"...orkuna styrkja?" Vísindi og gagnrýnin hugsun
Oft er sagt að gagnrýnin hugsun sé þungamiðja vísindanna, meðal þeirra sem því trúðu var vísndaheimspekingurinn Karl Popper.
Kuhn, venjuvísindi og kreddutrú
En þetta er engan veginn öruggt. Vísindaheimspekingurinn og –sagnfræðingurinn Thomas Kuhn var á öndverðum meiði. Hann hélt því fram að hryggjarstykki vísinda væri venjuvísindi (e. normal science) en venjuvísindamenn tryðu blint á vissar grundvallarforsendur. Þeir væru flest annað en gagnrýnir, miklu frekar kreddutrúar. Þessi blinda trú og hóphyggja venjuvísindamanna gerði að verkum að þeir eyddu ekki tíma sínum í rökræður um grundvallarforsendur heldur létu sér nægja að fínpússa viðtakið (e. paradigm) sem þeir gengju út frá sem vísu (viðtak má kalla „vísindalegan menningarheim“, til er fjöldi slíkra heima að mati Kuhns og þeir ekki fyllilega sambærilegir). Með slíku samstilltu fínpússunarátaki væru meiri líkur á að veilur viðtaksins fyndust en ella. Ef frávik frá viðtakinu fjölgaði óþarflega mikið leiddi það oft til vísindabyltinga en slíkar byltingar gátu líka átt sér stað af öðrum ástæðum, t.d. vegna þess að vísindamenn yrðu einfaldlega leiðir á viðtakinu. Venjuvísindi eru eins og lággróðurinn sem gerir trjánum kleift að vaxa en trén líkjast byltingarvísindum. Á tímaskeiði byltingarvísinda er gagnrýnin hugsun í öndvegi, gagnstætt tímaskeiðum venjuvísinda (um Kuhn, sjá t.d. Stefán 2016: 59-86).
Popper og Kuhn
Það fylgir sögunni að Hannes Gissurason hefur staðhæft að ekki væri verulegur munur á vísindaspeki Kuhns og Poppers (t.d. Hannes 1999: 212). Þetta er rangt, Kuhn hafnaði t.d. meginhugmynd Poppers um að hrekjanleiki væri kennimark góðra vísindakenninga (um Popper, sjá t.d. Stefán 2011: 205-234). Meginkenningar viðtaka eru ekki hrekjanlegar á blómaskeiði þeirra, án viðtaka engin vísindi, segir Kuhn. Popper trúði því að vísindin nálguðust sannleikann, Kuhn taldi hugtakið um sannleiksnálgun inntakslaust. Svo mætti lengi telja, þeir Popper og Kuhn voru ósammála um flest.
Finnur Dellsén og gagnrýnin hugsun
En víkjum nú að hinum unga og firnaefnilega íslenska vísindaheimspekingi, Finni Dellsén. Í nýlegri grein gagnrýnir hann þá kenningu að vísindaleg hugsun sé með nauðsyn gagnrýnin hugsun (Finnur 2016: 321-342). Finnur kemur með ýmis dæmi sem benda til þess að án trausts og nánast blindrar trúar gætu nútíma vísindi ekki þrifist (hann orðar þetta ekki nákvæmlega svona). Nú sé alsiða að hundruðir, jafnvel þúsundir vísindamanna, séu skráðir höfundar einnar greinar. Sérhæfingin geri að verkum að sérhver vísindamaður ber ábyrgð á litlum hluta greinarinnar. Vísindamönnunum er nauðugur einn kostur að treysta vitnisburði hvers annars. Þeir eru ekki í þeirri aðstöðu að geta metið með gagnrýnum hætti þá hluta greinarinnar sem ættaðar eru frá fræðimönnum sem sérhæfðir eru á öðrum sviðum en þeir. „Traustur vinur getur gert kraftaverk…“, traust er ekki bara efnahagnum hagstætt heldur líka vísindastarfi.
Lokaorð
Mér sýnist flest benda til þess að blind trú og traust skipti miklu í vísindum þótt gagnrýnin hugsun leiki líka mikilvægt hlutverk. En trúin blinda kann að blinda vísindamenn fyrir veilum sinna fræða, t.d. gæti þeim yfirsést möguleg siðferðileg og pólitísk hlutdrægni sem læðst geta inn í fræði þeirra, eins og sagt var í síðustu færslu.
Vísindin eru einhver merkasta afurð mannsandans. En það er mannlegt að skjátlast og fátt fullkomið, vísindin eru fjarri fullkomnun þótt merk séu.
Heimildir (meðal annars):
Finnur Dellsén (2016): „Gagnrýnin og vísindaleg hugsun“, Skírnir, 190 árg., haust, bls. 321-342.
Hannes Hólmsteinn Gissurarsson (1999): Stjórnmálaheimspeki. Reykjavík : Hið íslenzka bókmenntafélag.
Stefán Snævarr (2011): ”Aðferð og afsönnun. Popper og vísindin”, Ritið, nr. 3, 2011, bls. 205-234.
Stefán Snævarr (2016): „Viðtök og vísindi. Um Thomas Kuhn“, Ritið, nr. 3, 2016, bls. 59-86.
Athugasemdir