Skáldið og þingið
Á mínum æskudögum þóttu mér íslenskir vinstrimenn helsti bókmenntasinnaðir. Mér fannst þeir sjá heim stjórnmálanna einungis gegnum sjóngler fagurbókmennta, ekki síst bóka Laxness. Ég talaði hæðnislega um skáldbjálfa og litter-rata. Og sagði að hugmyndafræði þeirra mætti kalla „marxisma-laxnessisma“.
En mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan ég boðaði þessar skoðanir, nú er ég handviss um að skáldskapur geti gegn mikilvægu pólitísku hlutverki. Eistneska skáldið Jaan Kaplinski tjáði raunir sinnar undirokuðu þjóðar í ljóðum. Fólk stöðvaði hann á götu og sagði við hann "þú sagðir þetta fyrir okkar hönd".
Nú gerist að ungskáldið Valdimar Tómasson geysir fram ritvöllinn og segir slæmt að rithöfundar séu í þingframboði enda séu skáld að jafnaði allsendis órökvís. Mér er spurn: Er þingseta rökfræðipróf? Verða menn endilega betri stjórnmálamenn við það eitt að vera rökvísir? Ekki skorti Jósef Stalín rökvísi, hann beitti henni til að slátra milljónum manna (hann var reyndar líka skáld gott!). Sjálfssagt má benda á ýmsa pólitíkusa, bæði hérlenda og erlenda, sem notað hafa mikla rökvísi til að skaffa sér bitlinga og framið annan slíkan sóðaskap.
Nefna má að fólk með aspergersheilkenni er oft firna rökvíst en hefur lítinn mann- og tilfinningaskilning. Í mínum huga verður góður stjórnmálamaður að vera góður mannþekkjari, hafa tilfinningagreind og vera góð manneskja. Hafi hann þessa eiginleika þá bætir mikil rökvísi hann talsvert. En fyrirmyndarpólitíkusinn má ekki láta gæskuna eina ríkja í lund sinni. Hann verður að hafa til að bera einhverja lágmarksslægð. Franklin Roosevelt var bæði slægur og rökvís en um leið fremur góð manneskja, auk þess að vera mannþekkjari með góða tilfinningagreind. Afbragðspólitíkus.
Athugið að rithöfundur getur vel haft alla þessa kosti en um leið verið firnaskapandi skríbent. Þess utan hafa rithöfundar einatt frjótt ímyndunarafl og geta því auðgað stjórnmálin nýjum hugmyndum. Og ekki sakar að þeir eru oft mælskir og hafa fallegt tungutak, ekki veitir af mælskumönnum á Alþingi.
Hvað rökvísi og skáldskap varðar þá efast ég um að menn geti náð langt í skáldskap nema vera frekar rökvísir (þó ekki þurrpumpu-rökvísir). Það þarf lógik til að láta sagnfléttu ganga upp, góð saga hefur innra samræmi. Hið sama gildir um góða myndhverfingu.
Af þessu má sjá að það er ekkert gegn því að skáld setjist á alþingi. Alltént vil ég fremur skáldmælt fólk á þingi en það kraðak business-tossa sem tröllriðið hefur því árum og áratugum saman.
Athugasemdir