Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Paul Mason og póstkapítalisminn

 Peter Haars (1940-2005) var þýskur teiknari sem settist að í Noregi.

Árið 1971 gerði hann vinstri róttæka teiknimyndasögu sem kallaðist „Prokon“. Sagan er á þessa leið: Uppfinningarmaður finnur upp tæki sem getur skapað hvaða vöru sem vera skal, ókeypis úr engu. En peningamönnum apparatsins Prokon  líkar ekki hugmyndin þar eð gróði þeirra myndi hverfa fyrir vikið. Þeir gera því auðvaldsofurhetju út af örkinni til að eyðileggja uppfinninguna. Það tókst.

 

„Pósturinn Páll“ Mason

 

Víkjum nú að raunheimum. Ég las nýlega merka bók breska blaðamannsins Paul Masons Postcapitalism. A Guide to Our Future. Þar segir Mason að kapítalisminn sé að gera út af við sig sjálfan. Upplýsingatækni nútímans geri að verkum að hægt sé að skapa hluti ókeypis í stórum stíl. Hægt er að hala niður tónlist, kvikmyndir og bækur ókeypis. Hið sama gildi um framleiðslulíkön (e. blueprint) af ýmsum þjóðþrifatækjum, t.d. flugvélum og bílum.  Ekki er hægt að tala um markað nema hægt sé að verðleggja hluti og það er aðeins hægt verðleggja þá ef magn þeirra er takmarkað. En upplýsingartæknin gerir framboðið á lykilfyrirbærum að heita ótakmarkað og því hlýtur markaðurinn fyrir þau að hverfa. Nú þegar ryðji sér til rúms Netfyrirtæki sem ekki lúti lögmálum markaðarins. Wikipedia er ókeypis, unnin í samvinnu tugþúsunda manna, engin gróði af henni. Um leið hafi Wikipedian gert út af við lexíkona-„businessinn“ og „ræni“ auglýsingaiðnaðinn um þrjár milljarða dollara árlega. Sjórærningjaútgáfan af einum þætti Game of Thrones var höluð niður 1 ½ milljón sinnum á einum sólarhing. Löggjafinn og lögregluvaldið ein og  sér koma í veg fyrir að hver sem er geti orðið sér út um sérhvert lag sem iTunes fyrirtækið býður upp á, án þess að borga fimmeyring fyrir. Hið sama gildir um framleiðslulíkön á vélum og farartækjum.  Það er ekki heiglum hent að  tryggja einkaeignarétt á þessum fyrirbærum. Mason segir beinum orðum  að meginkenning sín sé að „…information technology has  robbed market forces of their ability to create dynamism“ (Mason (2015), bls, 30). Mason útilokar reyndar ekki að einhvers konar upplýsingakapítalismi sigri en róðurinn verði honum erfiður. Hann yrði að tryggja að verðið á upplýsingavarningi hætti að lækka en tækið til þess arna yrði harðsvíruð einokunarstarfsemi. Verðfall á slíkum varningi er einn þeirra þátta sem gerir póstkapítalismann mögulegan að sögn Mason. Ef það kostar sama sem ekkert að varðveita gífurlegt magn upplýsinga þá er erfitt að gera sér þær að féþúfu. Mason segir: „An economy based on information with its tendency to zero-cost products and weak property rights, cannot be a capitalist economy.“ (Mason (2015, bls 175).

Sálufélgar Masons

 

