Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Popper og nasisisminn

Ég fór fremur lofsamlegum orðum um heimspekinginn Karl Popper í bloggi nýskeð. Nú er kominn tími til að gagnrýna kappann. Hann hélt því fram að þýski heimspekingurinn G.W.F. Hegel hefði verið andlegur faðir jafnt marxisma sem nasisma. Marx sjálfur hefði reyndar verið skynsemis- og frelsissinni en hegelskur arfur hafi eitrað marxismann og gert hann að alræðisspeki. Sá arfur væri trúin á sögulega nauðsyn, þ.e. hugmyndin um að mannkynssagan lyti járnhörðum, óumbreytanlegum lögmálum. Nasistar og kommúnistar hefðu fengið þessa hugmynd í tannfé frá honum  en hún væri alræðishvetjandi. Í hugum kommúnista væri stéttarbaráttan hreyfiafl sögunnar, í hugum nasista barátta kynþátta. Sigursælar stéttir og kynþættir væru siðferðilega í rétti hvað sem tautaði og raulaði. Söguleg nauðsyn væri þeirra megin og réttlæta mætti hvaða grimmdarverk sem vera skuli í hennar nafni. Því ættu voðaverk kommúnista og nasista sömu rætur, þessar stefnur væru greinar á sama meiði. Það þótt Marx hafi sjálfur slegið allra handa varnagla og sagt söguna sköpunarverk manna o.s.frv. Það sem geri marxismann að sjálfsstæðri stefnu, og ekki bara almennri vinstristefnu, sé þessi trú á nauðsyn (Popper 1962). Það fylgir sögunni að íslenskir frjálshyggjumenn héldu þessum kenningum Poppers mjög á lofti, ekki síst Ólafur Björnsson í bók sinni Frjálshyggja og alræðishyggja.

Popper svarað

Þessi gagnrýni Poppers  á ef til vill við um kommúnista en tæpast nasista. Hitler nefnir ekki Hegel á nafn í doðranti sínum Mein Kampf (Barátta mín). Að svo miklu leyti sem nasistar höfðu hugmyndafræði má finna hana í þessum doðranti, að einhverju leyti líka í   bók Alfreds Rosenbergs Goðsögn tuttugustu aldarinnar (Der Mythus des 20. Jahrhunderts). Rosenberg hamast þar gegn Hegel og segir beinum orðum að hugmyndir Hegels séu framandi þýsku blóði (Rosenberg 1934: 525). Til að gera illt verra sé heimspeki hans andstæð ekta norrænum trúarbrögðum, auk germanskra og grískra vísinda (Rosenberg 1934: 287). Heimspekingurinn Anthony Quinton segir að Hitler hafi hreint ekki trúað á  lögbundna sögulega framvindu og hafi haft lítinn áhuga á sértækan  fræðavaðal af því tagi sem Rosenberg setti saman. Það litla sem Hitler hafi lesið í fræðum Rosenbergs hafi hann talið alltof abstrakt (Quinton (1975): 155). Þetta held ég að sé hárrétt. Alla vega hef ég ekki fundið nein merki um trú á sögulega nauðsyn í Mein Kampf. Vissulega segir Hitler á einum stað að til séu ófrávíkjanlegt náttúrulögmál sem kveða á um að þeir veiku hljóti að tapa fyrir hinum sterku í lífsbaráttunni (Hitler 1943: 311-312). En þetta er fremur dólgadarwinismi en hegelsk kenning um lögbundna framvindu sögunnar. Þvættingur Hitlers um vonsku gyðinga er ekki rökstuddur neinum sögulegum nauðynjarökum. Hatrið, ekki heimspekin, er meginburðarás nasismans, hatrið á Gyðingum, kommúnistum, og á lýðræðinu. Auk þess leikur þjóðremba og dýrkun á Hitler veigamikið hlutverk. En remba og foringjadýrkun er vel möguleg án hátimbraðra kenninga.

Lokaorð

Popper reynir að draga nasista og kommúnista upp á sömu seil, seilina Hegels og altækra hugmynda. En þótt kommarnir séu kannski auðdregnir upp á seil þessa gildir annað um nasista. Vart er hægt að tala um heildrænt hugmyndafræðikerfi hjá nasistunum, hvað þá hegelska heimspeki.

Heimildir:

Hitler, Adolf (1943): Mein Kampf. München: Zentralverlag der NSDAP.

Popper, Karl (1962): The Open Society and its Enemies. Volume II: Hegel and Marx. Princeton, New Jersey: Princeton University Press.

Ólafur Björnsson (1978): Frjálshyggja og alræðishyggja. Reykjavík: Almenna bókafélagið. Quinton, Anthony (1975): “Karl Popper (b. 1902): Politics without Essences”, í De Creespigny, Anthony og Minogue, Kenneth (1975): Contemporary Political Philosophers. London: Methuen, bls. 147-167.

Rosenberg, Alfred (1934): Der Mythus des 20. Jahrhunderts. Eine Wertung der seelisch-geistigen Gestaltenkämpfe unserer Zeit. München: Hoheneichen-Verlag, http://www.hschamberlain.net/rosenberg/mythus1_0.html. Sótt 12/7 2012.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Innflytjendur á Íslandi
Samtal við samfélagið#15

Inn­flytj­end­ur á Ís­landi

Ís­land hef­ur tek­ið um­tals­verð­um breyt­ing­um und­an­farna ára­tugi. Eft­ir að hafa löng­um ver­ið eitt eins­leit­asta sam­fé­lag í heimi er nú svo kom­ið að nær fimmti hver lands­mað­ur er af er­lendu bergi brot­inn. Inn­flytj­end­ur hafa auðg­að ís­lenskt sam­fé­lag á marg­vís­leg­an hátt og mik­il­vægt er að búa þannig um hnút­ana að all­ir sem hing­að flytja geti ver­ið virk­ir þátt­tak­end­ur á öll­um svið­um mann­lífs­ins. Til að fræð­ast nán­ar um inn­flytj­enda hér­lend­is er í þess­um þætti rætt við Dr. Löru Wil­helm­ine Hoff­mann, nýdoktor við Menntavís­inda­svið Há­skóla Ís­lands, þar sem hún tek­ur þátt í verk­efn­inu “Sam­an eða sundr­uð? Mennt­un og fé­lags­leg þátt­taka flótta­barna og -ung­menna á Ís­landi.” Hún starfar einnig sem stunda­kenn­ari við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri og Há­skól­ann á Bif­röst. Sjálf er Lara þýsk en rann­sókn­ir henn­ar hverf­ast um fólks­flutn­inga, dreif­býli, tungu­mál og list­ir en hún varði doktors­rit­gerð sína í fé­lags­vís­ind­um við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri ár­ið 2022. Tit­ill doktors­rit­gerð­ar­inn­ar er „Að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi: Hug­læg­ar vís­bend­ing­ar um að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi byggð­ar á tungu­máli, fjöl­miðla­notk­un og skap­andi iðk­un.“ Guð­mund­ur Odds­son pró­fess­or í fé­lags­fræði við HA ræddi við Löru en í spjalli þeirra var kom­ið inn á upp­lif­un inn­flytj­enda af inn­gild­ingu, hlut­verk tungu­máls­ins, stærð mál­sam­fé­laga, sam­an­burð á Ís­landi og Fær­eyj­um og börn flótta­fólks.