"Oops, I did it again..." Að gera Kötu Jak að frelsara
Nýlega hafa ýmsir álitsgjafar sett fram þá tillögu að vinstriflokkarnir fylki sér um Katrínu Jakobsdóttur í næstu kosningum, geri jafnvel kosningabandalag að hætti R-listans.
Tillögurnar eru alls ekki slæmar.
En ég hef á tilfinningunni að a.m.k. sumir af tillögumönnum trúi á hana sem eins konar frelsara, góða höfðingjann sem öllu muni redda.
Trúin á góða höfðingjann/frelsarann hefur verið landlæg á Íslandi um langan aldur.
Sumir trúðu á Hannibal Valdemarsson, aðrir á Albert Guðmundsson, þriðji hópurinn blótaði Vilmundi Gylfasyni.
Og ekki vantaði trúna á Davíð Oddsson sem ákaft var dýrkaður af stórum hluta þjóðarinnar, jafnvel meirihlutanum.
Nú líta flestir á hann sem drýsildjöful fremur en frelsara.
Vandinn er sá að frelsarar eru fágætir.
Því meira sem fólk er dýrkað, því meiri líkur eru á að það fyllist hroka, geri mistök vegna ofdirfsku eða misnoti vald sitt.
„Oops, I did it again…“ kyrjaði Britney Spears, engin ástæða er til að endurtaka mistök fortíðarinnar og gera einhvern tiltekinn pólitíkus að frelsara, jafnvel guði.
Hinn algóði höfðingi getur ekki verið til fremur en hið alfullkomna samfélag.
Athugasemdir