Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Píratar og frelsi (?) frjálshyggjunnar

 Pírataflokkurinn er að mörgu leyti merkileg stjórnmálasamtök.

Vandinn er sá að erfitt getur reynst að átta sig á stefnumálum hans. Stefnuskráin er mjög almennt og óljóst orðuð. Þó má sjá að flokksmenn  eru  hallir undir beint lýðræði og  endurskoðun á höfundarétti. Svo virðist sem flokkurinn telji að menn eigi að vera frjálsir til að nýta allt sem á Netinu birtist, að það skuli ekki verndað með höfundarétti.  En sá er hængur á að hugtakið um frelsi er hvergi skilgreint í stefnuskrá flokksins, aðeins talað almennum orðum um ágæti þess. Stefna beri að auknu frelsi, segja Píratar. Vandinn er hér margþættur: Til eru margvíslegar skilgreiningar á frelsi, misgáfulegar, skilgreiningar sem einatt stangast á. Til dæmis eru  hugmyndir Pírata um frelsi sem höfundaréttarleysu  beinlínis andstæðar frelsishugmyndum frjálshyggjunnar. Samkvæmt þeim er vernd einkaeignaréttar, að höfundarrétti meðtöldum, nauðsynleg forsenda frelsis. En Píratar hafa í reynd anarkískar hugmyndir um frelsi, höfundaréttur á Netefni skerðir frelsið að þeirra mati, samanber kjörorð anarkistans Pierre-Joseph Proudhons „einkaeign er þýfi“.

Frelsi og velferð

Þótt velferðarmál séu ekki nefnd í því sem skrifað er um grunnstefnu Pírata þá sýna Netkosningar þeirra um einstök stefnumál að þeir eru fylgjandi sósíaldemókratískri velferðarstefnu. Til dæmis studdi yfirgnæfandi meirihluti þeirra tillögu um að gera tannlækningar að hluta af almennum sjúkratryggingum (því er ekki til að dreifa í hinum erkikratíska Noregi eins og undirritaður hefur orðið áþreifanlega var við). En frjálshyggjumenn telja velferðaríki andstætt  frelsi. Að skikka menn til að borga í almennar sjúkratryggingar segja  þeir kúgun af verri taginu. Að neyða tannlækna til að beygja sig undir ríkissjúkrakerfið telja þeir engu minni kúgun.  Píratar lofa hinn  frjálsa markað á heimasíðu sinni en athuga ekki að það er ekki bæði hægt að fylgja alfrjálsum markaði og velferðaríki. Velferðaríkið takmarkar markaðsfrelsi á vissum sviðum.  

Frelsi og lýðræði

Þess utan eru  frjálshyggjumenn þeirrar hyggju að lýðræði geti ógnað frelsinu. Bæði geti meirihlutinn kosið yfir sig stjórn sem stútar frelsinu, eins geti frelsið minnkað smám saman vegna þess að stjórnmálamenn hyllist til að nota skattfé til að afla sér hylli kjósenda. Þess utan geti menn  verið frjálsir þótt þeir búi ekki við lýðræði. Í  víðfeðmu og beinu lýðræði er hættan sú að  fjöldi ákvarðana verði  tekin með „kollektífum“ hætti, ákvarðanir sem best væri að hver og einn einstaklingur tæki sjálfur. Þannig geti víðfeðmt lýðræði ógnað einstaklingsfrelsinu. Best sé að hafa lýðræðið sem takmarkaðast, hugsanlega mætti binda kosningarétt við eign. Enda borgi eignamenn mestan skattinn og hafi síður tilhneigingu til að auka skattheimtu og þar með ógna markaðsfrelsinu.  Skemmst er frá að segja að þessar efasemdir  frjálshyggjumanna um ágæti lýðræðis ganga þvert á boðskap Pírata.

Pettit

Þeir ættu að kynna sér kenningar írska heimspekingsins Philip Pettits sem andæfir þeirri frjálshyggjukreddu að frelsi og lýðræði séu andstæður. Hann talar um “frelsi sem forræðisleysu” (e. liberty as non-domination). Menn geti lifað lífi sínu óáreittir en samt verið upp á náð annarra manna komnir. Þessir menn geta  látið geðþótta sinn ráða ef  þeir afráða  að láta aðra  í friði og gera þá þannig frjálsa að hætti frjálshyggjunnar (frjálshyggjumenn segja menn frjálsa ef enginn treður þeim um tær). En þessir menn eru ekki raunverulega frjálsir því afskiptaleysið sem þeir búa við sé skilyrt (e. contingent), tilviljunum undirorpið, segir Pettit. Það vildi einfaldlega svo til að ákveðnir einstaklingar ákváðu að láta þá í friði. Þeir lúti forræði þessara einstaklinga, þeir séu upp á náð þeirra komnir og frelsi þeirra sé því takmarkað. Þetta þýðir m.a. að menn geti ekki verið frjálsir í einræðisríki. Þótt einræðisherrann leyfi þegnum sínum allra náðarsamlegast að valsa frjálsir um þá lúta þeir eftir sem áður forræði hans. Gagnstætt því sem frjálshyggjumenn segja geta menn ekki verið frjálsir í einræðisríki, staðhæfir  Pettit.

Norman

Hvað með velferðaríkið, er sjálfgefið að það ógni frelsinu? Ekki ef marka má skrif breska heimspekingsins Richard Normans. Menn  geti  ekki verið frjálsir nema að eiga einhverra kosta völ (gagnstætt því telja frjálshyggjumenn að menn geti verið frjálsir þótt þeir eigi engra kosta völ). Því betri og fleiri sem kostirnir eru og því hæfari sem við erum til að velja, því frjálsari erum við. Frelsi er því ekki aðeins fjarvera ytri tálmana eins og frjálshyggjumenn segja, heldur líka möguleikinn á vali. Frelsi er á vissan hátt vald (og val). Góð efnaleg kjör, menntun og pólitískt vald geta aukið hæfni okkar til að velja og fjölga um leið kostunum sem kjósa má um. Hafi hann á réttu að standa þá getur velferðarríkið aukið frelsi okkar því það getur bætt kjör manna og eflt menntun þeirra. Norman bætir því við að frelsi og jöfnuður þurfi ekki að vera andstæður, gagnstætt því sem frjálshyggjmenn segja.  Menn eigi að hafa sem jafnastar tekjur, nokkurn veginn jafnmikil völd og sem jafnasta möguleika á menntun. Frelsi og jöfnuður mætast því á miðri leið, allir eiga helst að njóta jafnmikils frelsis.

Lokaorð

Hugsandi Píratar  ættu að kynna sér kenningar þeirra Proudhons, Pettits og Normans. Píratar ættu að athuga sinn frelsis-gang ögn betur, athuga hvort bæði sé hægt að lofa frjálsan markað og mæla með aukinni velferð, beinu lýðræði og höfundarréttarlausu Neti.

PS Það sem stendur um frjálshyggjuna, Pettit og Norman í þessari bloggfærslu er ættað úr bók minni Kredda í kreppu.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni