Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Kenning um viðurkenningu

 

„Show some respect, I want you to show some respect.“

Aretha Franklin

 

Þýski heimspekingurinn G.W.F. Hegel er sennilega fyrsti hugsuðurinn sem skildi mikilvægi viðurkenningar fyrir mannfólkið. Sá sem ekki nýtur lágmarksviðurkenningar annarra er vart fullkomin mannvera, bara mannskepna. Hann setur kenninguna um viðurkenninguna m.a. fram í líki sögu um þróunarferli mannkynsins. Í árdaga hittast tveir menn og taka að berjast, sá sem vinnur sigur þrælkar hinn. Þrællinn verður í augum húsbóndans að hluti, ekki mennskri veru, enda sagði rómverskur spekingur að þræll væri verkfæri sem gæti talað. Þrælnum er svo upp á lagt að viðurkenna húsbóndann sem yfirvald sitt og mennska veru. En þrátt fyrir ömurlegt hlutskipti sitt þá öðlast þrællinn færni í að leysa ýmis vandamál á meðan húsbóndinn liggur í leti og þroskast ekki hvað færni varðar. Slík færni er einmitt eitt af kennimörkum mennskunar. Í ofan á lag er viðurkenning þrælsins á mennsku húsbóndans inntaksrýr því ef þrællinn er ekki mennskur þá skiptir viðurkenning hans á húsbóndanum engu. Álíka litlu og mögulegar ástaryfirlýsingar Alexu, amazon-vélmennisins. Fyrr eða síðar hlýtur húsbóndinn að skilja þetta og þrælinn krefjast réttar síns, þá verður til samfélag þar sem enginn er þrællinn og menn virða hver annan sem jafningja. (Hegel virðist reyndar hafa talið að markinu hafi þegar verið náð um hans daga).  

Alla vega lifir maðurinn ekki á brauði einu saman, þegar frumþörfum hans er fullnægt verða aðrar þarfir í fyrirrúmi, ekki síst þörfin fyrir viðurkenningu.

Blökkumenn og femínismi

Þegar blökkumenn vestanhafs tóku að krefjast réttar síns gengu karlmenn í mótmælagöngum með skilti þar sem stóð „I am a man“. Um það syngur Bob Dylan í Blowin in the Wind og ég skildi fyrst þegar ég uppgötvaði að alsiða var meðal hvítingja í Suðurríkjunum að ávarpa rígfullorðna blökkumenn sem „boy“ (sama var uppi á teningnum meðal forngrikkja). Blökkumönnum var upp á lagt að ávarpa hvaða hvíta lassaróna sem vera skyldi sem „boss“. Tungumál getur verið kúgunartæki.

Við má bæta að barátta feminísta hefur ekki síst verið barátta fyrir því að konum sé sýnd virðing sem mannlegum verum, ekki kynverum eða umhyggjumaskínum. Sú barátta birtist líka í kröfu um annan máta að tala um konur, ekki hinn gamla kynverumáta.

Popúlisminn

Hvað um það, svo virðist sem ein meginskýringin á hægripópúlískum uppreisnum vorra tíma sé tilfinning margra að þeir njóti ekki virðingar. Þrátt fyrir bætt lífskjör Pólverja finnst mörgum þeirra að þeir séu annars flokks borgarar í Evrópu, þeir fari vestur yfir að vinna skítastörf sem Vestur-Evrópubúar nenna ekki að vinna. Íbúar gömlu kommúnistaríkjanna kvarta yfir því að alþjóðafyrirtæki selji þeim lakari vörur en Vestur-Evrópubúum.

Þeir sem íklæðast gulu vestunum í Frans eru einatt sveitamenn sem telja hlut sinn fyrir borð borinn af Parísarmenntaelítu. Svipað gildir um stuðningsmenn Trumps marga hverja sem halda  að menntaelítan klíni á þá rasistastimpli og fyrirlíti þá. Allt sé gert fyrir minnihlutahópa, ekkert fyrir þá.

Múslimskir innflytjendur í Vestur-Evrópu hafa sömu sögu að segja, þeim finnast þeir fyrirlitnir af innfæddum, þeir njóti ekki lágmarksvirðingar.

Það er athyglisvert að meðal ýmissa jaðarhópa, t.d. hiphopverja í fátækrahverfum, er mikil áhersla á "respect", kannski af því að þessir hópar njóta lítillar virðingar og viðurkenningar í stórsamfélaginu.

Hugo Chavez var vissulega varasamur leiðtogi, sem olli miklum efnahagsskaða, og var nánast einræðisherra. En hann naut samt talsverðra vinsælda, ekki síst vegna þess að hann jók viðurkenningu fátæklinga landsins, sem áður máttu sín einskis.

Lokaorð

 Vandinn við þrána eftir  viðurkenningu er sá að það að viðurkenna einn hóp kann að valda því að öðrum hópi finnst hann vera sviptur viðurkenningu. Kannski er viðurkenningarleikurinn núllsummuleikur.

Altént er virðing og viðurkenning manninum næstum jafn mikilvæg og matur og auðlegð.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Innflytjendur á Íslandi
Samtal við samfélagið#15

Inn­flytj­end­ur á Ís­landi

Ís­land hef­ur tek­ið um­tals­verð­um breyt­ing­um und­an­farna ára­tugi. Eft­ir að hafa löng­um ver­ið eitt eins­leit­asta sam­fé­lag í heimi er nú svo kom­ið að nær fimmti hver lands­mað­ur er af er­lendu bergi brot­inn. Inn­flytj­end­ur hafa auðg­að ís­lenskt sam­fé­lag á marg­vís­leg­an hátt og mik­il­vægt er að búa þannig um hnút­ana að all­ir sem hing­að flytja geti ver­ið virk­ir þátt­tak­end­ur á öll­um svið­um mann­lífs­ins. Til að fræð­ast nán­ar um inn­flytj­enda hér­lend­is er í þess­um þætti rætt við Dr. Löru Wil­helm­ine Hoff­mann, nýdoktor við Menntavís­inda­svið Há­skóla Ís­lands, þar sem hún tek­ur þátt í verk­efn­inu “Sam­an eða sundr­uð? Mennt­un og fé­lags­leg þátt­taka flótta­barna og -ung­menna á Ís­landi.” Hún starfar einnig sem stunda­kenn­ari við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri og Há­skól­ann á Bif­röst. Sjálf er Lara þýsk en rann­sókn­ir henn­ar hverf­ast um fólks­flutn­inga, dreif­býli, tungu­mál og list­ir en hún varði doktors­rit­gerð sína í fé­lags­vís­ind­um við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri ár­ið 2022. Tit­ill doktors­rit­gerð­ar­inn­ar er „Að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi: Hug­læg­ar vís­bend­ing­ar um að­lög­un inn­flytj­enda á Ís­landi byggð­ar á tungu­máli, fjöl­miðla­notk­un og skap­andi iðk­un.“ Guð­mund­ur Odds­son pró­fess­or í fé­lags­fræði við HA ræddi við Löru en í spjalli þeirra var kom­ið inn á upp­lif­un inn­flytj­enda af inn­gild­ingu, hlut­verk tungu­máls­ins, stærð mál­sam­fé­laga, sam­an­burð á Ís­landi og Fær­eyj­um og börn flótta­fólks.