Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Leonard Cohen (1934-2016)

Leonard Cohen (1934-2016)

Rétt áðan barst mér sú sorgarfregn að kanadíski skáldsöngvarinn Leonard

Cohen væri allur, 82 ára gamall. Fékk engan nóbel en slapp alltént við að lifa forsetatíð Trumps. 

Upphafið

Ég gæti tuðað endalaust um áhrif Cohens á mína aumu persónu en hyggst sleppa því. Í staðinn vil ég minnast Cohens og ræða list hans. Hann var fjölhæfur, hóf feril sinn sem skáldsagnahöfundur og ljóðskáld en varð fyrir vitrun á Dylantónleikum, sá að hann ætti að feta í fótspor Dylans. Cohen er sem kunnugt er ættaður frá stórborginni Montreal  í Kanada. Íbúar hennar eru flestir hverjir frönskumælandi. Hann segir sjálfur að tónlist sín og textar eigi rætur hjá skáldsöngvurum þar í borg sem kallast «les chansonniers». Enda birtast stundum franskar setningar í textum hans, einnig hefur hann þýdd og endurunnið franskt lag og texta, heitir The Partisan hjá honum.  Enn fremur minna lög hans talsvert á franska skáldsöngvara á borð við Jacques Brel og Moustaki.  Lög þeirra einkennast af ljúfsárum trega.  Ástin, tilvistin og jafnvel pólitíkin eru í fyrirrúmi, rétt eins og hjá Cohen.  

Tilvistin

Stundum syngur Cohen um  tilvistarvandann í helgisöngvastíl og er það við hæfi því þann vanda reyna trúarbrögðin einatt að leysa. Í laginu Anthem (Helgisöngur) syngur hann “there is a crack in everything, that’s where the light gets in”.  Kannski svo lítið einföld speki, svipaða hugsun orðum við í máltækinu “fátt er svo með öllu illt að ei boði gott”. Á nýlegri plötu má finna annað helgisöngslegt lag, Come Healing: “Come healing of the spirit, come  healing of the limb”.  Fádæma falleg setning. Annað ekki ósvipað lag,  If it be your will, virðist vera hreinræktaður helgisöngur. Það er sem ljóðmælandi segi við Guð að hvað eina sé rétt sem sé honum/henni þóknanlegt. Vonandi sé það honum/henni þóknanlegt að láta “… your mercy spill on all these burning hearts of hell”.

Dauðinn og tilvistin verða ekki aðskilin: Cohen  vinnur úr gömlum Gyðingasálmi um dauðans óvissutíma, Who by Fire, og semur magnað lag við.  Hann minnir hlustendur á dauðann, að sérhver deyi með sínum ákveðna hætti, sumir brenni í hel, aðrir deyi á sóttarsæng, enn aðrir fyrirfari sér o.s.frv.

Tilveran, ástin, stjórnmálin

Ástin er þó sá tilvistarþáttur sem Cohen er hugstæðastur.  Í laginu Love  calls you by your name  syngur/yrkir  hann  «between the hour and the age, love calls you by your name». Stjórnmálin eru snar þáttur í mannlegri tilvist. Cohen  segir einhvers staðar að hann sé hvorki til hægri né vinstri. Hann virðist horfa á stjórnmálin utanfrá, t.d. í The Partisan.  Textinn er að miklu leyti þýðing á söng sem saman var af meðlimum frönsku andspyrnuhreyfingarinnar í síðari heimsstyrjöld. Í þeim texta má finna einkar áhrifamikla lýsingu á skæruhernaði en sjónarhornið er fjarlægt.  Cohen lætur óþýdda þá hluta franska frumtextans sem vísa til baráttu frönsku andspyrnuhreyfingarinnar í síðari heimsstyrjöld. Í hans þýðingu fjallar textinn um skæruhernað almennt. Reyndar er hernaður Cohen fyrst og fremst efniviður í líkingar og myndhvörf um ástina. Hann er «Field Commander Cohen" sem berst í fremstu víglínu í ástarbardaganum. Í   laginu There Is a War  lýsir hann heiminum sem einum allsherjarvígvelli. Það er stríð milli allra, ekki sísta karla og kvenna. Því skyldi engan undra þótt valkyrjan Jóhanna frá Örk sé Cohen hugstæð. Í laginu Joan of Arc tekur eldurinn að mæla og lýsir ást sinni á mærinni frá Örk. En hann getur ekki faðmað hana öðruvísi en að brenna hana upp til agna. Svona fólk er til, fólk sem aðeins getur skaðað þann sem það elskar. Eins og Oscar Wilde orti "…each  man kills the thing he loves".

Pólitík?