Kenning Mason er strangt tekið ekki ný, bandaríski 

hagfræðingurinn Jeremy Rifkin hefur talað í sama dúr. Þegar árið 2009 sögðu þau Richard Wilkinson og Kate Pickett  að Netið grafi undan hagkerfi sem hefur gróða að leiðarljósi. Tónlistariðnaðurinn er í miklum vandræðum vegna þess að svo auðvelt er orðið að hala niður tónlist ókeypis. Þetta sé aðeins byrjunin, innan tíðar muni verða æ efiðara að stunda gróðastarfsemi á æ fleiri sviðum. Lausnin sé kerfi samvinnufyrirtækja í eigu starfsfólksins enda blómstri slík fyrirtæki víða um lönd. Þau taka sem dæmi meðal annarra Sinfóníuhljómsveit Lundúna, Gore-Tex og United Airlines (Wilkinson og Pickett (2009) bls 254-263). Mason er líka upptekinn af samvinnufyrirtækjum sem hann telur að muni blómstra í póstkapítalísku skipulagi. Hann viðurkennir að slík fyrirtæki hafi oft lent illa í því. Þau hafi ekki náð í auðmagn að ráði og starfsmenn ekki viljað sætta sig við launalækkun til að afla fjármagns. Lausnin sé e.k. sameiginlegur bankarekstur fjölda samvinnufyrirrtækja (Mason (2015), bls. 276).

Í bók minni Kreddu í kreppu ræddi ég kenningar Wilkinsons og

Picketts stuttlega. Þar sagðu ég að samvinnufyrirtæki hefðu oft  tapað í samkeppni við gróðafyrirtæki í einkaeign, hvort sem það er vegna þess að samvinnufyrirtæki séu yfirleitt verr rekin eða einkaauðvaldið hafi komið  þeim á kné með bellibrögðum. Ég nefndi líka „afrek“ Sambands íslenskra samvinnufélaga sem var litlu eða engu betra en einkaauðvaldið. Enn fremur sagðist ég telja líklegt að það myndu finnast aðferðir til að koma í veg fyrir „Net-leka“, þ.e. ókeypis niðurhal (Stefán (2011), bls. 263). Ég er ekki viss um það lengur, það virðist ganga mjög brösuglega að fást við þetta vandamál. Sem kannski er ekkert vandamál. Samt finnst mér einkennilegt að tala eins og Netstarfsemi á borð við Wikipediu sé algerlega ókeypis. Eða hvers vegna er Wiki stöðugt að biðja um fjárframlög?  Einnig  finnst mér skrítið að hvorki þau skötuhjú né Mason skuli nefna landbúnað og fiskveiðar. Er líklegt að matvörur falli svo í verði að markaðurinn fyrir þær hverfi?  Og hvað með hráefnið sem tölvurnar þurfa? Meðal þess sem notað er í tölvur eru ýmis snefilefni sem erfitt er að vinna. Auðvitað gætu tölvumenn fundið nýjar lausnir sem gerði snefilefnin óþörf. En það er erfitt að sjá hvernig matur og hráefni geta orðið hartnær ókeypis. Þangað til er líklega illskást að hafa einhvers konar markað fyrir þess lags varning, hvort sem póstkapítalisminn verði ofan á eður ei. Þess utan má velta fyrir sér hvort draga myndi úr  nýsköpun   í póstkapítalísku skipulagi. Alls konar nýjungar verða til í markaðsskipulagi vegna þess að menn hafa von um að þær afli þeim gróða. En kannski munu menn hugsa með öðrum í hætti í mögulegum póstkapítalisma, skapa sköpunargleðinnar einnar vegna. Og hver segir að nýjungar séu af hinu góða?

 

Lokaorð

 

Hvað sem þessu líður þá eru pælingar Masons og félaga stórmerkilegar, kannski einu verulega slagferðugu hugmyndir um sósíalisma sem fram hafa komið á síðustu áratugum (Mason er eins konar marxisti). Vinstrimenn og píratar allra handa ættu að gaumgæfa þessar hugmyndir. Kannski tekst Prokon ekki að eyðileggja þessa uppfinningu.

 

 

 

Heimildir:

 

Paul Mason, (2015):Post-Capitalism: A Guide to Our Future. New York: Farrar, Straus og Giroux.

 

Jeremy Rifkin (2014): “Capitalism is making Way for the Age of free”, The Guardian, http://www.theguardian.com/commentisfree/2014/mar/31/capitalism-age-of-free-internet-of-things-economic-shift

 

Stefán Snævarr (2011): Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið gegn henni. Reykjavik: Heimskringla.

 

Richard Wilkinson og Kate Pickett (2009): The Spirit Level. Why Equality is Better for Everyone. London: Penguin Books.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni