Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Klukkan ellefu, þann ellefta ellefta 1918

Klukkan ellefu, þann ellefta ellefta 1918

Klukkan var tuttugu mínútur yfir fimm um morguninn þann ellefta nóvember árið 1918. Sólin hafði vart náð að skína á skotgrafirnar, á limlest líkin, á hina særðu, á eyðimörk einskismanns landsins. Matthias Erzberger, sendifulltrúi Þýskalands, hafði stigið inn í járnbrautarvagn, skammt frá franska þorpinu Compiègne. Þar mátti hann undirrita skilyrðislausa uppgjöf Þýskalands. Sama dag, klukkan ellefu fyrir hádegi skyldi öllum hernaðaraðgerðum ljúka. Og þeim lauk þá, mestan part.

Kenningar um stríðið

Ekki skortir allra handa kenningar um stríðið, fræg er sú kenning að Þjóðverjar hafi borið meginábyrgð á stríðinu vegna prússsneskra hermennskuhefða og stórmennskubrjálæðis Vilhjálms keisara II. Það eru ekki síst þýskir sagnfræðingar sem hafa haldið henni á lofti. En ýmsir hafa borið brigður á hana, m.a. skoski sagnfræðingurinn Niall Ferguson í sinni mjög svo ögrandi bók, The Pity of War. Hann segir að vel hafði mátt koma í veg fyrir stríðið, það hafi ekki verið óumflýjanlegt. Ennfremur sé rangt að kenna Þjóðverjum einum um það, þeir hafi alls ekki verið eins „mílitarískir“ eins og af er látið. Ein helst ástæða stríðsins hafi verið ábyrgðarleysi og mistök breska diplómatísins. Bretar hefðu ekki átt að taka þátt í stríðinu, þeir hefðu vel getað þolað að meginland Evrópu væri undir beinni eða óbeinni þýskri stjórn. Þess utan hefði breskt hlutleysi gert að verkum að stríðið hefði staðið stutt, tiltölulega fáir fallið, rússneska byltingin ekki átt sér stað og nasisminn aldrei komist á koppinn. Ekki man ég hvort ég hef frá Ferguson þá kenningu mína um að þátttaka Bandaríkjamanna í stríðinu hafi gert illt verra. Hefðu þeir setið hjá þá hefðu Þjóðverjar getað fengið frið með sæmd og enginn nasismi orðið til.

Um aðra kenningu er ég þó viss um að sé mín eigin smíð. Því hefur verið haldið fram að sagan sýni að lýðræðisríki hafi aldrei háð styrjaldir gegn öðrum lýðræðisríkjum. En var Þýskaland keisarans einræðisríki? Það voru alltént frjálsar kosningar til þings og þingið hafði viss völd þótt keisarinn skipaði ríkissjórnina. Þingið hafði fjárveitingarvald, sú staðreynd að meirihluti þýskra þingmanna samþykktu fjárveitingu til stríðsrekstrar átti þátt í að gera stíðið mögulegt. Það sama er að segja um svipuð samþykki franskra og breskra þingmanna. Jafnaðarmenn studdu flestir hverjir þessar fjárveitingar og voru fylgjandi stríði, kommúnistar mega eiga að þeir börðust gegn því. Hvað sem því líður þá er varasamt að telja stríð Þýskalands og Habsborgarveldisins gegn Vesturveldunum vera stríð milli lýðræðis og einræðis. Habsborgaraveldið hafði líka lýðræðisþátt, bæði þar og í Þýskalandi var líka  fremur mikið tjáningafrelsi. Svo má deila um hve lýðræðisleg Frakkland og Bretland voru, í fyrrnefnda landinu nutu konur ekki kosningaréttar.

Hannes Hólmsteinn og efnahagslöggengin

Hannes segir eins og Ferguson að stríðið hafi ekki verið óumflýjanlegt, það kann að vera satt. En hvaðan kemur honum sú viska að þegar það hófst hafi ríkt fróðafriður í Evrópu í heila öld? Hvað með uppreisnir Ungverja og Pólverja 1848/9 sem bældar voru niður af hörku? Hvað með Krímsstríðið um miðja öldinni 1853-1856? Hvað með stríð Habsborgaraveldisins og franska keisaradæmisins 1859 sem tengdist blóðugri sjálfsstæðisbaráttu Ítala? Hvað með stríð Prússa og Dana 1864? Hvað með stríð Prússa og Austurríkismanna 1866? Hvað með stríð Prússa og Frakka 1870-1871? Hvað með uppreisn Parísarkommúnunar sem bæld var niður með engu minni hörku en uppreisnir Ungverja og Pólverja? Hvað með Balkanófriðinn 1912-1913? Ofan á þetta bættist að Evrópuríkin voru mörg hver í því að þjarma að íbúum nýlendna sinna, Belgíumenn slátruðu Kongóbúum eins og lömbum á haustin. Minnast má þess að Belgía var á nítjándu öldinni eitt markaðsfrjálsasta ríki þess tíma en Hannes talar eins og markaðsfrelsi aldarinnar nítjándu hafi orsakað tiltölulega mikla friðsemd. Ríkið evrópska hafi verið ein sog vingjarnlegur lögreguþjónn sem leyfði mönnum að ferðast óhindrað án vegabréfa. En ekki kom markaðsfrelsið breska í veg fyrir að Bretar beittu Íra hinu mesta harðræði og berðu uppreisn á Indlandi niður af fádæma hörku. Og legðu undir sig stóran hluta af Afríku með vopnavaldi. Það er út af fyrir sig satt að ekki var veurlega mikill ófriður í Evrópu á nítjándu öldinni en það kann að hafa stafað af því að mun meiru var eftir að slægjast í löndum þriðja heimsins sem Evrópubúar lögðu undir sig með vopn í hönd. Þeir fengu kannski útrás fyrir stríðslöngun sína með því að herja á fólk í fjarlægum löndum.