Þegar Cohen á syngur  um samfélagsleg efni er það  helst undir rós (gott að standa syngjandi undir rósinni). Bragurinn  The Story of Isaac fjallar á ytra borði um Abraham sem hélt að Guð hefði sagt sér að fórna syni sínum Ísaki. En sönginn má líka skilja sem gagnrýni á Víetnamstríðið.  Miðaldra ráðamenn  í Bandaríkjunum voru fúsir til að fórna ungu kynslóðinni fyrir vafasaman málstað. Um leið má túlka lagið sem gagnrýni á alla þá sem vilja fórna fólki  (og jafnvel sjálfum sér) fyrir "hágöfugan" málstað, ekki bara bandaríska valdsmenn. Cohen er beinskeyttari í kvæðinu All There Is To Know About Adolf Eichman. Kvæðið fjallar að sjálfsögðu um fjöldamorðingjann þýska.  Það er eins og útfyllt umsóknareyðublað sem lýsir Eichman eins og ofurvenjulegum manni. Hér má heyra endurróm frá frægri bók Hönnu Arendt, Eichman in Jerusalem.  Arendt segir að Eichman hafi verið ósköp venjulegur skrifráðungur, hlýðinn og ofurnákvæmur (hvað er býrókratískara en eyðublað?). Illmennska hans var lágkúruleg, Arendt talar um "the banality of evil", «lágkúru hins illa». Þetta eru frumlegar og ögrandi hugmyndir.

Í bragnum Democracy söng Cohen um þá uppákomu þegar lýðræðið kom til Bandaríkjanna. Er það að yfirgefa þessi miklu ríki rétt eins og Bakkus og fylgdarlið hans yfirgaf Alexandríu forðum?

Trúin, gyðingdómurinn

Ljóð Cohens er ekki síður frumlegt og ögrandi, kaldhæðnin skín í gegnum mörg þeirra. Í kvæðinu The Song Of The Hellenist talar Cohen í orðastað Gyðinga á dögum Rómarveldis.  Þeir eru heillaðir af grískri menningu, vilja fremur vera Grikkir en Gyðingar. Svo langt ganga þeir að þeir vilja helst kallast grískum nöfnum. Kvæðinu er örugglega beint gegn samtímagyðingum sem vilja gleyma arfleifð sinni. Cohen notar ekki bara stríðsmetafóra í ástarkvæðum sínum, trúarleg myndhvörf eru honum líka kær. Lýst er brúðkaupi þar sem brúðguminn Bethlehem giftist brúðurinni Babýlon. Er Betlehem tákn fyrir Gyðinginn sem svíkur hefðirnar? Babýlón er  jú hin mikla hóra Gamlatestamentisins, hóran sem afvegaleiðir góða drengi.En ástin er ekki bara  hóran Babýlón, hún er líka vinkona vonarinnar. Á hinsta degi munu elskendurnir endurfæðast "the lovers will rise up and the mountains touch the ground".  Svo segir í laginu  The Last Year's Man á þunglyndis-plötunni miklu, Songs of Love and Hate. Í "Babýlon við vötnin ströng" hófst fyrsta útlegð Gyðinganna. Því er engin furða þótt hún komi við sögu í mörgum ljóðum Cohens, hins útlæga Gyðings. Til dæmis í bragnum By the Rivers Dark, við myrkvötnin ströngu í Babýlon. Skáldið syngur , “I lived my life in Babylon”.  Dularfull karlkyns vera birtist og virðist misþyrma ljóðmælanda sem gleymir sínum helga söng. Þýðir það að hann gleymir Gyðingdómnum? Er karlkyns veran allt það sem er Gyðingdómi andstætt, þ.á.m. afhelgun sú sem einkennir nútíma menningu? Ljóðmælandi virðist  sætta sig við vistina í Babýlon en svo fer karlkyns veran aftur á stjá og ljóðmælandinn verður ósáttur á ný. En hann megi alls ekki gleyma Babýlon, fremur verði sannleikurinn látinn ósagður og blessunin látin hverfa. Babýlon er honum því ill nauðsyn. Berthold Brecht sagði einhvern tímann að útlegð væri besti skóli í díalektík sem völ væri á. Kannski er útlegðin í  Babýlon  besti skóli Gyðingsins Cohen.

Cohen var löngum  mikill áhugamaður um trúmál og var um langt skeið búddamunkur. En í viðtölum neitaði  hann því alfarið að hann væri trúaður. Kannski var hann sjálfur Gyðingurinn sem sveik, kærustur hans voru  margar hverjar verið "shiksur", þ.e. ekki-Gyðingar.  Þær  hafa sjálfsagt verið vel kristnar sumar hverjar enda er Jesús Cohen hugstæður. Í laginu Suzanne segir hann að Jesús hafi verið sjómaður sem horfði á heiminn úr tréturni.  Satt að segja er mér  ekki gefið að skilja þessa lýsingu á Kristi, Guði sé lof. Hún er einkar  falleg í allri sinni dulúð.

Lokaorð

Enda Cohen maður dulúðar. Alltént listamaður sem reyndi að höndla frelsið en var eins og fugl á rafmagslínu við þá iðju “like a bird on a wire”. Eins og við hin.  Cohen hefur kennt okkur margt, um Gyðingdóm, stjórnmál og síðast,  en ekki síst,  um ástarinnar  margslungna eðli.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni