Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

PATENT-LAUSNARINN

Lausnarinn, Jesús Kristur,  bjó þar sem nú er Ísrael og Palestína.

Patent-lausnarinn býr á Íslandi enda Íslendingur í húð og hár.

Hann kemur reglulega með nýjar patentlausnir á efnahagsvanda Íslendinga.

Megas kallaði hann „Sám“ í frægum  bragi:

„fljótur nú sámur minn finndu einhver patentfrí úrræði“.

Patent-lausnarinn ráðagóði finnur úrræði eftir úrræði, hvert öðru betra.

Eitt árið var úrræðið besta að stofna kjúklingabú út um land allt. Þá risi jörð úr Ægi og gulltöfl fyndust í túni.

Annað árið var patentlausnin sú að láta Kanann borga leigu fyrir Keflavíkurstöðina.

Þriðja árið var kvótakerfi allra meina bót.

Fjórða árið sagði hann að veiðigjald myndi gera Íslendinga svaka, svaka ríka.

Fimmta  árið áttu álver að leysa allan vanda.

Sjötta árið boðaði hann enskuvæðingu, enskan mundi gera alla Íslendinga jafn ríka og þotuliðið í Hollywood.

Sjöunda árið taldi  hann markaðsvæðingu lausn á öllum íslenskum vanda.

Áttunda   árið sagði hann að útrásarvæða þyrfti landið í botn ella færi þjóðin aftur í torfkofann.

Níunda   árið tjáði hann mönnum að ef erlendir bankar stofnuðu útibú hér myndu kjör almennings batna snarlega.

Tíunda  árið sagði hann að innganga í ESB og upptaka evru væri leiðin til efnahagslegrar fullsælu.

Ellefta árið var patentlausnin sú að ganga alls ekki ESB og taka hreint ekki upp evru.

Tólfta  árið kom hann með þá tillögu að Ísland gengi í Noreg, þá myndi norskum olíupeningum rigna yfir landið.

Þrettánda  árið tjáði hann mönnum að ef lagður yrði sæstrengur til Bretlands myndi efnahagsvandi Íslendinga leysast á nóinu.

Ég tauta „Húsameistari ríkisins, ekki meir, ekki meir“.

En í guðanna bænum ekki krossfesta Patent-lausnarann, allra síst á Valhúsahæð.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni