Jordan Peterson og einstaklingshyggjan
Ekki hef ég orðið svo frægur að heyra Jordan Peterson fyrirlesa, ekki hef ég heldur lesið hina umdeildu bók hans. En hann mun hafa sagt í Hörpufyrirlestri að ástæðan fyrir fjöldamorðum og alræði sovéskra kommúnista og þýskra nasista hafi verið heildarhyggja þessara þjóða. Einstaklingshyggju-þjóðir fremji ekki slík voðaverk og mun hann hafa nefnt Kanadamenn, Norðmenn og Bandaríkjamenn sem dæmi.
En hvernig hyggst Peterson þá skýra þrælahaldið bandaríska, skelfilega meðhöndlun Kana á indjánum, svipaða meðferð Kanadamanna á frumbyggjum Kanada og slæmri meðferð Norðmanna á Sömum?
Ennfremur mun hann hafa sagt að einstaklingshyggjumenn taki ábyrgð á eigin lífi meðan heildarhyggjumenn saki aðra um allt sem aflaga fer. Telur maðurinn í fúlustu alvöru að það sé aldrei rétt að telja að samfélagið beri ábyrgð á því sem ama kann einstaklinginn? Sagt er að drjúgur hluti þeirra mörgu Bandaríkjamanna sem tapað hafa efnahagslega á síðustu áratugum séu sannfærðir um að það sé þeim sjálfum að kenna. Þetta kemur fram í bókum á borð við Nickled and Dimed eftir Barböru Ehrenreich þar sem sagt er frá lífi og viðhorfum bandarískra tapara. En er ekki líklegra að hnattvæðingin og stefna stjórnvalda beri meginábyrgð á þessari vanþróun?
Útilokar Peterson að einstaklingshyggja geti undir vissum kringumstæðum leitt til eigingirni og einangrunar einstaklingsins en heildarhyggja til samstöðu manna á meðal?
Norðmenn eru alls ekki bara einstaklingshyggjumenn, það er sterkur þáttur heildarhyggju í norsku þjóðarsálinni. En hún hefur ekki bara neikvæðar hliðar, heldur leiðir til mikillar samstöðu Norðmanna og vilja til að fórna þröngum eiginhagsmunum fyrir heill komandi kynslóða. Það gerðu Norðmenn þegar olíusjóðurinn var stofnaður, þeir heimtuðu ekki olíugróðann strax í gær heldur lögðu fé til hliðar í sjóðinn, komandi kynslóðum til heilla. Annað dæmi um heilbrigða heilarhyggju Norðmanna er það fyrirbæri sem þeir kalla "dugnad". Orðið merkir ekki það sama og íslenska "dugnaður" heldur sameiginlegt átak manna, t.d. það þegar foreldrar halda tombólu til að styrkja fótboltaferð ungviðisins eða þegar íbúar í blokk nota helgi til að hreinsa bygginguna saman. Þetta er stofnanagert í Noregi, hluti af hefðum landsmanna og má telja hluta af borgaralegu samfélagi í merkingunni "civil society". Þetta borgaralega samfélag er stuðpuðinn milli ríkis og markaðar. En frjálshyggjumenn tala einatt eins og allt ekki ríkisboðað atferli (nema ofbeldi) sé af sama toga og markaðsatferli, þ.e. frjálst og óþvingað atferli. Það er rangt, m.a. vegna þess að markaðsatferli er ekki endilega frjálst. Eins og ég hef margsagt þá getur frjáls markaður tæpast orðið til, fákeppni, jafnvel einokun, getur orðið til á markaði án ríkisafskipta. Nægir að nefna fákeppnina á snjallsímamarknaðum alþjóðlega. Markaðsatferi á fákeppnismörkuðum er ekki frjálst atferli. Allt um það, heilbrigða hliðin á heildarhyggju Norðmanna er þeim til mikils sóma.
Eins og Einar Benediktsson segir í ljóðinu Fákar:
"Maðurinn einn er ei nema hálfur
með öðrum er hann meiri en hann sjálfur"
Affarasælast er að fara meðalveginn milli einstaklings- og heildarhyggju enda meðalhófið best í flestu.
Athugasemdir