Frjálshyggjumenn eiga margt sameiginlegt með marxistum, til dæmis trú á efnahagslega löggengi eins og kemur fram í kenningu Hannesar um meinta evrópska nítjándualdar friðsemd sem afleiðingu markaðsfrelsis. Væri þessi kenning rétt þá hefðu Bandaríkin á nítjándu öld verið friðsemdarparadís enda markaðsfrjálsustu ríki heims. En svo var ekki, þar var háð gífurlega mannskæð borgarastyrjöld, Bandaríkin háðu landvinningarstríð gegn Mexíkó og herjaði á indjánana. Forsetaþorparinn Andrew Jakcson hrakti þá frá Suðurríkjunum og urðu heilu ættbálkarnir að þreyta langa göngu norður, þúsundir dóu á leiðinni úr hungri og vosbúð. Ferðin er kölluð „the trail of tears“. Enda segir í nýlegri bandarískri heimildamynd um villta vestrið að indjánunum hafi snarfækkað í Bandaríkjunum á nítjándu öldinni. Ég bæti við: Á öld hins mikla markaðsfrelsis. Víkjum aftur að fyrri heimsstyrjöld. Þau ríki sem hana háðu áttu mikil verslunarsamskipti hvert við annað enda fáar hömlur á alþjóðaviðskiptum. Aldrei fyrr hafði heimsverslunin verið svona frjáls. En samkvæmt efnahagslöggengis hugmyndum frjálshyggjunnar dregur umfangsmikil og „frjáls“ alþjóðaverslun mjög úr líkum á styrjöld. Samt fóru þessir viðskiptavinir hvors annars í hár saman og háðu hið firnablóðuga fyrra heimsstríð. Kenning frjálshyggjumanna stenst því ekki.

Lenín og löggengið

Önnur efnahagslöggengis kenning er kenningin sem  Lenín setti fram í bók sinni um heimsvaldastefnuna.  Samkvæmt henni var  fyrri heimsstyrjöld uppskiptastríð, stríð stórvelda um nýlendur og auðlindir. Arðrán á verkalýð hafi gert að verkum að stórkapítalistum þróuðu ríkjanna hafi verið nauðugur einn kostur að fjárfesta í evrópsku nýlendunum. En takmörk hafi verið fyrir því hve mikið hafi verið hægt að græða á því, neyðarúrræðið hefði verið að ásælast nýlendur annarra. Ríkisvaldið í stórríkjum Evrópu hafi gengið erinda stórkapítalistanna og því hafi heimsstyrjöldin verið barátta um auðlindir, einkum og sér í lagi í nýlendum. Barist hafi verið fyrir nýrri uppskiptingu nýlendna. En hvers vegna drógu þá hin erkikapítalísku Bandaríki sig út úr Evrópu eftir stríðið og ásældust ekki evrópskar nýlendur? Könum var í lófa lagið að gera stórveldi Vestur-Evrópu að leppríkjum sínum og hirða nýlendurnar af þeim. Frakkar og Bretar skulduðu þeim offjár og voru aðframkomnir eftir stríðið en efnahagur BNA var hinn blómlegasti enda græddi hann á stríðinu. En sem sagt, Kanar létu eiga sig að gerast heimsveldi og gerðust þess í stað einangrunarsinnar. Kenning Leníns getur ekki skýrt þetta.

Ekki má skilja orð mín þannig að ég telji efnahagslegar skýringar á sögulegum viðburðum inntakslausar. Þvert á móti er margt á þeim að græða svo fremi þær séu ekki markaðar af kreddutrú en slík trú einkennir margt af því sem marxistar og frjálshyggjumenn segja. Best er að trúa sem fæstu og dauðhreinsa sig af kreddum og hátimbruðum kenningum.

Lokaorð

Hvað sem öllum kenningum líður var fyrri heimsstyrjöldin skelfilegur harmleikur sem kostaði milljónir manna lífið. Ljúkum þessum pistli með tilvitnun í kvæði Wilfreds Owens um ungmennin sem slátrað var á vígvöllum Evrópu, Anthem for Doomed Youth:

„What passing-bells for those who die as cattle?

        Only the monstrous anger of the guns.

Only the suttering rifles‘ rapid rattle

         Can patter our their hasty orisons“.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni