Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Rifkin og nýtt Netþjóðfélag

Fyrir skömmu kynnti ég lesendum bók Paul Masons Postcapitalism. A guide to our future. Þar nefndi ég skoðanabróður Masons, bandaríska hagfræðinginn Jeremy Rifkin en þeir virðast hafa komist að áþekktum niðurstöðum óháðir hvor öðrum. Kapítalisminn sé hallur úr heimi vegna þess að hann hafi getið af sér tækni sem muni ganga að honum dauðum. Innan tíðar verði ekki hægt að græða svo neinu nemi á Netstarfsemi. Hún muni taka yfir æ stærri hluta efnahagslífsins. Í staðinn fyrir markaðssamfélag komi einhvers konar samvinnustarfsemi, líkust þeirri sem á sér stað hjá Wikipediu.

Jaðarkostnaður hverfur!

Rifkin telur reyndar að einhvers konar kapítalismi muni lifa við hlið samvinnukerfisins um all nokkurt skeið. Bók hans kom út ári fyrr en kver Masons, árið 2014. Hún ber heitið The Zero Marginal Cost Society. Þýða mætti heiti bókarinnar sem “Samfélag án jaðarkostnaðar”. Jaðarkostnaður (e. marginal cost) er heildarkostnaðurinn af að framleiða eina einingu í viðbót af tiltekinni vöru. Rétt eins og Mason telur Rifkin að tölvutæknivæðingin muni leiða til þess að jaðarkostnaðurinn hverfi nánast. Það kostar talsvert að framleiða nýtt eintak af hljómdiski sem þýðir að það er talsverður jaðarkostnaður af henni. En það kostar sama sem ekkert að afrita tónlistina á Netinu. Hverfi jaðarkostnaðurinn þá hverfur möguleikinn á gróðabralli. Um leið hverfur skortur á ýmsum varningi því það er næstum óendanlega mikið framboð á möguleikum á að afrita tónlist, bækur, líkön af flugvélum, tölvum o.s.frv. Þrívíddarprentun og annað slíkt muni skapa möguleika á því að framleiða varning í stofunni heima. Menn hætti að vera „consumers“ og verði „prosumers“, „framleiðslu-neytendur“. Þess utan geti þrívíddarprentun nýtt hráefni mun betur en nútíma verksmiðjur, með allmiklu minni vistskaða.

Net hlutanna

Rifkin talar um „Net hlutanna“: «The Internet of things will connect every thing with everybody in an integrated global network» (Rifkin, blaðsíða 11). Nú stefni allt í að tölvuvædd tæki „tali saman“, bíllinn getur sent bílskúrsdyrunum fyrirmæli um að opnast. Dyrnar geta svo aftur verið í talsambandi við vélar hinum megin á hnettinum og allt gúmmelaðið í talssambandi við menn. Tækin verða æ sjálfstýrðari, þau munu framleiða vörur fyrir nánast ekki neitt. Framleiðslan verður meira eða minna sjálfvirk. Samtenging tækjanna geri líka að verkum að hægt verði að nýta orku miklu betur en núna, orkan er út um allt og með næmum tækjum má fanga hana hér og hvar. Orkuna sem fer í að ganga um gólf má nýta, þökk sé slíkum apparötum. Menn munu ekki þurfa að vinna sérlega mikið, vélarnar taka yfir.

Samvinnu-almenningur

Netið mun verða nýr almenningur, samvinnu-almenningur (e. Collaborative Commons). Nú þegar sjái hann til þess að það dragi úr vægi einkaeignar, aðgengi (e. access) verði mikilvægari en einkaeign. Menn séu hættir að kaupa hljómdiska en láti sér nægja aðgengi að tónlist á Netinu, aðgengi sem þeir deili með milljónum annarra. Nú þegar dragi úr vægi læknisþjónustu því menn geti sjúkdómsgreint sjálfa sig og fundið meðöl á Netinu væna. Menntun verði líka ódýrari vegna Netvæðingar, nú geti menn hvaðanæva á hnettinum fylgst með sömu fyrirlestrum og tekið sömu prófin. Taki hundrað þúsund manns saman námskeiðið þá ætti að vera hægt að stilla greiðslum fyrir þátttöku í hóf. Vægi deilihagkerfis og allra handa samvinnufyrirtækja aukist, þau eru hlutar af samvinnu-almenningnum. Rifkin andæfir þeirra kenningu að almenningur leiði til harmleiks (e. the tragedy of the commons). Hann vitnar grimmt í rannsóknir nóbelhagfræðingsins Elinor Ostrom sem komst að þeirri niðurstöðu að almenningurinn geti virkað vel undir vissum kringumstæðum. Rifkin tekur sem dæmi lítið sveitasamfélag í Sviss þar sem almenningurinn hefur virkað æði vel í samræmi við reglur sem íbúarnir settu sér fyrir rúmum fimm öldum. Einnig gagnrýnir Rifkin hina vinsælu kenningu um að menn séu eigingjarnir í eðli sínu og vitnar í ýmsar rannsóknir, máli sínu til stuðnings (í bók minni Kredda í kreppu kemst ég að sömu niðurstöðu og vitna í svipaðar rannsóknir). Þeir sem þekkja kenningar Karls Marx sjá að hér er kominn Netútgáfa af kenningum hans um kommúnismann. Mason er reyndar mun uppteknari af Marx en Rifkin, hann vitnar t.d. í rit Marx Grundrisse þar sem Marx ræðir möguleikann á einhvers konar sam-heila samfélagsins, eins konar Neti. Rifkin er meiri umhverfisverndarsinni og telur að samvinnu-almenningurinn geti leyst ýmis af umhverfisvandamálum okkar. Hann er þó ekki bara bjartsýnn heldur varar við meiriháttar vistslysum vegna hnattrænnar upphitunar og annars slíks. Nú sé hafinn meiriháttar útrýming lífvera í boði mannkynsins, það geti tekið 10 milljónir ár að bæta þann skaða. Einnig óttast Rifkin tölvuþrjóta, sem geti skapað neyðarástand, takist þeim að stöðva raforkuframleiðslu. Lausin sé hin dreifða raforkuframleiðsla sem Net hlutanna getur skapað.

Rifkin og Mason

Rifkin og Mason eru báðir af hinni margfrægu sextíuogáttakynslóð. Eins og margir vestur-evrópskir vinstrimenn af þeirri kynslóð er Mason upptekinn af Marx. Eins og margir bandarískir vinstrimenn á sama aldri er Rifkin umhverfisverndarsinni fremur en marxisti. Í færslunni um Mason viðraði ég ýmsar efasemdir um þessar hugmyndir og hyggst ekki endurtaka þær hér. Ég vil þó bæta við að hugsanlega muni draga svo mikið úr nýsköpun í sæluríki þeirra Masons og Rifkins að það muni ógna undirstöðum hagkerfisns. Samt eru þetta lang slagferðugustu hugmyndir róttækra vinstrimanna sem fram hafa komið um langt skeið.

Píratar og vinstrimenn: Lesið Rifkin og Mason en með gagnrýnu hugarfari!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni