NATÓ (II): Kalt stríð, heit hjörtu
Nú virðist flesta benda til þess að nýtt kalt stríð sé hafið milli Kremlverja og Vesturlanda. Kalt stríð sem hæglega gæti breyst í heitt stríð, þá má Guð hjálpa okkur öllum.
Norskur fræðimaður segir að heimsástandið í dag minni fremur á ástandið 1914 en kalda stríðið. Í stríðinu kalda kljáðust tvö meginöfl, í dag séu a.m.k. þrír megingerendur í heimspólitíkinni, svipað og 1914.
En viðbrögð Kínverja við innrásinni í Úkraínu bendir til þess að þeir standi í reynd með Pútín. Það gæti bent til þess að ný tvískipting heimsins sé í uppsiglingu.
Tekið skal fram að þessi færsla er skrifuð í flýti vegna innrásinnar í Úkraínu, ég hef ekki haft tíma til að fletta upp í heimildum að neinu ráði. En vonandi gefst tími til þess síðar.
Kalda stríðið fyrra
Lítum á kalda stríðið fyrra. Segja má að upptök þess hafi verið Jaltaráðstefnan 1945 þar sem Churchill og Roosevelt gengu að þeirri kröfu Stalíns að ríki sem áttu landamæri að Sovétríkjunum skyldu vera þeim vinsamleg. Um leið samþykkti Stalín að lýðræðislegar kosningar skyldu fara fram í löndunum.
Ekki voru mér vitanlega gerðir neinir samningar um að skipta Evrópu í tvö áhrifasvæði.
Það þótt Churchill hafi gert leynisamning við Stalín um að gera ýmis Evrópuríki að áhrifasvæðum Breta eða Sovétmanna, sum ríkjanna áttu að vera að hluta til á báðum svæðum. Til dæmis áttu báðir aðilar að hafa 50% áhrifa í Ungverjalandi.
En Bandaríkjamenn áttu ekki aðild að þessum samningum, hvað þá þjóðirnar sem Stalín og Chuchhill skiptu á milli sín. Stalín stóð hvorki við samninginn um skiptingu áhrifa í Ungverjaland né Jaltasamkomulagið um frjálsar kosningar í Austur-Evrópu.
Auk þess lét Stalín sér ekki nægja að krefjast þess að nágrannaríkin væru Sovétinu vinsamleg heldur gerði þau leppríkjum, þvert gegn Jaltasamkomulaginu (ástæðan kann að vera "hugsjónakyns", Stalín hafi talið rétt að koma á kommúnisma sem víðast).
Það er því helber firra að Stalín hafi staðið við gerða samninga og bara skipað málum á svæðum sem Vesturlönd hefðu samþykkt að hann mætti ráða. Svik Stalíns áttu mikinn þátt í kalda stríðinu.
Á sama tíma og Stalín tróð Sovétkerfinu upp á nágrannaþjóðir sínar sættu Bandaríkjamenn sig við að Íslendingar höfnuðu beiðni þeirra um herstöð. Hvað hefði Stalín gert ef Búlgaría hefði hafnað slíku „kostaboði“?
Umsátrið um Vestur-Berlín bendir til þess að Stalín hafi ekki virt Jalta samkomulagið um skiptingu Þýskalands í hernámssvæði. Hann reyndi að koma Vestur-Berlín á kné og vel mögulega innlima í hið sovéska áhrifasvæði, í blóra við Jaltasamkomulagið.
Hér verður að nefna að sá möguleiki er fyrir hendi að hann hafi bara ætlað að koma í veg fyrir að Vestur-Berlín tæki upp hið nýja þýska mark. En að gefinni yfirgangsstefnu hans, t.d. innlimun Eystrasaltsríkjanna, má ætla að hann hefði ekki slegið hendinni á móti stærra yfirráðasvæði.
Alla vega má telja umsátrið um Vestur-Berlín upphafið að kalda stríðinu, auk svika Stalíns við gerða samninga.
Stofnun NATÓ var eðlilegt viðbragð við yfirgangi Sovétríkjanna.
