Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Markaðs-og sjóðasósíalisminn

Í þessari grein hyggst ég hefja mál mitt á því að kynna markaðssósíalískar hugmyndir  bandaríska  hagfræðingsins  John Roemer. Einnig mun ég tæpa  stuttlega á  markaðssósíalískum  tilraunum  í Júgóslafíu heitinni og Tékkóslóvakíu sálugu. Og í því sambandi kynna stuttlega markaðssósíalískar kenningar Ota Siks. Að lokum ræði ég sænskar hugmyndir um sjóðasósíalisma og velt þvi fyrir mér hvort þær séu brúklegar á Íslandi.

John Roemer

Roemer  boðar nýja gerð markaðssósíalisma. Fyrirtækin verði  rekin af forstjórum sem reyna að hámarka gróða þeirra. Þeir yrðu  annað hvort kosnir af starfsmönnum eða skipaðir af stjórnum fyrirtækjanna. Markaðurinn ráði mestu um hvernig gæðalindum (e. resources) sé ráðstafað (e. allocated) en ríkið geti gripið inn í efnahagsferlið undir vissum kringumstæðum. Reksturinn verði opinber í þeim skilningi að einkaaðilar eiga ekki fyrirtækin heldur eigi allir borgararnir á vissan hátt öll atvinnutækin í sameiningu. Almenningur  eigi þau með þeim hætti að allir fá úthlutað ávísunum (e. coupons) sem hafi svipaða stöðu og hlutabréf en ekki verði hægt að selja þær fyrir peninga eða önnur gæði, aðeins fyrir aðrar ávísanar. Þannig myndist eins konar sósíalískur hlutabréfamarkaður eða hálfmarkaður, samanber hugmyndir Langes um sýndarmarkað. Gróðinn af ávísununum renni í sameiginlegan sjóð en hann tryggi  öllum borgurum eins konar borgaralaun, lágmarksframfærslu. Að öðru leyti verða þeir að vinna fyrir sér með svipuðum hætti og í nútíma kapítalisma, spara fé eða eyða því, fá launahækkun vegna dugnaðar og hæfni eða missa vinnuna vegna leti eða hæfileikaleysis. En enginn geti orðið ríkur, enginn lifi á eigum sínum. Verði stöðnun í efnahagslífinu vegna skorts á tilraunastarfsemi og skapandi eyðileggingu kæmi til greina að gefa einkaframtakinu visst svigrúm (Roemer 1992: 448-464).  Þetta  kerfi eigi að geta  viðhaldið því besta við kapítalismann, skilvirkni  hans og þjálni, en losni  við hans  verstu hlið, auðvaldið. Hugmyndir Roemers eru vissulega frumlegar og athyglisverðar en spurningin er hvort þær hafi góða jarðtengingu.  Höfum við einhverja  tryggingu höfum við fyrir því að hið roemerska  kerfi geti virkað? (Stefán Snævarr 2011: 218)

Markaðssósíalismi í A-Evrópu

Hvað sem því líður má ekki gleyma því að í Júgóslsafíu  var markaðssósíalismi um alllangt skeið, fyrirtækin voru í ríkiseign  og var stjórnað af verkamannaráðum en markaður var fyrir flest. Mjög er umdeilt hversu vel þetta kerfi virkaði (sjá t.d. Singh, Bartkiw, og Suster 2007: 280-297). Mig rekur minni til að hafa lesið viðtal við pólska hagfræðinginn Wlodziemierz Brus þar sem hann sagði að galli  júgóslafneska kerfisins hefði  aðallega verið valdaeinokun kommúnistaflokksins sem notaði vald sitt til að skipta sér af starfi verkamannaráðanna. Vorið 1968 var Tékkóslóvakía á góðri leið með að verða markaðsssósíalískt land. En Sovétherinn stöðvaði þá þróun. Við getum ekki útilokað að tékkneska samfélagið hefði þróast í átt að frjálsu og lýðræðislegu markaðssósíalisku samfélagi hefði það fengið að vera í friði fyrir sovéskum ódrengjum (Sik 1969: 23-30).

