Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Sigmundur Ernir skáldar um Sjálfsstæðisflokkinn

Ritstjóri Fréttablaðsins, Sigmundur Ernir Rúnarsson, er eins og alþjóð veit skáld og sýnir skáldleg tilþrif í nýlegum leiðara.

Í honum má finna lofgerðaróð um Sjálfsstæðisflokk fortíðarinnar og drög að sálmi um  hinn ginnhelga frjálsa markað.

Flokkurinn hafi á árum áður barist gegn ríkisafskiptum, fyrir einstaklingsfrelsi og frjálsum viðskiptum. En á síðari árum hafi hann snúist gegn hinni goðumlíku frjálshyggju, fyrir vikið hafi  fylgi hans snarminnkað.

                                                 Flokkurinn

Að gamni slepptu þá er þessi mynd ritstjórans af Sjálfsstæðisflokknum vægast sagt furðuleg.

Þorvaldur Gylfason dregur upp allólíka mynd, hann segir að á dögum Ólafs Thors hafi flokkurinn verið hafta- og skömmtunarmegin.

Hann hafi þá sem nú ýtt undir óæðri endann á stórútgerðinni, fyrir utan að njósna um samborgara sína.

Það er mikið til í þessu, þess utan er ósennilegt að flokkurinn hafi misst fylgi vegna þess að hann sé  ekki lengur frjálshyggjunnar megin.

Fátt bendir til þess að allur almenningur sé frjálshyggjusinnaður, mig rámar í skoðanakönnun sem sýndi að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vildu ríkisrekið heilbrigðiskerfi.

Fylgishrun Sjálfsstæðisflokksins á sér aðrar rætur, í reiði almennings út af hruninu,  óánægju með stuðning flokksins við kvótakerfið og óvinsældir hrokafullra flokksbrodda.

Sigmundur gefur í skyn  að Samfylkingin hafi misst fylgi vegna þess að hann fjarlægst hina meintu frjálshyggjusinnuðu miðju.  

Eitt er fyrir sig að miðjan er ekki ýkja frjálshyggjusinnuð, samanber skoðanakönniuna. Annað er að vandi Samfylkingarinnar er margþættur.

Hann er ekki síst sá að flokkurinn  hefur fjarlægst hefðgróna jafnaðarstefnu og orðið í ríkum mæli rétthugsunarflokkur.

Það er því ekki ljóst að flokkurinn hafi færst til vinstri á efnahagssviðinu þótt hann hafi orðið vinstrisinnaðri á menningarsviðinu.

Hann er orðinn að rétthugsandi útgáfu af Kvennaframboðinu sáluga.

                                            Frjálshyggjan

Sigmundur notar ómerkileg áróðursbrögð til að skapa jákvæða mynd af frjálshyggjunni, t.d. með því að nota orðið „ríkisafskipti“.

Af hverju ekki „ríkisþátttöku“? Slík þátttaka er stundum af hinu góða, stundum ekki.

Sjálfsstæðisflokkurinn var reyndar með hálfgildings frjálshyggjuafstöðu til almenningssamgangna. Þegar hann réði Reykjavík var borgin skipulögð sem amerísk bílaborg löngu áður bílar urðu almenningseign.

Lítið var gert til að efla almenningssamgöngur með þeim afleiðingum að fólk átti ekki annarra kosta völ en að skaffa sér bíl.

Ef hið opinbera eflir almenningssamgöngur þá á fólk fleiri kosta völ en ella og er því frjálsara fyrir vikið. Þannig getur ríkið eflt frelsi.

Hvað viðskiptafrelsi varðar er það ekki alltaf hagkvæmt. Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz og fleira stórmenni benda á að iðnvæðing sé illframkvæmanleg nema nýjabrum í iðnaði sé verndað með tollmúrum.

Þannig iðnvæddust Bandaríkin og Suður-Kórea bak við slíka múra. Ríkis-„afskipti“ eru því ekki alltaf neikvæð.

                                 Lokaorð

Sigmundur Ernir ætti að gefa skáldinu í sér frí þegar hann semur leiðara. Leiðari er ekki ljóð.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu