Læmingjar og lýðveldið Algleymi
Það mun vera goðsögn að læmingjahjarðir hlaupi fyrir björg. En víst er um að læmingjar eru hjarðdýr, rétt eins og mannskepnan.
Í öllum samfélögum má finna læmingjahjarðir. Norska hjörðin hleypur jafnan beint til fjalla undir fánum kratismans.
Sú íslenska breytir stöðugt um stefnu og gleymir jafnharðan hvert hún hljóp síðast.
Fyrir áratug hljóp hjörðin í útrásar-, Ameríku- og markaðsátt. Hún gaulaði hátt um hve frábærir bankarnir væru og hve stórkostleg hún sjálf væri.
Hún væri sköpuð til að sigra heiminn.
Svo kaus hún besta auðmanninn í blaðakjöri.
Nú hleypur hún í öfuga átt, í skandinavísku áttina, bölvandi sjálfri sér og bönkunum, fordæmandi auðmenn og segjandi Ísland ónýtt land.
Hún virðist hafa gleymt sjálfsupphafningargaulinu enda er hún gleymin með afbrigðum.
Eins og skáldið orti:
„Já, þetta er nú algleymi ef algleymi er til,
því ekkert ég man eða veit eða skil.“
Hvernig væri að Ísland skipti um nafn og nefndi sig „Lýðveldið Algleymi“?
Eða „Amnesiu“.
Athugasemdir