Sovétmönnum til varnar skal sagt að þeir létu eiga sig að hernema Ísland á árunum 1946-9 þegar þar var enginn her og landið ekki orðið NATÓ meðlimur. Einnig létu þeir eiga sig að ráðast inn í hin hlutlausu Svíþjóð og Írland.
Þeir drógu heri sína tilbaka frá Finnmörku, Bornhólm, Norður-Íran og síðar frá austurhluta Austurríkis. Það kann að vera merki þess að þeir hafi aðallega litið á leppríkin sem vörn gegn mögulegri innrás að vestan.
En í fyrsta lagi kann ótti við kjarnorkuveldi Bandaríkjanna hafa verið orsökin, Sovérríkin komu sér ekki upp kjarnorkuvopnum fyrr en 1949.
Í öðru lagi spyrja má hvers vegna þeir drógu heri sína ekki tilbaka frá Austur-Evrópu, Bandaríkjamenn drógu mestallan sinn herafla frá Vestur-Evrópu á fyrstu eftirstríðsárunum (ekki er ólíklegt að hervera Sovétmanna í leppríkjunum hafi verið í þeim fróma tilgangi að kúga íbúanna sem fæstir studdu leppstjórnirnar).
Það bendir gegn því að Kanar hafi haft illt í hyggju gagnvart Sovétríkjunum. Einnig áttu þeir einir kjarnorkuvopn um fjögurra ára skeið og hefðu getað notað þau til að þrýsta all hressilega á Stalín en létu það ógert.
Þeir hefðu líka getað gert alla Vestur-Evrópu og Japan að leppríkjum sínum en létu það líka eiga sig.
Í stað þess veittu þeir Vestur-Evrópu Marshallaðstoð sem reyndar þjónaði líka bandarískum hagsmunum. Aðstoðin var oft veitt með skilyrðum um að móttakandi keypti amerískar vörur.
Þetta var gert til að koma í veg fyrir efnahagsdýfu af því tagi sem varð í Bandaríkjunum eftir fyrri heimsstyrjöldina.
Eftir þá styrjöld höfðu Bandaríkjamenn ráð Frakka, Breta og Þjóðverja í hendi sér en létu þá sigla sinn sjó, hófu einangrunarstefnu.
Spekingurinn Vladimir Iljits Lenín hélt því fram að fyrra heimsstríð hefði verið uppskiptastríð stórvelda.
Hafi svo verið má spyrja hvers vegna Bandaríkjamenn lögðu ekki undir sig nýlendur Frakka, Breta og Þjóðverja. Þeim hefði verið í lófa lagið að gera það. Kenning Leníns hlýtur því að vera röng.
Hvað um það, Sovétríkin bera meiri ábyrgð á kalda stríðinu en Bandaríkjamenn og önnur vestræn ríki.
Þriðji heimurinn
Bandarísk utanríkisstefna hefur yfirleitt verið Vesturlöndum til góðs. En hið sama verður vart sagt um stefnu þeirra í hinum þriðja heimi, alla vega vissum hluta hans.
Langt er um liðið síðan Bandaríkin hófu íhlutun í ríkjum Mið-Ameríku, þeir hafa margsinnis ráðist inn í þessi lönd.
Sum þeirra voru lítið annað en bandarísk leppríki. Samt hafa þessi ríki ekki verið eins þrælkúguð og leppríki Sovétmanna.
Til dæmis hefur Mexíkó oft boðið Bandaríkjunum byrginn, t.d. forsetinn Lazaro Cardenas sem þjónýtti amerísk olíufyrirtæki árið 1938 án þess að Kanar gerðu neitt til að stöðva það. Enda var her þeirra þá á stærð við þann belgíska.
Nefna má að hvað eftir annað hafa ríki latnesku Ameríku greitt atkvæði gegn bandarískum tillögum um að reka Kúbu úr samtökum Vesturheimsríkja.
Hvað um Íran? Lítill vafi er á að CIA átti mikinn þátt í að fella hinn lýðræðislega kjörna Mohammed Mossadeq og koma á einræði undir stjórn keisarans. Hið sama gildir um stjórn Allendes í Chíle, CIA studdi valdarán Pinochets og einræði hans.
