Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ögn um ættarnöfn

Karl Marx sagði að fortíðin hvíldi eins og mara á hugum hinna lifandi.

 Hugmyndir manna um samfélagið væru á eftir raunverulegri þróun þess, menn sæju samtímann með fortíðaraugum.

Gott dæmi um þetta er sú ranghugmynd að Íslendingar með ættarnöfn hljóti að tilheyra yfirstétt. Vissulega var algengt  á  nítjándu öldinni var  að „betri“ stéttar menn væru með ættarnöfn. En þegar í byrjun tuttugustu aldarinnar tekur þetta breytast, fjöldi alþýðumann tekur upp ættarnöfn. Ættarnöfn á borð við Hafstað og Eldjárn.

Víkur nú sögunni til hins fátæka barnakennara, Valdemars Valvessonar, föðurafa míns. Af einhverjum ástæðum tók  hann í byrjun aldarinnar upp ættarnafnið „Snævarr“. Ekki var mulið undir afa minn á æskuárum, hann fékk ekki að læra með börnunum á bænum því hann var bara sonur vinnukonunnar.

En öfundarmenn föður míns töldu sér trú að Snævarr-ættin væri voða fín ætt sem er tóm tjara. Engir stórbokkar í business eða pólitísk bera þetta ættarnafn, meðal-Snævarrinn er kennarablók. Svipað gildir um Hafstaðs- og Eldjárnsættina. Og hvað með  ættarnöfn eins og Norðdahl, Eyfjörð, Bergdal, Eydal, Hafnfjörð og Önfjörð? Hefur verið mikill völlur á fólki sem ber þessi ættarnöfn? Þau ættarnöfn sem hér eru nefnd mætti kalla „alþýðuættarnöfn. 

Engin fylgni er lengur milli valda og auðs annars vegar,  ættarnafna hins vegar. Aðeins örfáir af helstu ráða- og auðmönnum þjóðarinnar bera ættarnöfn. Þeir heita Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorsteinn Mar Baldursson, Kári Stefánsson, Davíð Oddsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, o.s.frv., o.s.frv.

Nýkjörinn forseti, Guðni Th. Jóhannesson hefur ættarnafnið Thorlacíus sem millinafn. En hann er sonur íþróttakennara, sjálfur háskólakennari og frændi Örnólfs Thorlacíusar, menntaskólakennara. Þeir sem kenna Guðna við yfirstétt sjá veröldina með augum nítjándualdarmanna, þeir skilja ekki nútímasamfélag.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni