Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

SKÁLDSVANUR DEYR. Birgir Svan Símonarsson 3 nóvember 1951-25 desember 2020

Á jóladag barst mér sú sorgarfregn að fornvinur minn, meginskáldið Birgir Svan Símonarson væri dáinn.

Hann var eins og ljóðin sín: Hjartahlýr, viðkvæmur, rómantískur, fyndinn, hæðinn, gagnrýninn, þrjóskur og skapmikill.  

Honum samdi ekki við Bókmenntabáknið og Báknverjar hefndu sín. Þeir beittu sínu beittasta vopni gegn honum: Þögninni.

Þeim tókst næstum að þagga ljóðrödd hans í hel, hann er ekki nefndur í miklu yfirliti yfir íslenska rithöfunda á heimasíðu Bókmenntavefjarins, síðu Reykjavíkur sem bókmenntaborgar. Það þótt  að  á þeirri síðu séu flestir sótraftar á sjó dregnir.

Ekki hafa háskólamenn ofreynt sig á að fjalla um ljóð hans og mér vitanlega hefur hann aldrei komið við sögu Kiljunnar.

Nýlega birti tímaritið Skandali grein mína „Hulduskáld“ þar sem ég kynni kveðskap Birgis. Ég legg áherslu á hina miklu fjölbreytni hans, stundum er ort innilega, stundum hæðnislega. Stundum er náttúran í fyrirrúmi, stundum nöpur sjómennska, oft ljóðlistin. Og hvorki skortir myndvísi né  hugkvæmni. Því til sannindamerkis skal vitnað hér í ljóðið Raddæfingar í bókinni Laufsegl frá aldamótaárinu:  

                   „Þessi síða er þerripappír

                     sem drekkur í sig þúsund tár

                     í slíkan efnivið má einnig móta bros…“ (bls. 47)

 

Skáldsvanurinn er þagnaður. Hann syngur ekki framar um ástina, ljóðlistina, sjómennskuna, náttúruna, tilvistina. En söngvarnir lifa.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu