Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Sitthvað um risaeðlur og tímann

Ein af skáldssögum Jóns Kalmans ber heitið Sitthvað um risafurur og tímann.

En ég ætla ekki að tala um skáldskap, heldur pólitík. Og byrja á því sem virðist sagnfræðilegur útúrdúr en er það ekki.

Í lok fornaldar voru tvö meginstórveldi í Miðausturlöndum og þar um kring. Annað  var hið austrómverska eða býsanska keisaradæmið sem hafði Kontantínópel að höfuðborg en hún heitir nú Istanbul. Íbúarnir töluðu flestir grísku og voru yfirleitt kristinnar trúar.

Hitt stórveldið var „Eranshahr“, Íransveldi, sem laut keisurum af Sassanídaætt. Ríkjandi trúarbrögð var Zaraþústratrúin, höfuðborgir ýmsar, einna helst var Ctesiphon í því sem nú heitir Suður-Írak. Stórveldin höfðu att kappi öldum saman, rétt eins og risaeðlurnar í Godzilla-myndunum. En upp úr aldamótunum 600 e.kr. hófst örlagarík stórstyrjöld sem varði í meir en tuttugu ár. Eftir hana voru bæði ríkin örmagna, risaeðlurnar að falli komnar.

Þá gerist að á Arabíuskaga rís upp flokkur manna sem kennir sig við íslam. Þeim var mjög í mun að breiða út trú sína og sáu að heimsveldin tvö lágu vel við höggi. Þeir réðust nú inn í lönd þeirra og féll Íransveldi með braki og brestum.  Býsansríki  bjargaðist  fyrir horn en missti  stór landflæmi í hendur múslimum.

Líkja má forsetaframbjóðendunum, Ólafi Ragnari og Davíð,  við þessi stórveldi. Hver veit nema barátta þeirra hvor við annan veiki þá báða svo mjög að þriðji frambjóðandi vinni sigur. Kannski sagnfræðingur sem veit lengra en nef hans nær um risaeðlur og tímann sem engu eirir.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni