Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Popper og Kuhn: Lokaorð

Ég hef bloggað talsvert um kappana tvo, Kuhn og Popper, og er mál að linni. Ég hyggst gera stuttlega grein fyrir helstu veilunum í kenningum þeirra um vísindin en jafnframt benda á að álitsgjafar á íslandi gætu  lært ýmislegt af báðum. Einnig hyggst ég kynna kenningu mína um dulda pólitíska þætti í kenningum beggja, þættir sem þeir voru tæpast meðvitaðir um.

Að gagnrýna Kuhn og Popper

Popper taldi sem frægt er orðið að einungis sé hægt að afsanna vísindakenningar, hvorki sanna þær né staðfesta. Tilleiðsla (e. induction) væri blekking, við beitum henni ekki í reynd og engin leið er að sanna eitt né neitt með tilleiðslu. Því meira afsönnunargildi sem kenning hefur, því betri vísindakenning er hún.

En þetta stenst ekki. Ef svo væri mætti telja kenninguna um að tölvan min sé úr grænum osti vísindalega. Hana má nefnilega afsanna, hún hefur sennilega mikið afsönnunargildi eins og góð kenning á að hafa samkvæmt kenningum Poppers. Ástæða þess að við vísum henni á bug er einfaldlega sú að við höfum engar sannanir fyrir henni. Kenningin verður vart vísindaleg nema að við höfum eitthvað í höndunum sem styður hana, einhvers konar staðfestingar. Því er vandséð hvernig hægt er að henda hugmyndinni um staðfestingar fyrir borð vísindaskútunnar eins og Popper vill. Segjum að Villi vísindamaður telji sig hafa afsannað kenningu K. Þá setur hann í reynd fram kenninguna K1 „K er hér með afsönnuð". En ekki er nokkur lifandi leið að taka K1 alvarlega nema hægt sé að finna einhverjar staðfestingar fyrir henni. K1 verður sem sagt að vera staðfest af reynslunni en tæpast er hægt að staðfesta kenningu nema beita tilleiðslu. Sé svo þá eru afsannanir ekki mögulegar nema með fulltingi einhvers konar staðfestinga og tilleiðslu. Popper kastar barninu (tilleiðlsu og staðfestingum) út með baðvatninu og gerir afsönnunum of hátt undir höfði. Vísindaheimspekingurinn Paul Feyerabend talar um þrjóskureglu (e. principle of tenacity) Kuhns. Kuhn taldi að það væri yfirleitt skynsamlegt að ríghalda í kenningu þótt hún virtist afsönnuð, vísindasagan sýni að flestar meintar afsannanir hafa ekki reynst standa undir nafni. Ég man ekki hvort Kuhn nefnir eindakenninguna um ljós en hún var talin afsönnuð á nítjándu öldinni. En Einstein hressti upp á hana, hún kom aftur þökk sé honum. Hvað geta álitsgjafar lært af þessu? Að það geti verið skynsamlegt að verja skoðun þótt hún virðist standa höllum fæti í augnablikinu.

Um leið geta þeir lært sitthvað af Popper. Það er stundum skynsamlegt að reyna að afsanna eigin skoðanir eða gera þær þannig úr garði að þær séu afsannanlegar. Viðurkenna t.d. að menn séu tilbúnir að gefa tiltekna stjórnmálaskoðun upp á bátinn við þessi eða hin skilyrði.

Nú er kominn tími til að gagnrýna Kuhn. Hann segir að í vísindasögunni skiptist á tímaskeið venjuvísindi og byltingarvísinda. Venjuvísindin með sinni samstöðu og þröngsýni séu forsendur byltingarvísinda þar sem margir skólar keppi. En kannski er þetta rangt. Gæti hugsast að á sérhverju augnabliki í sögu vísindagreinar megi í henni finna bæði byltingar- og venjuvísindaþátt? Kannski eru stöðug víxlhrif, díalektísk tengsl, milli þáttanna. Byltingarþátturinn nærist á venjuvísindaþættinum, sá síðarnefndi á þeim fyrrnefnda. Kannski felst vísindalegur skynsamleiki í jafnvægi milli þáttanna og virkum víxlhrifum.

Auk þess er Kuhn er eins og nýr Óðinn er situr í sinni Hliðskjálf og hefur víðsýni mikið yfir vísindin. Með öðrum orðum, hann talar eins og hann hafi vísindin á hreinu. Er það víst?   Ef vísindamenn eru að jafnaði bundnir á klafa viðtaka og enginn algildur vísindalegur sannleikur er til, af hverju skyldi þá vera til algildur sannleikur um vísindin? Getur þá nokkur maður haft vísindin á hreinu? Þurfum við þá endilega að trúa staðhæfingum Kuhns um vísindin? Vissulega eru þessar staðhæfingar ekki hluti af neinu viðtaki svo Kuhn fellur ekki beinlínis á sjálfs síns bragði. Vandi Kuhns er sá að það skýtur skökku við að tala eins og vísindin séu bundin á afstæðisklafa viðtakanna, vísindafræðin ekki. Gætu þau ekki verið bundin á slíkan  klafa sem væri annars eðlis en viðtök? Nóg er af klöfum.

Vísindaheimspekin í dag

Mikið vatn er til sjávar runnið síðan þeir Popper og Kuhn háðu sína hildi. Meðal greiningarspekinga hefur umræða um veruleikastefnu  (e. realism) verið áberandi  og ýtt pælingum í anda Poppers og Kuhns til hliðar. Minni áhugi er á aðferðafræði en áður, nú er verufræði vísinda í brennidepli sem hún ekki var í hugsun Poppers og Kuhns. Tala má um verufræðileg hvörf (e. ontological turn) vísindaheimspekinnar. Til dæmis segir breski vísindaheimspekingurinn Philip Kitcher að framfarir í vísindum feli í sér æ nákvæmari eðlisákvörðun fyrirbæra á borð öreindir. Einnig hafa vísindaheimspekingar beint sjónum að þekkingarfræði í ríkari mæli en áður. Ungur Íslendingur, Finnur Dellsén, hefur lagt fram drjúgan skerf til þeirra pælinga.

Róttæk afstæðisstefna hefur líka átt fylgi að fagna, þó fremur meðal meginlandsspekinga og pragmatista en greiningarspekinga. Samt eru tveir helstu forsprakkar afstæðishyggjunnar, þeir Barry Barnes og David Bloor, ættaðir úr greiningarspekinni. Þeir snupra Kuhn fyrir ónóga afstæðishyggju.

Duldir þættir

Þótt Popper hafi aldrei verið eiginlegur frjálshyggjumaður þá hefur Hannes Gissurarson lög að mæla er hann segir að Popper tali eins og góð vísindi einkennist af frjálsri samkeppni hugmynda. Vísindin séu eins og frjáls markaður. Bestu kenningarnar standa sig þokkalega vel í samkeppninni, hinar fari „á hausinn“. Popper notar ekki þetta markaðslíkingarmál en hefði getað gert það. Ég vil bæta við að það má með vissum rétti líkja viðtökum við velferðarríki. Þau vernda lítt megandi kenningar, bjarga þeim frá afsönnun enda sé það vísindunum til góðs að mati Kuhns. Líka mætti líkja viðtökum við efnahagslegar áætlanir. Megininntak viðtakanna er gefið fyrirfram eins og fimm ára efnahagsáætlun. Allir þegnar verða að leggjast á eitt til að hægt sé að ná markmiðum fimmára áætlunar. Með líkum hætti má segja að allir venjuvísindamenn verði að leggjast á eitt til að ná markmiðum þeim sem byggð eru inn í viðtökin. Venjuvísindamenn reyna að leysa þær gátur sem viðtakið býður upp, rétt eins og verkamenn í áætlunarkerfi reyna að framfylgja fimm ára áætlunum ríkisins. Enn fremur skarar engin þeirra fram úr, allir venjuvísindamenn eru jafnir. Auk þess minnir þeirra mikli agi, samstaða og samstarf á þá kratísku samstöðu og aga Norðmanna sem gerði olíusjóðinn mögulegan. Heimur venjuvísindanna hefur því sósíalískan og/eða kratískan þátt, þótt það hafi örugglega ekki verið ætlun hins ópólitíska Kuhns. En kenningar geta haft þætti sem upphafsmönnum þeirra yfirsést. Popper var frjálslyndur jafnaðarmaður á þeim árum þegar hann mótaði hugmyndir sínar um vísindin og hefur það tæpast verið hans ætlun að styðja við bakið á frjálshyggju með vísindaheimspeki sinni.

Efist einhver um að Popper hafi verið jafnaðarmaður má benda á eftirfarandi tilvitnun í hann: „We must demand that unrestrained capitalism give way to an economic interventionism“ (Popper (1962): The Open Society and its Enemies. 2 Princeton University Press, bls. 125).

Kuhn var prófessor í heimspeki og vísindasögu

Svo lokaorð um þá fáránskenningu Hannesar og félaga um að Popper hafi verið vísindaheimspekingur, Kuhn bara vísindasagnfræðingur. Staðreyndin er sú að Kuhn var prófessor i heimspeki við Princeton-háskóla og MIT, venjan er að telja slíka prófessora heimspekinga. Sú staðreynd að hann var eðlisfræðingur að mennt breytir engu um það. Popper var með doktorspróf í sálarfræði og Nietzsche var menntaður í málvísindum, alls ekki heimspeki. Engu að síður er venjan sú að flokka Popper og Nietzsche með heimspekingum.

Lokaorð

Vonandi hefur góðfús lesandi haft gagn og gaman af færslum mínum um þá félaga. Mikilvægt er að hafa í huga að ég einfalda flókið mál allhressilega. Enda blogg ekki vettvangur fyrir djúpar, fræðilegar pælingar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni