Þögn töframannsins
Sögnin að yrkja hefur tvenns konar merkingu: Að yrkja ljóð og yrkja jörðina.
Enda voru íslenskir bændur löngum hagmæltir, mörg bestu skálda þjóðarinnar voru búandkarlar og –kerlingar.
Það er kannski þess vegna sem 4800 bændur fá opinberan stuðning sem nemur 10 ára fullum listamannalaunum á mann.
Halda mætti lífinu í heilum her af langveikum börnum fyrir það fé.
En enginn töframaður hvetur bændur til þess að skila landbúnaðar-listamanna-laununum.
Stundum er talað um athafnaskáld, íslensk athafnaskáld hafa verið ansi drjúg við að yrkja um hlutabréf í tunglsljósinu og afleiður af mánamyrkrinu.
Það gildir ekki síst um Kvíabryggjuskáldin hagmæltu.
Um mörg athafnaskáld mætti segja:
„Sumir yrkja á eyðublöðin
öll sín bestu ljóð“
Svo snúið sé út úr ljóði Davíðs frá Kvía…úps ég meina Fagraskógi.
Banka-athafnaskáldin hafa nú veitt sjálfum sér vegleg listamannalaun sem nefnist „kaupauki“.
Samt heyrist hvorki hósti né stuna frá töframanninum. Af einhverjum ástæðum láist honum að hvetja athafnaskáldin til að hafna kaupaukanum og gefa blessuðum langveiku börnunum féð.
Hvað veldur þessari háværu þögn?
Athugasemdir