Ota Sik

Ég vitna hér í tékkneska hagfræðinginn Ota Sik en ég heyrði hann einu sinni flytja fyrirlestur suður í Þýskalandi. Eftir að hann flúði land vann hann um nokkurt skeið  að hugmyndum um nýjan markaðssósíalisma en turnaðist svo til trúar á blandað hagkerfi, lái honum hver sem vill. Þungamiðjan í þeim markaðssósíalisma átti að vera starfsmannafélög. Þau áttu að vera lýðræðisleg en einstakir félagsmenn  gátu ekki átt neinn hlut af  auðmagni á vegum félagsins eða fengið hluta af ágóðanum.  Þannig ætti að vera hægt að koma í veg fyrir auðvaldsþróun. Um leið átti markaðurinn  að ráða hvað framleitt yrði. Ríkisvaldið gripi samt inn í starfsemina með ýmsum hætti, t.d. með því að koma á refsiskatti fyrir fyrirtæki sem væru með einokunartilburði. Mikilvægt væri að gera vinnuna mannúðlega og berjast gegn hvers kyns firringu.

Sjóðasósíalisminn sænski

Lítum að lokum á sænsku hugmyndina um sjóðasósíalisma. Kratarnir sænsku voru á tímabili fylgjandi hugmyndinn um að launþegasjóðir keyptu stóran hluta af sænska efnahagslífinu, alla vega stærstu fyrirtækin. Fyrirtækjum yrði stjórnað jafnt af starfsmönnum sem fulltrúum sjóðanna. Þessum sjóðum  var stjórnað af verkalýðshreyfingunni og töldu talsmenn sjóðasósíalismans að fé frá þeim gæti hleypt nýju lífi í sænskan iðnað sem þá (um 1980) var í kreppu. Margir Svíar voru logandi hræddir um að þetta myndi leiða til mikillar miðstýringar og að verkalýðshreyfingin yrði geðklofa, hú yrði bæði fulltrúi eigenda og starfsmanna. Mikill mótmælaalda reis í landinu og kratarnir gáfust upp á hugmyndinni (stórauðvaldið barðist náttúrulega með kjafti og klóm gegn sjóðasósíalismanum). Sænski fræðimaðurinn Bengt Furåker vill nú dusta rykið af sjóðasósíalismanum, hann gæti orðið vopn gegn síauknu valdi auðmagnsins og auknum ójöfnuði (Furåker 2015: 1-12).

Íslenskur sjóðasósíalismi?

Og þá berst leikurinn til Íslands. Eftirlaunasjóðirnir íslensku gætu hæglega keypt allt íslenska hagkerfið og vængstýft með því hið viðurstyggilega íslenska auðvald. En fyrst yrði að lýðræðisvæða sjóðina og kjósa rétt í þingkosningum, sjá til þess að sjóðasósíalistar nái meirihluta á þingi. Svipta yrði sægreifana gjafakvótanum og sjóðirnir myndu kaupa stærstu sjávarútvegsfyrirtækin. Síðan yrðu erlend álfyrirtæki keypt af sjóðunum. Stórfyrirtækjum yrði stjórnað í sameiningu  af starfsmönnum og fulltrúum sjóðanna sem yrðu lýðræðislega kjörnir. En smærri fyrirtæki yrðu í „vanalegri“ einkaeign, ekki yrði hróflað við markaðnum. Verkalýðshreyfingin kæmi ekki nálægt sjóðseign og –stjórn.

Lokaorð

Er þetta fáránleg hugmynd?  Enn ein vitleysis útópían? Er hætta á ofurveldi sjóðanna? Er sósíalisminn úti í hött og blandað hagkerfi illskásti kosturinn? Kannski en hvað segir góðfús lesari?

Heimildir:

Furåker, Bengt (2015): „The Swedish Wageearners Funds and Economic Democracy: Is there anything to be learned from them?“ Transfer, bls. 1-12.

Roemer, John (1992): “The Morality and Efficiency of Market Socialism”, Ethics 102 (apríl), bls. 448-464.  

Sik, Ota (1969): Plan og marked. Markedsmekanismen i en sosialistisk planøkonomi (þýðandi Per Nestor). Ósló: Aschehoug.

Singh, Parbudyal; Bartkiw, Timothy J; Suster, Zeljan (2007):  ”The Yugoslav Experience with Workers’ Council: A Reexamination”, Labor Studies Journal, 32: 280, bls. 280-297.

Stefán Snævarr (2011): Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Reykjavík: Heimskringla.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni