Ríkradýrkun
Frjálshyggjumenn hafi margir hverjir ríka hneigð til ríkra-dýrkunar, dálæti á peningamönnum. Félags-darwinistinn og frjálshyggjumaðurinn William Graham Sumner (1840-1910) hélt því fram að milljónamæringar væru afsprengi náttúruvalsins.
Hagfræðingurinn frægi, Alfred Marshall (1842-1924) viðurkenndi vissulega að til væru þeir sem hefðu orðið ríkir vegna bolabragða.
En að minnsta kosti annar hver megin snillingur Vesturlanda ástundar atvinnurekstur eða stendur í viðskiptum, kvað Marshall. Viðskiptamenn hafa stuðlað að meiri framförum en annað fólk, margir þeirra hafa jafngóða heila og fremstu skákmeistararnir.
Spurt er: Væri ekki ráð að fjármálasnillingarnir á Kvíabryggju færu að tefla? Veröldin hefur áreiðanlega misst af meiriháttar skáksnillingum þegar Kvíarbryggjuliðið fór í útrás.
Áður nefndur William Irwin er áreiðanlega róttækari frjálshyggjumaður en Marshall var.
Rifjum upp spekimál hans: „The bottom earners owe a debt of gratitude to the top for the spillover, which they did not earn and without which they would be worse of“ (The Free Market Existentialist, bls. 158)
Hann virðist ekki fráhverfur hinni ofstækisfullu Ayn Rand (1905-1982). Í sinni eymdarlegu skáldssögu, Atlas Shrugged, talar hún eins og athafnamenn og skapandi listamenn skapi mest allan auð, menn séu upp til hópa afætur (hún talar um „looters“ sem þýðir ekki nákvæmlega „afætur“ en af samhenginu má ráða að „looters“ séu afætur). Þetta úrvalslið segir sig úr lögum við samfélagið, fyrir vikið verður efnahagshrun.
Laxness skrifaði Sjálfsstætt fólk sem andsvar við skáldssögu Knuts Hamsuns, Gróðri jarðar. Hvernig væri að skrifa andsvar við sögunefnu Rands? Köllum hana „Atlas fær einn á baukinn“. Í þeirri skáldssögu neitar venjulegt fólk að vinna fyrir athafnamennina, afleiðingin verður sú að þeir falla úr hor.
Víkur nú sögunni aftur í tímann, til útrásaráranna. Þá voru auðmenn dýrkaðir á Íslandi, kosið var um besta auðmanninn. Undirritaður andæfði dýrkuninni og hlaut bágt fyrir, var stimplaður "kommúnisti".
Nú er öldin önnur, auðkýfingar eru hataðir eins og Gyðingarnir í Þýskalandi forðum. Best er að finna meðalhófið, finna meðalveginn milli dýrkunar og haturs.
Mórallinn er að samfélagið er þéttriðið net þar sem bæði athafnamaðurinn, skáldið, verkamaðurinn og kennarinn leika mikilvægt hlutverk. En engin leikur aðalhlutverkið, flest störf eru nauðsynleg samfélaginu. Svo er best að dýrka sem fæst og sem fæsta, ljúkum þessari færslu á spekimálum meistara vors frá Minnesota, Bob Dylans:
„It‘s easy to see without looking too far that not much is really sacred“.
Athugasemdir