Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Skjervheim og gagnrýnin vísindi

Norski heimspekingurinn Hans Skjervheim (1926-1999) hefði orðið níræður

á þessu ári ef hann hefði lifað. Hann hóf feril sinn sem talsmaður fyrirbærafræði en nálgaðist með árunum hina svonefndu gagnrýnu kenningu Frankfurtarskólans. Þekktasti  fulltrúi hans í dag er þýski heimspekingurinn  Jürgen Habermas. En Skjervheim  gat aldrei sætt sig marxismann, taldi hann hafa varhugaverðar stjórnlyndar hliðar. Einnig væru ýmsar af meginkennigum hans ekki sannfærandi, t.d kenningin um gildisaukann (Skjervheim 1976: 453-477). Frankfurtarskólinn hafi gert mistök er hann kenndi sig við marxisma (Habermas gekk síðar af Marxtrúnni). Skjervheim varði kenninguna um gagnrýnin vísindi með öðrum og ómarxískum hætti en Franklfurtarmenn. Samkvæmt þessari kenningu eru sumar fræðigreinar í eðli sínu gagnrýnar á samfélagið, þær geta ekki verið hlutlausar. En til að skilja kenningu Skjervheims verðum við fyrst að líta á það sem hann sagði um hlutgervingu.

Hlutgerving

Skjervheim  segir að  í  náttúruvísindum sé ekkert mál að hlutgera viðfangið, steinn, gerill eða öreind hafa ekkert sem minnir á vitund, engan huglægan þátt. Öðru máli gegnir um félagsvísindin, vísindamaðurinn geti ekki hlutgert viðfangið algerlega. Þetta skýrist ef maður gerir sér grein fyrir því að engin einstaklingur getur hlutgert innstöður (hugsanir og upplifanir) sínar algerlega. Hugsum okkur að hann hugsi H1 (hugsun 1) „auðvitað er hægt að hlutgera sjálfan sig“. Hann reynir nú að hlutgera þessa hugsun með því að beita hana orsakaskýringum. Hann hugsar H2 „ástæðan fyrir því að ég hugsaði þessa hugsun er sú að mér var kennt í háskóla að hugsa með raunspekilegum hætti“. Nú verður hann að skýra þessa hugsun með því að hugsa t.d. H3  „ég hef meðfædda tilhneigingu til að hugsa hlutlægt“. Ljóst má þykja að hann lendir í vítarunu, hann getur aldrei hlutgert allar sínar raunverulegu og mögulegu hugsanir (þessi rökfærsla á sér rætur hjá Kant). Hann verður því að gera ráð fyrir því að hann sé sjálfsvera og hlýtur að viðurkenna að aðrir menn séu það líka. Ef hann ætlar sér að hlutgera algerlega þá menn sem hann rannsakar þá lendir hann í mótsögn við sjálfan sig: Allir menn eru algerlega hlutgeranlegir, ég er maður en ekki alveg hlutgeranlegur (Skjervheim 1959).

Áhorfandinn og þátttakandinn

Skjervheim snýr sér nú að spurningunni um hlutlægni vísinda. Ekkert mál er fyrir náttúruvísindamanninn að skoða viðfangið utan frá, vera áhorfandi. Hann getur ekki gert sjálfan sig að öreind eða gerli þótt hann rannsaki slík fyrirbæri. Öðrum máli gegnir um félagsvísindamanninn. Það er erfitt fyrir  hann  að vera  hreinræktaður  áhorfandi að því samfélagi sem hann rannsakar.. Við höfum þegar séð að hann getur ekki hlutgert þá sem hann  rannsakar algerlega, það gerir honum erfitt um vik að útiloka þátttakandahlutverkið algerlega. Satt að segja getur hann ekki komist hjá því að vera að nokkru leyti þátttakandi, raunverulegur eða virtúell þátttakandi. Hugsum okkur fræðimann sem rannsakar orsakir glæpa, hann kemst að þeirri niðurstöðu að meginorsök þeirra sé að glæpamenn séu aldir upp í fátækt,  af einstæðum mæðrum. En glæpamennirnir hafa kannski sjálfir allt aðra skýringu. Ef fræðimaðurinn trúir sinni eigin skýringu þá verður honum að vera röklega kleift að verja skoðun sína í rökræðu við glæpamennina og sýna fram á að þeirra skýring sé ósönn, hans sönn. Þeir eiga möguleika á því svara honum og andæfa kennimgu hans. Þannig er félagsvísindamaðurinn virtúell þáttakandi í rökræðu við „viðfang sitt“. Félagsvísindamaðurinn getur aldrei verið hreinræktaður áhorfandi að samfélags-leiknum, hann er ávallt mögulegur eða raunverulegur þátttakandi í krafti sinna fræða. Marxistar hafi ekki skilið þetta til fullnustu, þeir hafi í reynd trúað því að hægt væri að skoða menn sem leiksoppa samfélags og sögu, eins konar hluti.

Að réttlæta eða vanréttlæta

Skjervheim  segir að kenningar í félagsvísindum geti  ekki verið hlutlausar um pólitískt gildismat. Annað hvort réttlættu þær eða vanréttlættu þau viðhorf sem menn hafa til samfélagsins. Þær geta líka réttlætt það viðhorf að í lagi sé að vera skoðanalaus en eins og sjá má verður líka að réttlæta það viðhorf. Í tilviki glæpafræðingsins vanréttlætir hann skoðanir glæpamannanna á glæpum.  Samfélagið er sjálft að nokkru skapað úr þeim skoðunum sem menn hafa, t.d. skoðunum  á glæpum. Tökum hreinpólitískt dæmi:  Staðhæfi hagfræðingur að frjáls markaður sé besta leiðin til hagsældar þá réttlætir sú staðhæfing skoðanir tepokalýðsins ameríska en orkar sem gagnrýni á þær hugmyndir sem útbreiddar eru í Vestur-Evrópu. Félagsvísindi séu í eðli sínu gagnrýnin vísindi, annað hvort orka kenningar þeirra sem gagnrýni á samfélagið eða sem gagnrýni á þá sem gagnrýna samfélagið. Eða sem gagnrýni á þá sem halda að fræðimaðurinn geti ekki verið hlutlaus  (Skjervheim 1996: 51-72, 209-225).

Skjervheim leit svo á að gagnrýnin vísindi væru andstæða hlutlausra vísinda, ekki  íhaldssamra vísinda. Eins og áður segir geta gagnrýnin vísindi verið íhaldssöm, þau eru ekki vinstrisinnuð í eðli sínu. Skjervheim  var andsnúinn þeirri hugmynd Frankfurtarskólans  að félagsvísindi ættu að vera gagnrýnin eingöngu með þeim hætti að þau gagnrýndu ríkjandi skipulag.

Á efri árum snerist Skjervheim gegn póstmódernisma sem hann taldi hreinræktaðan súbjektífisma. Rök póstmódernista væru sjálfskæð, þeir rökstyddu þá skoðun að allar skoðanir væru súbjektífar og því ekki rökstyðjanlegar.

Lokaorð

Skjervheim var að ýmsu leyti merkilegur hugsuður en skorti þolinmæði og úthald til að vinna vel úr hugmyndum sínum. Íslenskir áhugamenn um heimspeki og samfélagsfræði gætu samt lært margt af honum. Gagnrýnin kenning á tvímælalaust erindi við hugsandi mið-vinstrisinna. Kannski gekk Skjervheim aðeins of langt í höfnun á marxisma, mér sýnist að sumar af hugmyndum Marx um auðvald og stéttakúgun eigi erindi við nútímafólk, ekki síst Íslendinga.

 

Heimildir

Skjervheim, Hans (1959): Objectivism and  the Study of Man. Ósló: Universitetsforlag.

 

Skjervheim, Hans  (1976): Deltakarar og tilskuarar og andre essays. Ósló: Aschehoug.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni