Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

R-LISTA Á LANDSVÍSU, TAKK!

Margir vinstrimenn hugsa nú með söknuði til hinna sælu daga R-listans sem batt endahnút á áratuga veldi Sjálfsstæðisflokksins í Reykjavík.

Menn hafa nefnt þann möguleika að Vinstri græn og Samfylkingin tækju höndum saman og byðu fram með sama hætti á landsvísu í næstu Alþingiskosningum.

Afbragðsgóð hugmynd, flokkarnir hafa sýnt að þeir geta unnið saman í ríkisstjórn.

Engin goðgá væri að bjóða fleiri flokkum aðild að listanum, t.d. Bjartri framtíð.

Auk þess gæti „Í-listi“  snaraukið samanlagt fylgi flokkanna, þeir eru sem kunnugt er  í lægð ef trúa má skoðanakönnunum.

Það þrátt fyrir einkar óvinsæla hægriríkisstjórn og þrátt fyrir mikla jafnaðarbylgju í samfélaginu.

Fyrir áratug mátti ekki minnast á jöfnuð, nú er hann hjartans mál æði margra Íslendinga.

Íslendingar eru nýjungagjarnir og væru því margir tilbúnir að veita nýjum lista stuðning.

Þessi listi myndi hafa stefnuskrá í anda hófsamrar jafnaðarstefnu, boða upptöku veiðigjalds í sjávarútvegi, nýja og samfélagssinnaða stefnu í orkumálum.

 Stefnt yrði að því að koma á auðlindasjóði en í hann rynni rentan af sjávarútvegi og orkusölu.

ESB-aðild yrði lögð í dóm kjósenda.

Lista-flokkarnir ættu að sameinast um eitt forsætisráðherraefni, sá flokksformaður sem ekki hlytist sú upphefð héldi að sjálfssögðu sinni formannsstöðu.

Enginn tapar andlitinu, allir vinna.

Nú er lag, brýnt er að vinstrimenn og skynsamir miðjumenn  taki nú þegar að vinna að þessu þjóðþrifamáli.

Stofna þarf feisbókarsíðu um málið og það með hraði!

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni