Skakki turninn í PISA
Mikið fjaðrafok hefur verið í kringum nýjasta PISA prófið þar sem íslensk
ungmenni komu illa út.
Rassvasavillan
Áberandi er að menn tala einatt eins og PISA-mælingar séu hlutlægar í sama skilningi og mæling á peningamagni í vösum manns. Skyldi ég vera með tuttugukarl norskan í jakkavösunum, eða aðeins meir? Köllum það „rassvasavilluna“ að telja PISA mælingar jafn hlutlægar og mælingar á klinki í vösum. Nú kom í ljós að sumir telja að íslenska PISA prófið hafi verið illa úr garði gert og því ekki furða þótt ungmennin hafi átt erfitt með skilja það. Tölur tala ekki sjálfar, þær verður að túlka. Og athuga bakgrunn mælinga vandlega. Ragnar Þór Pétursson leit á þann bakgrunn þegar hann hélt því fram fyrir nokkrum árum að PISA rannsóknirnar tækju ekki tillit til myndlæsis sem væri orðið jafn mikilvægt og ritlæsi.
Huglægi þátturinn
Hvað sem því líður má ekki gleyma mannlega þættinum, huglæga þættinu. Sagt er að í löndum á borð við Tævan sé skólakrökkum smalað á fundi þar sem skólastjórarnir hvetja þau eindregið að undirbúa sig vel fyrir PISA-prófin, heiður föðurlandsins sé í veði. Í Noregi aftur á móti er börnum sagt að prófin skipti engu máli fyrir námsárangur þeirra, afleiðingin er sú að þau ofreyna sig ekki á PISA-prófum, gagnstætt tævönsku krökkunum. Afleiðingin er sú að tævönsku skólarnir koma afar vel út, þeir norsku frekar illa. Huglægi þátturinn hefur um vélt, tævönsku krakkarnir hugsa stíft um nauðsyn þess að gera vel, norsku ungmennin ekki. Er hægt að mæla þennan huglæga þátt? Ég efa það.
Lokaorð
Ekki má skilja orð mín þannig að ég telja PISA prófin einskis virði, þau eru örugglega mikilvæg ábending um stöðu mála í skólum víða um lönd. Ástandið í íslenskum skólum er sjálfssagt slæmt. En hafa ber aðgát í nærveru talna og vara sig á yfirborðslegu talnahjali. Turninn í PISA er eflaust ögn skakkur en ekki kominn á hliðina enn.
Athugasemdir