Bæta má við stjórn Arevalos í Guatemala, lýðræðislega kjörinni stjórn sem Kanar áttu þátt í að fella.
Ekki skal innrásin í Írak varin hér, hvað þá refsiaðgerðirnar gegn stjórn Saddams sem bitnuðu all hrikalega á óbreyttum borgurum. En athugið að Kanar sölsuðu ekki olíulindir landsins undir sig, íraskt ríkisfyrirtæki sér enn um olíustarfsemi þar í landi.
Þetta bendir gegn því að utanríkisstefna Bandaríkjanna helgist mest af þörf fyrir hráefni eins og marxistar sumir hverjir hafa löngum talið.
Væri arðrán markmið bandarískrar þriðjaheimsstefnu þá má spyrja hvers vegna skjólstæðingum þeirra í Austur-Asíu, Japan, Suður-Kóreu og Tævan hefur vegnað svona vel efnahagslega.
Um 1953 var Suður-Kórea álíka fátækt og þar sem nú er Bangla Desh. Nú er landið meðal tuttugu auðugustu ríkja heims og einnig ofarlega hvað farsæld íbúanna varðar.
Þessi ríki eru lýðræðisríki, lítill vafi er á að bandarísk áhrif áttu mikinn þátt í lýðræðisvæðingu þar eystra, eins átti bein og óbein bandarísk aðstoð þátt í aukinni velsæld íbúanna.
"Drottinn gaf og drottinn tók" sagði Job í Biblíunni. Bandarísk utanríkisstefna hefur tvíeðli, stundum stuðlar hún að lýðræði og velsæld, stundum að hinu gagnstæða.
Villur Marx
Marx gerði þá kórvillu að flokka ríkisvaldið með hindurvitnum og hugmyndafræði sem hluta af yfirbyggingu sem aðallega væri mótuð af efnahagslífinu.
En ríkið hefur sínar ástæður sem auðvaldið veit ekkert um. Þýskaland Hitlers naut stuðnings auðhringja en Hitler réði yfir þeim. Hann fangelsaði auðhringjaforstjórann Thyssen sem hann hefði tæpast geta gert ef auðvaldið hefði haft völdin.
Og Pútín ræður því hvaða olígarkar fá að græða fé og hverjir þeirra lenda í tugthúsi, ef trúa má bók Fionu Hills og Clifford Gaddys Mr Putin: The Operative in the Kremlin.
Sagt hefur verið að CIA hafi gert of mikið úr hættunni af Sovétríkjunum, m.a. til að útvega sér meiri fjárveitingar og auka hróður sinn. Sé þetta rétt þá kann það að sýna að ríkisstofnanir geti haft örlagarík áhrif á framvindu mála og leiki sjálfsstætt hlutverk, óháðar auðmagni.
Marx virtist ekki hafa skilið að stjórnmála- og ríkisstarfsmenn hafa sinna eigin hagsmuna að gæta og geta oft gætt þeirra án fulltings auðmagnsins.
Hvað um Víetnamstríðið? Ef skotið var á bandaríska hermenn frá tileknu víetnömsku þorpi þá jusu sprengjuflugvélar sprengjum yfir þorpip, nær má geta hvort það hafi aukið vinsældir Kana austur þar.
Ástæðan fyrir þessari stefnu kann að vera sú að því fleiri bandarískir sem féllu, því minni stuðning hefði Bandaríkjaforseti. Sé þetta rétt þá áttu hagsmunir ríkisvaldisns og eiginleikar lýðræðislegra kosninga mikinn þátt í helstefnu Bandaríkjanna í Víetnam.
Það fremur en hagsmunir auðhringja þótt þeir hafi sjálfsagt haft sitt að segja.
Efir skiptingu Víetnams 1954 mun Eisenhower hafa sagt að verði frjálsar kosningar í Víetnam myndi Viet Minh (kommúnistar) vinna stórsigur og því yrði að koma í veg fyrir það.
