Sjallar: "Kaupiði gamla ísskápa, étiði bara kökur!"
Það kennir margra grasa í grein Jóhanns Páls Jóhannssonar um ríkidæmi og breytingar á virðisaukaskatti.
Breytingarnar leiði til þess að verð á matvöru hækki, verð á heimilistækjum lækki.
Þetta er slæmt fyrir hina fátæku, gott fyrir hina ríku.
Að sögn Jóhanns Páls ver Sjálfsstæðisþingmaðurinn Vilhjálmur Bjarnason þessa breytingu með nýrri brauðmolakenningu, ísskápamolakenninguna.
Vilhjálmur mun segja að ef skattbreytingin leiði til þess að hinir efnameiri kaupi sér ný heimilistæki þá megi ætla að hinir efnaminni geti keypt notuð heimilistæki af þeim á lágu verði.
Ísskápsmolinn hrynur úr eldhúsi hinna ríku niður í eldhús fátæklinganna og allir verða hamingjusamir.
Engu lakari er vörn Sigríðar Andersens fyrir skattbreytingunni.
Hún viðurkennir að matvörur komi til með að hækka fyrir vikið en bendir á snjalla lausn:
Menn hætti að fókusera svona mikið á mat og kaupi minna af honum.
Þegar soltinn Parísarlýðurinn heimtaði brauð er sagt að Frakkadrottning, María Antoinette, hafi mælt:
„Af hverju borða þau þá ekki bara kökur?“
Hver veit? Kannski eru gömlu ísskápar ríka fólksins fullir af kökumolum.
Athugasemdir