Krataávarpið 2.0
Fyrir sex árum birti Tímarit Máls og menningar grein mína Krataávarpið. Heitið var komið frá hinum hugkvæma ritstjóra tímaritsins, Guðmundi Andra Thorssyni. Seinna var glefsum úr greininni ofið inn í kafla í bók minni Kredda í kreppu. Mikið vatn er til sjávar runnið síðan það kver kom út. Ég hef endurskoðað margar af mínum hugmyndum en ekki gefist upp á jafnaðarstefnunni, öðru nær. Erindi hennar hefur aldrei verið brýnna. En ég er hættur að verja frjálslynda jafnaðarstefnu, hún er ekkert annað en frjálshyggja með velferðarglassúr. Hér koma kaflar úr nýja ávarpinu, birt í tilefni kosninga. Í því má finna beinar og óbeinar tilvitnanir í fyrra ávarp og Kreddu í kreppu:
Jafnaðarstefnan er jafnvægislist. Jafnaðarmaðurinn leitar jafnvægis milli einstaklings og samfélags, jafnaðar og frelsis, markaðar og ríkis, hagvaxtar og náttúruverndar. Stefna hans er öfgalaus, yfirveguð og miðjusinnuð. Og þó, hún er til vinstri við miðju. Kratanum er sama hvaðan gott kemur, hvort það kemur frá vinstri, hægri eða miðjunni fúlu. Engu skiptir hvernig kötturinn er á litinn svo fremi hann veiði mýs (en Guð hjálpi okkur ef mýsnar fara að veiða kisu!). Hann vitnar í nýbakaðan nóbelshafa sem kyrjar af alkunnri snilld: ”You don't need a weatherman
to know which way the wind blows”.Jafnaðarmaðurinn þjáist hvorki af ríkishyggju né ríkisbubbahyggju, hann blótar hvorki markaði né ríkisvaldi, hvað þá ríkravaldi. Hann geldur markaðnum það sem markaðarins er og ríkinu það sem ríkisins er. Um leið geldur hann varhug jafnt við ríkisofurvaldi sem markaðsvaldi. Illskást er að efla samfélagið, stuðpúðann milli markaðar og ríkis. Samfélagið er svið hinna óformlegu samskipta og samtaka manna - svið samráðs og samræðu, samræðulýðræðis.
Krítiski kratinn
Jafnaðarmaðurinn kallar stefnu sína «gagnrýna jafnaðarstefnu». Kratinn krítiski er gagnrýninn í margvíslegum skilningi orðsins: Hann gagnrýnir jafnt auðvald sem ríkisofurvald, hann er sjálfsgagnrýninn og veit að kratar bæði hérlendis og erlendis hafa gert ýmis mistök. Hann vill leiðrétta þau. Hafi hann einhverjar kenningar að leiðarljósi þá bera hvað hæst kenningar félagsfræðingsins og kratans Anthony Giddens. Hann á heiðurinn af hugmyndinni um þriðju leiðina milli hefðgróinnar jafnaðarstefnu og frjálshyggju, hana setti hann fram í bókum á borð við The Third Way. Þá leið vill gagnýni jafnaðarmaðurinn fara. En hvers vegna vill hann ekki tölta gróna stígu hefðarkratismans? Vegna þess að hann óttast þá forsjárhyggju og miðstýringardellu sem einkenndi fornkratismann, ekki síst þann skandínavíska. Um leið geldur hann varhug við þeim hægrikratisma sem olli því að meintur jafnaðarmaður vildi auka kostnaðarvitund almennings á heilbrigðisviðinu. Afleiðingin er sú að fátækir Íslendingar verða að neita sér um ýmsa heilbrigðisþjónustu. Krítiski kratinn vill finna meðalveginn gullna milli forsjárkratismans og hálffrjálshyggju hægrikratismans. Hvað um það, Giddens segir að ekkert þjóðfélag fái staðist nema borgurunum finnist þeir eigi eitthvað sameiginlegt og eigi þátt í þjóðfélaginu. En verði ginnungagap milli hinna ríku og hinna fátæku sé voðinn vís og ekki hægt að útiloka alvarleg átök í slíku samfélagi. Mikill ójöfnuður geti beinlínis skaðað efnahagslífið. Hæfileikar þeirra sárfátækustu nýtist ekki samfélaginu því þeir fái ekki tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Velferðarríkið eigi ekki aðeins að vera öryggisnet heldur kerfi sem nýtist öllum borgurum. Það eigi að vera kerfi félagslegra fjárfestinga, fjárfestinga sem auki mannauð. Það sé ekki síst fjárfesting í menntun sem auki þann auð. Við spekimál Giddens má bæta snjöllum málflutningi faraldsfræðinganna Richard Wilkinsons og Kate Pickett í bókinni The Spirit Level. Þau leiða sannfærandi rök að því að mikill ójöfnuður í þróuðum lýðræðisríkjum valdi lakara heilsufari, meira ofbeldi og hvers kyns óarin annarri. Meðal þróaðra þjóða með álíka meðaltekjur sé heilsufar og slíkt best í þeim landanna þar sem jöfnuður er mestur. Þess séu dæmi að heilsufar sé betra í jafnaðarlandi sem er heldur fátækara en ójafnaðarland. Þess utan sé heilsufar hinna best stæðu í jafnaðarlöndum betra en heilsufar stéttsystkina þeirra í ójafnaðarlöndum. Wilkinson og Pickett telja ástæðurnar vera meðal annars minna gagnkvæmt traust og meiri streitu í ójafnaðarsamfélögum en streita og skortur á trausti veiki ónæmiskerfið og auki líkur á hjartasjúkdómum. Skorturinn á trausti í þróuðum ójafnaðarlöndum birtist m.a. í því að íbúar slíkra landa eru vinafærri en aðrir. Vinafæð bitnar beinlínis á heilsu manna, hinir vinafáu eru til dæmis kvefsæknari en aðrir! Höfundur Hávamála vissi hvað hann söng þegar hann líkti manninum sem enginn elskar við hrörnandi tré og spyr “hvað skal hann lengi lifa?”. Og Wilkinson og Pickett svara “ekki ýkja lengi” og vísa til staðtalna sem sýna að sá vinafái lif skemur en sá vinsæli. Bæta má við að hverfi traust þá hverfur samloðun, því er mikið traust manna hver á öðrum nauðsyn hverju sæmilegu samfélagi. Norski hagfræðingurinn Alexander Cappelen segir að mikið traust sé ein af meginástæðum þess hve vel Norðmönnum gengur efnahagslega, traustið á sér rætur í tiltölulega miklum efnahagsjöfnuði. Öðru máli gegnir um Rússland þar sem misskipting auðs er geigvænleg, traust manna þar er afarlítið. Cappelen segir að Rússar væru 70% ríkari ef þeir bæru jafn mikið traust til hvers annars og samfélagsins eins og Norðmenn. Öllu þessu samsinnir hinn gagnrýni jafnaðarmaður, honum þykir mikið til um jafnvægislist Giddens, rannsóknir Picketts og Wilkinsons og kenningar Cappelens. Og hina djúpu visku Hávamála.
