Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Lærisveinn reynslunnar. 500 ára ártíð Leonardós da Vincis

Lærisveinn reynslunnar. 500 ára ártíð Leonardós da Vincis

Þann 2 maí síðastliðinn voru liðin fimm hundruð ár fá láti Leondardós da Vincis, snillingsins mikla. Hann var í heiminn borinn í litlum ítölskum bæ, laungetinn sonur pótintáta nokkurs. Þar eð hann var ekki skilgetinn fékk hann fremur litla menntun, lærði t.d. aldrei latínu til hlítar en hún var mál allra mennta. Það var lán í óláni, vegna þessa varð Leonardó ekki fórnarlamb þeirrar kreddutrúar sem enn mátti heita ríkjandi. Það þótt ítalskir húmanistar hafi gert sitt til að veikja völd hennar. Menntamenn voru aldir upp í bókstafstrú á sígilda texta fornmanna. Leonardó hæddist að þeim og sagði að álíka mikið væri að marka loftið sem kæmi út úr kjöftum þeirra og því sem kæmi út að neðanverðu. Í dagbók sinni skrifar hann „ég er Leonardó, lærisveinn reynslunnar“. Hvort sem hann fékkst við myndlist eða leyndardóma náttúrunnar var reynslan hans kennari. Auk þess hafði hann mikla trúa á stærðfræði, þess minni á göldrum og dulspeki. Reyndar fannst honum ekki vera neinn verulegur munur á myndlist og náttúruvísindum. Hann beitti reynslurökum og stærðfræði á báðum sviðum, myndlistin skyldi sýna veruleikann eins og hann er, vísindin líka. Flestir þekkja málverk á borð við Síðustu kvöldmáltíðina og Mónu Lísu, einnig hinar mörgu, frábæru teikningar hans. Margir vita líka að honum veittist erfitt að ljúka verkefnum, fór úr einu í annað. Í dagbókunum má finna allra handa hugmyndir um tækninýjungar, hann teiknaði myndir af eins konar kafbátum, velti fyrir sér möguleikunum á flugvélum og hannar alls konar morðtól. Enda var hann góður verkfræðingur, rétt eins og allt hitt hefði ekki verið nóg. En hann var mann- og dýravinur, vildi ekki opinbera kafbátshugmyndina af ótta við að ómenni nýttu hana til manndrápa. Dýravináttan kom m.a. fram í því að hann keypti fugla í búrum og sleppti þeim lausum. Það segir alla vega Giorgio Vasari í bók sinni um endurreisnarmálarana ítölsku en hann lofar Leonardó hástöfum, kannski ögn of mikið. Hann segir að Leonardó hafi verið hvers manns hugljúfi, spilað á hljóðfæri og sungið vel, fyrir utan að hafa verið óvenjufríður og mikill smekkmaður í klæðaburði. Dagbækur Leonardós eru skrifaðir í spegilskrift, bæði vegna þess að hann vildi eiga einkarétt á uppfinningunum, eins til að forðast refsingar kaþólsku kirkjunnar. Sumar af hugmyndum hans voru mjög í andstöðu við kreddur hennar. Til dæmis efaðist hann um syndaflóðið hefði átt sér stað. Ef öll jörðin hefði verið undir vatni, hvernig gat þá vatnið hjaðnað? Hvert átti það að fara? Ekki gat syndaflóðið hafa orsakað að finna má skeljar hátt uppi í fjöllum. Skeljar sama dýrs liggja næstum alltaf hlið við hlið, ef syndaflóð hefði átt sér stað hefðu skeljarnar yfirleitt farið í sínhvora átt. Því megi álykta að þar sem nú séu fjöll hafi eitt sinn verið strandir. Þess utan benti hann á að ástæða þess að til eru gljúfur og dalir sé að vatn hafi sorfið landið um langt skeið. Ótrúlega nútímalegar hugmyndir, Leonardó var langt á undan sinni samtíð á mörgum sviðum. Samt var hann líka barn síns tíma, t.d. hélt hann að jörðin væri eins og lífvera. Alla vega var hann einhver fjölhæfasti og snjallasti maður sem uppi hefur verið. Guðirnir mega vita hvað hann hefði getað afrekað hefði hann haft ögn meira úthald.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni