Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Norska barnaverndin og þögn fjölmiðla

Ég hef áður gert að umtalsefni þá gagnrýni sem norska barnaverndarnefndin fær víða um lönd, m.a. í BBC-þæti og í viðtölum á Stundinni.

Barnaverndarnefndin og þögn norskra fjölmiðla

Barnaverndarnefndin er borin þeim sökum (með réttu eða röngu) að taka börn frá foreldrum fyrir litlar sakir og að dómstólar dæmi henni nánast ávallt í vil. Allt kerfið standi með nefndinni. Miklar mótmælaaðgerðir voru víða um lönd vegna þess í sumar sem leið. En hvað gerir stærsta blað Noregs, Aftenposten? Það lét sér nægja að nefna mótmælaaðgerðirnar í aukasetningu og hafa ekki rætt málið nema í einum leiðari þar sem barnaverndarnefndin  var varin. Mér vitanlega hefur blaðið ekki birt neitt innsent efni um málið. Annað meginblað, vikuritið Morgenbladet, sem þykist vera andkerfisblað, hefur ekki nefnt málið aukateknu orði. Gúglun mín sýnir að málið hefur lítt verið rætt í Noregi, ég hef ekki fundið eina einustu grein eftir Norðmann þar sem barnaverndarnefndin er gagnrýnd. NRK hefur þó nefnt málið en er yfirleitt ansi fljótt að vitna í þá sem verja barnaverndarnefndina. Í frétt um mótmælaðaðgerðirnar er aðallega vitnað í menn sem telja þetta vera „demoniseringu“ á Noregi. Þó eru þess dæmi að  NRK gagnrýni  meðferð barnaverndarnefndar á einstökum málum. Nefna má að vinstriblaðakonan Martine Aurdal ver barnaverndarnefndina með kjafti og klóm. Og auðvitað gæti hún haft á réttu að standa, ég þekki ekki mál norsku barnaverndarnefndarinnr nógu vel til að dæma um þau. En ég þekki norska fjölmiðla allvel eftir þrjátíusexára dvöl í Noregi. Svo virðist vera sem máttug öfl vilji þagga  málið í hel, eða minnsta kosti þagga niður í gagnrýnendum.

Þöggun í Noregi

Ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist í landi hinna þrúgandi sátta, Noregi. Ég hef áður nefnt þöggunina í máli Torvalds Stoltenbergs, þáverandi sáttasemjara í Bosníustríðinu. Þá  sagði hann á blaðamannafundi að íbúar hinna fornu Júgóslafíu væru allir Serbar. Hann tók loforð af blaðamönnunum um að þegja yfir þessu og þeir efndu loforðið. Bosníumaðurinn Safet Huseinovic komst að þessu, gekk frá fjölmiðli til fjölmiðils en engin vildi nefna málið nema pinkulítið nýnorsku vikurit. Svo komst breska pressan í málið og norsku blaðasnáparnir sneru við blaðinu all snögglega, heimtuðu afsögun Stoltenbergs og engar refjur. Huseinovic sagði réttilega að það ríkti hættuleg sáttamenning í Noregi.

Um svipað leyti var Smugufiskeríið í algleymingi. Á  Íslandi hnakkrifust menn um málið enda Smuguveiðarnar  íslensku gerendunum til lítils sóma, sorglegt dæmi um frekju togaraauðvaldsins. En  norska þjóðin marseraði í takt á eftir valdhöfunum. Lítil umræða var um Smugudeiluna, sættir miklar um hve rétt og heilög stefna Norðmanna væri og hve vondir Íslendingarnir væru (örfáir sérvitrningar bentu á að Noregur væri  á margan hátt  hafheimsvaldasinnað ríki). Stærsta blað Björgvinjar, Bergens Tidende, át frasana  ómelta upp úr utanríkisráðherranum í leiðara, án þess að geta heimilda. NRK rak hreinan áróður í fréttatíma, t.d. talaði fréttakonan Nina Owing um íslenska „veiðiþjófa“ í Smugunni. Það þótt Norðmenn hafi orðið að viðurkenna að hún  væri opið hafsvæði.

Sættir um flest í Noregi

Til að skilja sáttamenninguna verða menn að vita að yfirgnæfandi meirihluta Norðmanna telur útivist og skíðagöngu af hinu góða. Það eru miklar almennar sættir um hvað sé gott og hvað sé slæmt, enn  meir en á hinu einsleita Íslandi. Ég tel mig vera jafnaðarmann en mér ofbýður  hið almenna  samkomulag  norskra um ágæti þeirrar stefnu. Einhverju sinni var umræðuþáttur í NRK þar sem mætast  áttu stálinn stinn, vinstriróttæklingurinn Magnus Marsdal og hægrikonan Kristin Clemet, fyrrum ráðherra. Skemmst er frá því að segja að þau kepptust við að yfirbjóða hvort annað í hrifningu af hinu norsk/skandínavíska velferðarkerfi.  Clemet lagði meiri áherslu á þátt einkaframtaksins í kerfinu, Marsdal þátt ríkisins. Ef Marsdal væri raunverulegur róttæklingur þá hefði hann fordæmt meint auðvald og heimtað þjóðnýtingu strax í gær. Ef Clemet væri raunveruleg hægrikona þá hefði hún mælt með  einkavæðingu  Statoil/Hydro sem er að tveimur þriðju hlutum í höndum ríkisins. En Marsdal og Clemt   eru bæði kerfistrúarfólk, eins og alltof margir Norðmenn.

Kostir norskra sátta/lokaorð

Spurt er: Hefur sáttamenningin enga góða kosti? Jú, jú, mikil ósköp, henni fylgir traust, agi, samvinnuvilji og heiðarleiki. Án hennar hefði olíusjóðurinn ekki verið mögulegur, sá sjóður er Norðmönnum til mikils sóma. Gallinn við Ísland er hættuleg  missættis-menning, rifrilda-ómenning, heiðarleika- og traustsskortur. Ósættið, græðgi almennings,   og frekja sjálftökumanna munu  gera Íslendingum erfitt um vik að eignast auðlindasjóð.  Í Noregi ganga blaðasnápar í takt, á Íslandi vaða Baugar, Bingar og Guggur uppi, auðvaldslið sem stjórnar fjölmiðlum. Sinn er ósiður í landi hverju og summa lastanna er stöðug. Eða hvað?

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni