Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ljóð Bubba og Sindra

Ég ákvað að festa kaup á a.m.k. tveim ljóðabókum um jólin, hefði sennilega keypt bók Lindu Vilhjálms hefði hún ekki verið uppseld.  Fyrir valinu urðu  tvær mjög ólíkar en góðar bækur, Öskraðu gat á myrkrið eftir Bubba Morthens og Góðir farþegar eftir Sindra Freyson. Sú fyrri mögnuð, upprunaleg, ekta tilfinningatjáning, sú síðari velhugsuð og frumleg bók um tilvistarvanda okkar allra.

Bubbi

Einkunnarorð Bubbabókar er fengin úr Moby Dick Melvilles, „kallaðu mig Íshmael“. Hann var sá eini sem lifði af átökin við hvíta hvalinn. Ljóðmælandinn (Bubbi sjálfur?) virðist einn fárra sem lifa af átökin við hið hvíta duft, kokaín. Tónninn í ljóðunum er mjög persónulegur, lýst ömurlegu uppeldi í alkafjölskyldu og hvernig rokk og dóp verða flóttaleiðir. Dópið reyndar bara sýndarflóttaleið, „…hvíti draugurinn gerði þig ódauðlegan“ (í 10 kafla).

Hrynjandi bókarinnar er einkar sterk,  flæði mikið og gott. Myndmálið misgott en stundum tekst skáldinu verulega vel upp eins og þegar myrkrið er sagt hafa gulan mána í lófanum (í 14. Kafla). Eða þegar draugurinn er sagður hafa sömu kennitölu og þú (ljóðmælandinn?) (í 19 kafla). Eftirtektarverða tilvísun (?) í kvæði Kristjáns frá Djúpalæk má finna í 23 kafla, þar er krummi sagður „fljúgandi myrkur“. Kristján yrkir einhvers staðar „Hvort ertu, Hrafn, heldur fugl eða fljúgandi myrkur?“ Kannski er þetta ekki meðvituð tilvísun, kannski hefur skáldunum tveim dottið sama líking í hug (hér má tala um „intertextúalítet“). Reyndar er Bubba hrafninn hugstæður, segir á smellinn hátt að hin  eineygði eigandi hans (Óðinn) sé löngu búinn að gefast upp á honum (í 27 kafla).

En stundum verður myndmálið hans Bubba  einum of gressilegt, t.d. þegar eldhús er sagt hlaðið „…úr hauskúpum drauma ykkar“ (í 16 kafla). Þarna er stutt í B-mynda hrylling.

Eftirtektarvert er hve spakmæltur Bubbi er, hann kemur stundum með gullvægar setningar sem gætu vel orðið að orðtökum: „hégóminn er harður húsbóndi“ (í 15 kafla), „vonin er hægur dauði“ (í 27 kafla).

Þessi bók er fyrsta ljóðakver Bubba. Hann má sannarlega vel við una, svo notuð  sé gömul klisja þá á hann heima á skáldaþingi. Honum liggur mikið á hjarta og kann að vinna úr því með skáldlegum hætti. Alltof mörg nútímaskáld hafa ekki upp á neitt annað að bjóða en letilega kveðna fimmaurabrandara um vort póstmóderníska samfélag.

Sindri

Sindri kvaddi sér hljóðs á síðasta tug síðustu aldar með eins konar nýmódernisma í ljóðum. Hann virtist af sama skóla og þær Sigurbjörg Þrastar og Gerður Kristný, góður skóli það. Ljóðin hafa orðið auðskildari og opnari með árunum, sú þróun hefur haft jafnt góðar sem slæmar hliðar. Ljóðveldið Ísland var smellin og frumleg bók, sérhverju ári lýðveldisins gert skil í ljóði. Löngu áður, um 1990, skrifaði ég grein í Alþýðublaðið sem hét „Ljóðveldið“. En fjallaði um ofurást íslenskra vinstrimanna á bókmenntum. Sindri hefur sennilega ekki þekkt þá grein (heyrði ég einhvern tauta „intertextúalitet“?).

Sama frumleika má finna í nýjasta kveri Sindra, Góðir farþegar. Lýst er hugrenningum farþega um borð í flugvél sem er í eigu Poesian Airlines. Sérhver farþegi er aðeins kynntur með sætanúmeri. Þetta er allrahanda fólk, kannski þverskurður mannkyns, t.d. er ein konan  afdönkuð stórstjarna. Eitt meginstef bókarinnar er draumurinn, á blaðsíðu 37 segir „Helvíti er draumur sérhvers manns“. Hljómar eins og tilvísun í fræg orð Jean-Paul Sartres í leikritinu Luktar dyr: „Helvíti, það er hitt fólk“ (eða er hér á ferðinni  „intertextúalitet" annarrar gerðar?).

Annað meginstef er dauðinn. Á blaðsíðu 38 segir að dauðinn sé eins og hvert annað lággjaldaflugfélag, geri sér engan mannamun! Dauðinn er reyndar laumufarþegi um borð, mikilvægasti farþeginn  (bls. 47). Í lok bókarinnar (bls.  72) er flugstjórinn látinn bjóða góða nótt og segja heilmikla kyrrð framundan. Kyrrð dauðans? Endar ekki sérhver vegferð manns þannig?

Kverið minnir ögn á útvarpsleikrit eftir franska nýrómanistann Michel Butor sem ég las á þýsku einhvern tímann og heitir á því máli Fluglinien (fluglínur, á frönskunni Réseau aérien, flugnet). En þar tala flugfarþegar hverjir við aðra, gagnstætt Sindrafarþegum sem eru luktir inni í eigin huga. Sumir Butor-farþega skipta um flugvél, nýir farþegar setjast í sæti þeirra sem á  brott hverfa o.s.frv. Að endingu hafa persónurnar flogið kringum hnöttinn. En hér er tilfinningin að fljúga í fyrirrúmi og útsýnið úr vélinni skiptir miklu, ekki í bók Sinda. Tilvist manna er samt í brennidepli, rétt eins og hjá Sindra. Hann sannar eina ferðina enn að hann er með betri skáldum Íslands.

Lokaorð

Þá er ekkert eftir nema að hvetja ljóðunnendur til að lesa báðar þessar vægast sagt ólíku bækur. Ólíkar og þó. Fjalla þær ekki báðar um   hvað það er að vera manneskja? Fjallar ekki allur skáldskapur um það?

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni