectives on Politics, September Vol. 12, No. 3, bls. 564-581.
Joseph Stiglitz (2012): The Price of Inequality. Harmondsworth: Penguin Books.
Joseph Stiglitz (2015): The Great Divide. Unequal Societies And What We Can Do About Them. New York og London: W.W. Norton & Company.
http://www.oecd.org/newsroom/inequality-hurts-economic-growth.htm.
Athugasemdir