Eisenhower til afbötunar skal sagt að eftir síðari heimsstyrjöld voru frjálsar kosningar í sunnanverðum Víetnam sem Trotskíistar unnu. Hið stalíníska Víet Minh virti úrslit kosninganna að vettugi og stútaði Trottunum.
Forsetinn kann að hafa vitað þetta og ályktað sem svo að ef Víet Minh ynni kosningasigur yrðu það síðustu frjálsu kosningarnar í landinu.
Hann vissi sem var að Víet Minh var ekki fyrr kominn til valda í Norður-Víetnam en þeir komu á grimmilegu einræði (hið spillta einræði í Suður-Vietnam var skömminni skárra).
Hanoistjórninni var í lófa lagið að halda frjálsar kosningar í öllu Víetnam eftir að hún hafði lagt allt landið undir sig en lét það eiga sig.
Eisenhower hefur því haft nokkuð til síns máls, víetnömsku kommúnistar virtu leikreglur lýðræðisins að vettugi..
Hann hefur örugglega vitað að Hitler komst til valda í frjálsum kosningum.
Hefði verið rétt að koma í veg fyrir þær kosningar 1932?
Athugið Hamas, þeir unnu sigur í frjálsum kosningum og hafi ekki haldið kosningar síðan, heldur komið á einræði.
Sú staðreynd að vinaríki BNA Ísrael, er lýðræðisríki og skárra en einræðisstjórn Hamas, afsakar ekki framferði þess við Palestínumenn og hreint ekki einhliða stuðning Bandaríkjamanna við landið.
Sá stuðningur á sér líka rætur í lýðræði og sjálfsstæði ríkisins. Því miður eru alltof margir bandarískir kjósendur á bandi Ísraels, þess utan þrýsta voldugir og auðugir Ísraelsinnaðir lobbíistar á Bandaríkjastjórn. "Fræknir voru fýrar og fullgild atkvæði".
Hvað um það, andstæðingar Bandaríkjanna og Vesturveldanna eru oft enn þá verri en þeir. Norður-Víetnam var enn hrikalegra kúgunaríki en hið spillta Suður-Víetnam, Norður-Kórea miklu verri en hin lýðfrjálsa Suður-Kórea og Kína hins kommúníska einræðis verri en Tævan lýðræðisins.
Aðrir andstæðingar Vestursins hafa verið allhrikalegir, kommúnistastjórnin í Kreml forðum tíð og þorparinn Pútín, trúareinræðismenn í Íran og hinn skelfilegi Saddam.
Undantekningar eru m.a. stjórnir Mossadeqhs og Allendes.
Stefna Bandaríkjanna víða í þriðja heiminum er í mörgum efnum ámælisverð en þó eru Kanar að jafnaði skömminni skárri en andstæðingar þeirra.
Arðrán?
Víkjum að kenningunni um að Bandaríkin og Vesturlönd arðræni þriðja heiminn. Kenningin skýrir ekki hvers vegna olíuauðug ríki á Arabíuskaganum hafa orðið fokrík, væru þau arðrænd væru þau á vonarvöl.
Þau hefðu reyndar ekki orðið rík nema vegna þess að vestrænir menn fundu upp bensínvélina. Enda skiptir hugvit enn meira máli en hráefni í vestrænu efnahagskerfi.
Arðránskenningin skýrir heldur ekki hvers vegna skjólstæðingar Bandaríkjanna, Suður-Kórea og Tævan, iðnvæddust með hraði og eru nú meðal ríkustu þjóða heimsins. Svipað gildir um Singapúr sem líka hefur talist meðal vinaríkja Vestursins.
Enn fremur skýrir arðránskenningin ekki hvers vegna mörg hundruð milljónir manna í þriðja heiminum hafa orðið bjargálna og vel það á síðustu áratugum.
Áður hefur komið fram að erfitt er að sjá að sókn í hráefni sé meginhreyfafl bandarískrar stefnu gagnvart þriðja heiminum.
Sem þýðir að sjálfsögðu ekki að sókn í hráefni hafi aldrei haft neitt að segja fyrir bandaríska utanríkistefnu. Fylgispektin við hið olíuauðuga kúgunarveldi í Sádí-Arabíu er dæmi um slíkt, Bushfeðgar höfðu margvísleg tengsl við þetta skelfilega ríki.
Og Bandaríkjamenn selja Sádum vopn sem notuð eru til að drepa börn í Jemen.
Þá kann einhver að spyrja hvort ég trúi því í fúlustu alvöru að auðkýfingar og stórfyrirtæki hafi aldrei haft nein áhrif á bandaríska utanríkisstefnu.
Nei, ég neita því alls ekki, ýmislegt bendir til þess að hagsmunir United Fruit Company hafi haft talsvert að segja um valdaránið í Guatemala enda utanríkisráðherra BNA tengdur fyrirtækinu.
En slík áhrif eru fremur víkjandi en ríkjandi, gagnstætt því sem marxistar halda.
Þó má ætla að áhrif auðkýfinga og auðhringja hafi aukist vestanhafs á síðustu áratugum vegna aukinnar misskiptingar auðs þar.
Hvers vegna hafa Kanar verið tillitsamari við Vesturlönd en þriðja heiminn? Kann ástæðan að vera rasismi sem landlægur hefur verið vestanhafs um alllangt skeið?
Sovét og þriðji heimurinn
Sovétríkin, já kommúnistaríkin almennt, höfðu miður góð áhrif á þriðja heiminn. Alræði Maós Zedongs í Kína leiddi um 1960 til einhverrar mestu hungursneyðar sem sögur frá greina. Efnahagslífið náði sér ekki á strik fyrr en Deng Xiao Ping hóf markaðsumbætur.
Ekki er langt síðan a.m.k. tvær milljónir manna dóu úr hungri í Norður-Kóreu. Og einræðisherra Eþíópíu, Mengistú, var hallur undir Sovétríkin og reyndi að marka Sovétinnblásna efnahagsstefnu. Hún átti líklega þátt í hungursneyðinni miklu á níunda tug síðustu aldar.
Alsír var líka undir áhrifum frá Sovétríkjunum og þar í landi staðnaði efnahagurinn lengi.
Í Afghanistan tóku vinir Sovetríkjanna völdin með valdaráni sem vel mögulega var stjórnað af KGB. Skömmu síðar réðust Sovétmenn inn í landið.
Í Egyptalandi náðu Sovétmenn allsterkum tökum, ekki síst vegna þess að í landinu voru tíu þúsund sovéskir ráðgjafar. Sadat forseti réðist til atlögu við skyndilega og rak úr landi. Ári síðar (1974) kom Nixon, Bandaríkjaforseti, til landsins í opinbera heimsókn og var fagnað ákaflega af almenningi.
Af þessu má sjá að áhrif Sovétríkjanna í þriðja heiminum voru litlu minni en áhrif Bandaríkjanna og höfðu verri afleiðingar.
Lokarorð
Sovétmenn bera heldur meiri ábyrgð á kalda stríðinu en Bandaríkjamenn og vinir þeirra. Stofnun NATÓ var nauðsynleg til að halda Sovétríkjunum í skefjum.
Kanar komu alltént betur fram við sínar vinaþjóðir í Evrópu en Sovétmenn. En margt er gagnrýnisvert við framkomu þeirra við þriðja heiminn.
Þó hafa andstæðingar þeirra á þessum slóðum oft verið enn verri en þeir. Og Sovétmenn hafa jafnvel gert enn meiri usla í þriðja heiminum en Kanar.
Kenningin um að velsæld Vesturlanda stafi af arðráni á þriðja heiminum er ekki sannfærandi. Ekki verður heldur séð að efnalegir hagsmunir séu meginhreyfiaflið í utanríkisstefnu Bandaríkjanna þótt auðvitað skipti slíkir hagsmunir máli.
Kalda stríðið bar nafn með réttu en mörgum hitnaði í hamsi, hjörtu þeirra voru heit. Ekki síst á Fróni þar sem þjóðin var klofin í afstöðu sinni til herstöðvarinnar og NATÓ.
Athugasemdir (2)