Skák og mát
Sú var tíð að Íslendingar voru rómaðir fyrir skákáhuga og –getu. Breski skákmeistarinn Harry Golombek skrifaði í The Penguin Encyclopedia of Chess árið 1977:
„Iceland is one of those fortunate nations where chess seems to flow naturally in the life-blood of the people…“ (bls. 215)
En nú er öldin önnur, skákáhuginn og -getan fyrir bí. Margt bendir til þess að þjóðin tískugráðuga hafi fengið þá flugu í höfuðið að skák væri ekki nógu kúl enda tefldi kúla liðið í Ameríku ekki.
Og eru ekki tölvuleikir miklu tískuvænni?
Reykjavíkurmótið
Ekki fæ ég séð að netmiðlar nefni opna Reykjavíkurmótið sem nú er í gangi, það þótt nokkrir snjallir stórmeistarar tefli þar.
Nefna má Shakyiar Mamyedarov frá Aserbadsjan sem um nokkurt skeið hefur verið með 10-20 stigahæstu skákmönnunum.
Rússinn Dmitri Andreikin tefldi á síðasta áskorendamóti og er allsterkur.
Ekki má gleyma Alexander Beljavskí sem var einn af sterkustu skákmönnum heims í lok níunda tugarins. Má muna sinn fífil fegri enda jafn gamall undirrituðum.
Athyglisverðasti þátttakandinn er kannski hinn 19 ára gamli Richard Rapport frá Ungverjalandi. Hann teflir einhverjar furðulegustu byrjanir sem um getur, stundum svínvirkar það, stundum tapar hann illa.
Áskorendamótið
Á morgun hefst áskorendamótið í Moskvu, sigurvegarinn fær rétt til að skora Magnus Carlsen á hólm í einvígi um heimsmeistaratignina.
Ég set hér fram eftirfarandi spá.
-
Fabiano Caruana (ungur ítalsk-bandarískur skákmaður), ungur á uppleið og í stuði. Hefur sýnt að hann getur unnið ofurmót með yfirburðum. Gæti velgt Carlsen undir uggann í einvígi.
2-3. Hikaru Nakamura (BNA), hann er ekki nógu góður í viðureign við þá albestu til að vinna þótt hann rusli veikari skákmönnum.
Anish Giri (Hollandi), nýr Petrosjan, tapar næstum aldrei en gerir of mörg jafntefli til að vinna mótið.
4-5. Levon Aronian (Armeníu), feykisnjall en hefur ekki taugar til að vinna mótið
Sergei Karjakin (Rússland), hefur staðnað en nýtur reynslu af áskorendamótum og heimavallar.
6-7. Vishy Anand (Indlandi), í óstuði og of gamall
Pjotr Svidler (Rússlandi), ekki alveg nógu góður og ekki nógu ungur.
8. Veselin Topalov (Búlgaríu), í óstuði og of gamall.
Lokaorð
Ég lýk þessari færslu með tilvitnun í eitt af kvæðum Einars Benediktssonar:
„Upp með taflið, ég á leikinn!“
Athugasemdir