Örn Ólafsson og bók hans um Thor Vilhjálmsson
Örn Ólafsson er mikilvirkur bókmenntafræðingur sem sett hefur saman
bækur um Guðberg Bergsson, rauða penna og íslensk nútímaljóð. Eitt megineinkenni hans sem fræðimanns er nákvæmni og beiting reynsluraka. Hann ánetjaðist aldrei póststrúkturalismann sem frægur er fyrir ýmislegt annað en trú á nákvæmni og reynslu, gott hjá Erni! Reyndar kennir Örn sig við marxisma en ekki er auðvelt að sjá bein marxísk áhrif í bókmenntagreiningum hans.
Um verk Thors
Nýjasta bók Arnar heitir Um rit Thors Vilhjálmssonar. Stutt bók, innan við 150 síður. Örn rekur feril Thors, vitnar í þau ummæli Thors að sér hafi aldrei líkað ýkja vel við rit Jean-Pauls Sartre, þótt hann kaldur (bls 14). Örn bendir á að ýmsir bókmenntamenn gáfu sér að Thor hefði verið undir miklum áhrifum frá Sartre þar eð hann var mjög í tísku á Parísarárum Thors. Bæta hefði mátt því við að Thor kann að hafa verið „smitaður“ af tilvistarspeki Sartres þótt hann hafi ekki gert sér grein fyrir því sjálfur. Alltént dáði Thor annan meginhöfund tilvistarspekinnar, Albert Camus. Gaman væri að endurlesa fyrstu smásagnasöfn Thors og athuga hvort Camus-áhrifa gæti. Ekki skortir þar sögur um einmana og angistarfullar sálir, meginstef tilvistarspekinnar í boði Camus og Sartres.
Nýsagan og Thor
Örn kynnir frönsku nýsögufrömuði sem vildu losa sig við söguþráð, persónusköpun og annan ósóma. Hann segir: „Ótvírætt virðist að heimfæra Thor til franskra nýsagna, þar kemur til nafnleysi helstu persóna, að söguþráður er enginn eða ruglaður, sögustaðir nafnlausir. En hitt er ljóst, að satt sagði Thor að hann hefði jafnan farið eigin leiðir“ (bls. 23). Laukrétt en ég felli mig ekki við orðasambandið „ótvírætt virðist“. Ef eitthvað er ótvírætt þá er það öruggt og morgunljóst, ekki eitthvað sem virðist vera eitt eða annað. Eitt er þó sem skilur bækur Thors frá nýsögum og það er hinn flókni og myndrænni stíll. Nýsögur eru einatt skrifaðar í skýrslutóni, stíllinn einfaldur og ómyndrænn. Hið myndræna hjá Thor líkist fremur Marcel Proust, kannski hittist nýsagan og Proust í bókum á borð við Fljótt fljótt sagði fuglinn. Og Fellini, margt í þeirri bók og fleiri bókum Thors minnir á kvikmyndir ítalska meginsnillingsins.
Skeið Thors
Örn talar um ýmis skeið í ferli Thors, fyrsta skeiðið hafi einkennst af örsagnagerð, annað skeið verið ferðasagna- og greinaskeið, á þriðja skeiði eru skáldsögur í fyrirrúmi. Hann skrifar talsvert um innviðina í sögum Thors, töluvert forvitnileg og margslungin greining (bls. 67-96). Hann vekur athygli á hve rúmfrekar (!) samfaralýsingar eru í sögum Thors, einnig hversu mikill nýyrðasmiður hann var. Örn notar glettilega mikið rými í ljóð Thors og greinir líkingar í þeim af mikilli nákvæmni (bls 38-51). Ég hefði kosið nákvæmari greiningu á bestu prósaverkum Thors, mér sýnist Thor snöggtum betri prósahöfundur en ljóðskáld.
Þula um Morgunþulu
Örn talar mjög stuttlega um Morgunþulu í stráum og er það miður (bls. 62). Mér finnst hún best þeirra skáldssagna Thors sem ég hef lesið. Thor átti það til að vera dálítið kaldranalegur í skrifum, rembast of mikið við að stíla. En Morgunþulan einkennist af djúpri samlíðan með persónunum, sérlega aðalpersónunni, hinum margbrotna og dularfulla Sturlu Sighvatssyni. Einnig er bókin afar vel stíluð, stíllinn einfaldur og átakalaus.
Lokaorð
Hvað bók Arnar varðar þá hefur hann tekið saman mikinn fróðleik um verk Thors og er það vel. En bókin er ansi stutt og Örn gerir lítið af því að kynna eigin kenningar um skrif Thors þótt „empirian“ sé í góðu lagi. Bókin er hvalreki á fjörur þeirra sem áhuga hafa á verkum Thors, fengur þeim sem nenna að pæla í bókmenntum.
Athugasemdir