Heilbrigðiskerfið
Ekki batnar heilbrigðisástandið ef hinir fátækustu hafi ekki ráð á heilbrigðisþjónustu. Gagnrýni jafnaðarmaðurinn telur að ríkið eigi að vera umboðsmaður sem sjái til þess að allir fái nægjanlega heilbrigðisþjónustu. Þótt markaðurinn geti virkað vel á mörgum sviðum þá er heilbrigðissviðið ekki eitt þeirra. Ein ástæðan er sú að mun meiri teygni er í eftirspurn eftir læknisþjónustu en framboð. Það er erfitt og dýrt að mennta lækna svo framboðið hlýtur að vera takmarkað en engin gefin takmörk eru fyrir því hvað teljast má kvilli sem menn geta beðið um læknisaðstoð til að lækna. Þannig hefur framboðshliðin forskot á eftirspyrjendur. Athyglisverð er sú staðreynd að Bandaríkjamenn verja stærri hluta af vergri þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála en Vesturevrópumenn, næstum tvöfalt meira árið 2007, ef trúa má upplýsingum OECD. Samt taldi Alþjóða heilbrigðisstofnunin bandaríska heilbrigðiskerfið ekki nema hið þrítugastaogsjöunda besta í heimi árið 2000, verra en heilbrigðiskerfið í þriðjaheimsríkinu Marokkó. Heilsufar virðist almennt lakara í BNA en í velferðarríkjunum, til dæmis er ungbarnadauði mun meiri vestur þar. Nóbelshagfræðingurinn Paul Krugman gagnrýnir bandaríska heilbrigðiskerfið harkalega í bók sinni The Conscience of a Liberal. Hann mælir með almannatryggingakerfi að vesturevrópskri krata-fyrirmynd. Hið meira eða minna einkarekna ameríska heilbrigðiskerfi sé einfaldlega ekki skilvirkt og almenningi skaðvænlegt, segir Krugman. Tryggingafélögin reyni að draga úr kostnaði með því að neita að selja heilsuveilu fólki tryggingar eða láta það borga himinhá iðgjöld. Þeir sem mesta þörf hafi fyrir tryggingar séu síst líklegir til að fá þær! Ekki þýði að reyna að fá tryggingafélögin til að breyta um stíl. “Góða” tryggingafélagið sem ekki reyni að losa sig við að borga fyrir dýra læknisþjónustu myndi fá hina heilsulausu í hausinn og fara á hausinn (!) þess vegna. Almannatryggingar eigi ekki við slíkan vanda að etja, þess vegna eru þau líklegri til að þjóna hagsmunum þeirra sem mesta þörf hafi fyrir heilsugæslu. Auk heldur sé rekstrarkostnaður og skrifræði minna hjá ríkisheilsugæslu en einkafyrirtækjum. Gífurlegur tími og fé fari í togstreitu milli einkaaðila innan heilbrigðiskerfisins um það hverjum beri að borga. Auk þess noti fyrirtækin mikinn tíma, orku og peninga í að berjast gegn því að þurfa að borga fyrir læknisþjónustu. Um 15% af fjármagni þeirra fari í stjórnun og annað slíkt, aðeins 2% hjá hinu ríkisrekna Medicare. Ef litið sé til Kanada með sitt almannatryggingakerfi þá fari aðeins um 17% af heilbrigðisútgjöldunum í stjórnun, 31% af útgjöldum hins meira eða minna einkarekna ameríska kerfis. Til að bæta gráu ofan á svart þá hafi tryggingaaðilar í BNA lítinn hvata til að borga fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir.
Lokaorð
Marka ber stefnu í anda hins krítíska krata. Meðal annars vegna þess að heilbrigðiskerfi í anda jafnaðarstefnu er betra en hið ameríska. Í ofan á lag eykur jöfnuður traust sem aftur eflir efnahagslífið.
Flokkar koma og fara en jafnaðarstefnan blífur.
JAFNAÐARMENN ALLRA FLOKKA, SAMEINIST!
Athugasemdir