Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Óttar um Megas

 

Bókaforlagið Skrudda gaf út á dögunum bók Óttars Guðmundssonar um Megas og ber hún hið frumlega heiti (Esenis tesenis tera) viðrini veit ég mig vera. Megas og dauðasyndirnar.

Óttar bendir á að dauðasyndir á borð við græðgi, hroka og ágirnd leiki mikilvægt hlutverk í heimi Megasar. En Óttar hefði mátt ígrunda þessa staðhæfingu með kerfisbundnum hætti því hugmyndin er merkileg.

Í stað þess verður bókin fremur ferils-, jafnvel ævisaga Megasar. Glöggur maður benti mér á að stundum sé bókin eins og teygður texti á plötuumslagi.

Sagt er frá sérhverju lagi á sérhverri plötu, dómar og viðtökur ræddar, auk sem sölutölur diskanna eru nefndar.  Út af fyrir sig fróðlegt en verður svo lítið eintóna.

Meiri veigur er í lýsingum Óttars á kynnum sínum af Megasi og þeirri mynd sem hann dregur upp af þessum merka listamanni. Pælingar Óttars um meinta kvenfyrirlitningu í textum Megasar eru umhugsunarvekjandi.

Bókin er skreytt myndum eftir Megas, með fullri virðingu fyrir þeim þá er ljóst að listamaðurinn er meira skáld og hljómlistamaður en myndlistamaður. Samt skipta þær vissu máli, maður fær dýpri sýn á Megas við að skoða myndirnar.

Ég nefndi að Óttar ræðir dóma um Megas. Á blaðsíðu 98  vitnar hann beint í hljómleikadóm minn um hljómleikana Drög að sjálfsmorði án þess að nefna nafn mitt. Dómur minn hefst svo:

„Sankti Megas, verndardýrlingur dópistanna, kanamellanna, strætisrónanna, fríkanna. Villon, Dylan og Johnny Rotten í einni persónu sem syngur sálumessu yfir Hallærisplaninu og heldur helvítisprédikun yfir Morgunblaðshöllinni.“

Ég var sendur út af örkinni af tímaritinu Líf (nú Nýtt líf) til að skrifa um tónleikana. Það má vera að gleymst hafi að setja nafn mitt undir dóminn en mig minnir sterklega að ritstjórinn hafi getið nafns míns í leiðara. Mér tekst ekki að finna tímaritið á Netinu.

Alltént væri gott ef aðstandendur bókarinnar kæmu þessum upplýsingum til skila.

Hvað sem því líður þá er bók Óttars möst hið mesta fyrir þá fjölmörgu Íslendinga sem áhuga hafa á Megasi og verkum hans.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu