Pawel og hinn "frjálsi" markaður
Mig minnir að eftirfarand hafi gerst um 1983, á þeim árum þegar Íslendingar ferðuðust enn í strætisvögnum.
Ég stóð og beið eftir strætó, tveir eldri menn stóðu mér við hlið og fannst mér ég kannast við annan þeirra, vita að hann væri ráðuneytisstjóri. Þeir ræddu saman um menn og málefni og bar Hannes Gissurarson á góma. Ráðuneytisstjórinn sagði „hann hefur gjörbreytt tveimur stjórnmálaflokkum, Sjálfsstæðis- og Alþýðuflokk, gert þá markaðssinnaða.“ Hannesi tókst ekki að frjálshyggjuvæða Ísland en afrekaði að gera (hjá)trú á hinn helga frjálsa markað öflugri en Kristni á Fróni. Enda er staðalgagnrýni á þessa markaðstrú að heita óþekkt á Íslandi.
Trúarjátning Bartoszeks
Nú gerðist á dögunum að Pawel Bartoszek yfirgaf Sjálfsstæðisflokkinn og gekk til liðs við Viðreisn, mér og mörgum öðrum til óblandinnar ánægju. „Af ánægju út að eyrum hver einasta kerling hló…“, allt sem veldur klofningi Íhaldsins vekur mér ánægju. Síður ánægjulegt þótti mér tíst Pawels um lífskoðun sína, hann segist trúa á borgaraleg réttindi, frjálsan markað og alþjóðalega samvinnu. Ekki nefnir hann velferðaríki og það þótt hann sé fylgjandi hinu velferðarsinnaða Evrópusambandi. Þessi trú hans er augljóslega hægritrú og spyrja má hvort hann þekki nokkra gagnrýni á hugmyndina um frjálsan markað og hnattvæðingu. Beinum sjónum okkar að markaðstrúnni. Meinið við hugmyndina um hinn frjálsa markað er að hún er illframkvæmanleg, rétt eins og hugsjónir kommúnista. Frjáls markaður er sjálfsskæður sem þýðir að hann grefur undan sjálfum sér. Hvers vegna?
Rök Stiglitz
Í fyrsta lagi hefur nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz lög að mæla er hann segir að forsenda þess að markaður sé frjáls sé að allir markaðsgerendur hafi jafn mikla og alfullkomna yfirsýn yfir alla kosti. En útilokað sé að menn hafi slíka yfirsýn því hún krefst þess að menn séu alvitrir, það eru þeir ekki og geta ekki orðið. Auk þess er markaðsþekking misdreifð, hinir auðugu og voldugu hafa að jafnaði betri yfirsýn en almúginn. Þetta þýðir að markaðurinn getur aldrei orðið alveg frjáls.
Stiglitz er tíðrætt um ósamhverfa (e. asymmetric) þekkingu markaðsgerenda. Gott dæmi gæti verið þrælahaldið sem sumir erlendir verkamenn lenda í á Íslandi. Atvinnurekendurnir íslensku hafa miklu meiri þekkingu á lögum og allri aðstöðu en erlendu verkamennirnir. Það er ein af ástæðum að þeir hafa hreðjartök á þessu ólánsama verkafólki, örlög þess sýna að hnattvæðingin er hreint ekki fullkomin.
Rök Grays
Í öðru lagi leiðir breski heimspekingurinn John Gray athyglisverð rök að þeirri kenningu sinni að allar tilraunir til að raungera alfrjálsan markað séu dæmdar til að misheppnast. Enda sé ekki hægt að markaðsvæða að viti nema með því að efla ríkisvaldið til muna. Gray var áður ráðgjafi Margrétar Thatcher og segir að til að markaðsvæða námurnar varð að siga lögreglunni á verkalýðsfélögin. Skattgreiðendur borguðu brúsann. Auk þess hafi orðið að beita ríkisvaldinu fyrr á öldum til að skapa einkaeign á bresku beitarlandi sem áður var almenningur. Almenningur hafi einfaldlega verið rekinn af almenningnum svo hægt yrði að skapa “frjálsan” markað fyrir jarðnæðið. Það gleymist oft að gjafakvótakerfið var tilraun til markaðsvæðingar sem artaði sig með líkum hætti og markaðsvæðing almenningsins breska. Hvað sem því líður þá staðhæfir Gray að ríkið þurfi oft að hreinsa til eftir frjálshyggjupartíinn, t.d. mislukkaða einkavæðingu Thatchers á félagslegum íbúðum. Vandinn er sá að efling ríkisvaldsins dregur úr markaðsfrelsi um leið og hún er forsenda þess.
Hætta af auðsöfnun
Í þriðja lagi leiðir markaðsfrelsi til mikillar auðsöfnunar þeirra sem „vinna“ í samkeppninni. Menn sem auðgast verulega á frjálsum markaðsviðskiptum gætu freistast til að nota það vald sem auðurinn veitir til að kaupa sér hylli stjórnmálamanna og fá þá til að taka markaðinn úr sambandi sér í vil. Mikil auðsöfnun á frjálsum markaði getur því grafið undan markaðnum.
Markaðsdrifinn einokun
Í fjórða lagi geta frjáls markaðsviðskipti stuðlað að samþjöppun auðs og fákeppni, nóta bene í vissum atvinnugreinum og á vissum tímaskeiði. Einokun og fákeppni ganga að markaðsfrelsinu dauðu.
Í lok nítjándu aldarinnar var markaðsfrelsi allmikið vestanhafs, hlutur ríkisins í þjóðartekjum var ekki nema 2-3%. Samt eða þess vegna náðu auðkýfingarnir einokunaraðstöðu. Fyrirtæki John Rockefellers Standard Oil réði 90% af olíumarkaðnum, stálfyrirtæki Andrew Carnegies voru í svipaðri aðstöðu. Þriðji meginríkisbubbinn, J.P. Morgan var sérfræðingur í yfirtöku fyrirtækja, ekki síst í því verða sér út um einokunaraðstöðu með því að bræða saman keppinautum í tilteknum bransa. Töluðu menn um “morganization” og tóku þeir Rockefeller og Carnegie að leika sama leikinn. Á okkar dögum má tala markaðsdrifna fákeppni/einokun í tölvubransanum. Tökum Microsoft sem dæmi, fyrirtækið er svo gott sem heimseinokunaraðili á forritunarmarkaðnum, sú einokun var ekki sköpuð af ríkisvaldinu. Það kostar firnaháar fjárhæðir að búa til nýja útgáfu af Windows en bókstaflega ekkert að afrita þær. Norski hagfræðingurinn Bent Sofus Tranøy segir að við þessar aðstæður sé stórrekstur mjög hagkvæmur, kostnaðurinn dreifist á urmul afrita en um leið er mjög erfitt fyrir keppinautana að komast inn á markaðinn því ný forrit eru feikidýr. Auk heldur er þessi einokun eða einsleitni sumpart hagkvæm fyrir neytandann því hann græðir á því að margir noti sömu forrit. Eitt er fyrir sig að auðvelt er að taka á móti skjölum ef allir nota Word, annað er að auðveldara er að læra á forritunarkerfin ef velflestir nota sama kerfi, þá geta menn hjálpað hver öðrum. Gallinn sé sá að Microsoft eigi alls kostar við neytandann, geti látið gömul forritunarkerfi eyðileggjast og þannig neytt neytandann til að taka í notkun nýtt kerfi annað hvert ár. Þannig getur markaðurinn skapað einokun og þar með grafið undan sjálfum sér.
Lokaorð
Auðvitað er ekki gefið að allt sem hér stendur sé satt og rétt. En athugið að þótt einungis staðhæfingar Stiglitz væru sannar eða ef staðhæfingin um samþjöppun væri ein sönn þá væri eftir sem áður satt að ekki sé hægt að koma frjálsum markaði á koppinn.
Í ofan á lag er alls ekki gefið hvað markaðsfrelsi sé. Er bann við innherjaviðskiptum takmörkun á markaðsfrelsi eða forsenda þess að frjáls markaður virki? Er upphafsréttur nauðsynleg vernd einkaeignar eða einokun af verri taginu? Þetta þýðir að ekki er gefið hvað átt er við er menn segjast vera fylgjandi markaðsfrelsi.
Ekki má draga þær ályktanir af boðskap mínum að aldrei sé rétt að auka markaðsfrelsi. Auðvitað er það stundum skynsamlegt, t.d. mætti auka markaðsfrelsi í landbúnaði. En hugsjónin um frjálsan markað er tálsýn, sérhver markaður er ofin inn í menningarheima og mótaður af lifandi fólki með misgóðum hætti.
Athugasemdir