Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Nafnarnir Popper og Marx

Nafnarnir Popper og Marx

Nafnarnir Karl Raimund Popper og Karl Heinrich Marx virðast eins og eldur og vatn. Samt tel ég að eitt og annað í hugsun þeirra beggja eigi erindi við okkur í dag.

Hvað má læra af Popper?

Heimspekingurinn Popper var enginn unnandi marxismans. Marx hefði vissulega verið frjálshuga og merkur fræðimaður en sáð óafvitandi frjóanga alræðisins, hins lokaða samfélag. Hið lokaða samfélag eigi sér rætur í ættbálkahyggju, frumstæðir ættbálkar séu lokaðir öðrum og luktir inn í eigin hugmyndaheim. En hið lokaða samfélag veitir mönnum visst öryggi, meðal annars þess vegna sé erfitt að kveða ættbálkahyggjuna niður.

Deila má um mannfræði Poppers og gagnrýni á marxismann, samt á hugmyndin um ættbálkahyggju og hið lokaða samfélag erindi við nútímamanninn. Leiðtogar eins og þjóðrembungarnir Donald Trump   og Victor Orban hafa ættbálkakennda sýn á heiminn, löndum þeirra skal helst lokað fyrir flóttamönnum og innflytjendum. Popper segir að fylgismenn lokaða samfélagsins trúi einatt á samsæriskenningar, Trump og Orban halda slíkum kenningum mjög á lofti. Nægir að nefna rausið í Orban um samsæri George Soros, hins frjálslynda milljarðamærings, sem var nemandi Poppers.

Soros hefur talað máli þess sem Popper kallar „hið opna samfélag“, þ.e. hið frjálslynda samfélag opinnar umræðu og alþjóðahyggju. Á okkar dögum er vegið að samfélaginu opna úr öllum áttum. Rétthugsendur af versta tagi heimta ritskoðun og krefjast þess að þeirra eigin hugmyndir séu einráðar. Og ná vissum árangri. Þjóðrembungurinn Pútín hefur gert Rússland að einræðisríki, Orban boðar trú á ófrjálslynt lýðræði. Pólland er varla réttaríki lengur, „þökk“ sé þjóðrembungum, og Xi Jinping í Kína er orðinn alráður að kalla. Ekki er forsetanefnan í Hvíta húsinu hótinu skárri, Trump gerir sitt besta til að grafa undan tjáningarfrelsi, réttarríkinu og meginreglum lýðræðisins.

Hvað má læra af Marx?

Vestan hafs hefur dreifing eigna og tekna orðið æ ójafnari og er sömu sögu að segja um flest önnur lönd. Auðmenn og stórfyrirtæki verða æ valdameiri, ríkisstjórn Trumps samanstendur af milljarðamæringum. Og á Fróni vaða auðkýfingar uppi, í og utan ríkisstjórna. Til að gera illt verra ógna stórfyrirtæki í tölvugeiranum friðhelgi einkalífsins og frelsi einstaklingsins með því að safna upplýsingum um einkahagi manna og selja hæstbjóðenda. Karl Marx sá ekki Netið fyrir en sagði samt fyrir um þessa samþjöppun auðmagnsins og gagnrýndi auðvaldið með áhrifamiklum hætti. Hann benti á að til væri hugmyndafræði sem réttlætti stéttarveldi, kannski má finna slíkan réttlætingarþátt í endalausu blaðri Bandaríkjaforseta.

Lokaorð

Ég hef í ræðu og riti andæft oftrú á hugmyndafræðikerfi. Því tel ég enga goðgá að skauta milli slíkra kerfa og taka með sér það sem skautendum þykir nýtilegt. Til dæmis smá skammta frá jafnt Karli Popper sem Karli Marx.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Innflytjendur á Íslandi
Samtal við samfélagið#15

Inn­flytj­end­ur á Ís­landi

Ís­land hef­ur tek­ið um­tals­verð­um breyt­ing­um und­an­farna ára­tugi. Eft­ir að hafa löng­um ver­ið eitt eins­leit­asta sam­fé­lag í heimi er nú svo kom­ið að nær fimmti hver lands­mað­ur er af er­lendu bergi brot­inn. Inn­flytj­end­ur hafa auðg­að ís­lenskt sam­fé­lag á marg­vís­leg­an hátt og mik­il­vægt er að búa þannig um hnút­ana að all­ir sem hing­að flytja geti ver­ið virk­ir þátt­tak­end­ur á öll­um svið­um mann­lífs­ins. Til að fræð­ast nán­ar um inn­flytj­enda hér­lend­is er í þess­um þætti rætt við Dr. Löru Wil­helm­ine Hoff­mann, nýdoktor við Menntavís­inda­svið Há­skóla Ís­lands, þar sem hún tek­ur þátt í verk­efn­inu “Sam­an eða sundr­uð? Mennt­un og fé­lags­leg þátt­taka flótta­barna og -ung­menna á Ís­landi.” Hún starfar einnig sem stunda­kenn­ari við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri og Há­skól­ann á Bif­röst. Sjálf er Lara þýsk en rann­sókn­ir henn­ar hverf­ast um fólks­flutn­inga, dreif­býli, tungu­mál og list­ir en hún varði doktors­rit­gerð sína í fé­lags­vís­ind­um við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri ár­ið 2022. Tit­ill doktors­rit­gerð­ar­inn­ar er „Að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi: Hug­læg­ar vís­bend­ing­ar um að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi byggð­ar á tungu­máli, fjöl­miðla­notk­un og skap­andi iðk­un.“ Guð­mund­ur Odds­son pró­fess­or í fé­lags­fræði við HA ræddi við Löru en í spjalli þeirra var kom­ið inn á upp­lif­un inn­flytj­enda af inn­gild­ingu, hlut­verk tungu­máls­ins, stærð mál­sam­fé­laga, sam­an­burð á Ís­landi og Fær­eyj­um og börn flótta­fólks.