Jón Daníelsson um G&G málið. Síðari hluti.
Í þessari færslu ræði ég ýmsar kenningar um játningarnar, einnig um harðræðisrannsóknina. Að því búnu vind mér að meintum fjarvista- og sakleysisönnunum, að lokum ræði ég dylgjur Jóns um dómarana.
4.b: Játningarnar (harðræðisrannsóknir, sálfræðikenningar)
Víkjum að harðræðisrannsóknunum, þ.e. rannsóknunum um það hvort sakborningarnar hafi verið beittir harðræði. Jón staðhæfir að rannsókn dómsins á ásökunum um ofbeldi hafi bara verið fólgin í að spyrja fangaverði og lögreglumenn (bls. 185). Er það örugglega satt? Alla vega virðist hann ekki hafa neinar sannanir fyrir því að rannsóknin hafi bara snúist um að ómerkja ásakanir (bls. 257). Að vísu tínir hann eitt og annað til sem gæti verið ábending um að harðræði hafi átt sér stað, t.d. staðhæfingar eins fangavarðar (bls. 108-109). Einnig að fangelsisdagbók sýni að Sævar hafi ælt, fengið blóðnasir og kvartað undir hjartveik. Jón telur þetta merki um að honum hafi verið misþyrmt (bls. 157). En hann athugar ekki að þetta gætu verið merki um að Sævar hafi verið afar stressaður. Á móti kemur að lýsingar Sævars á meintum misþyrmingum eru æði lifandi sem gæti bent til þess að þær væru sannleikanum samkvæmar (bls. 158-161) (nema að nefndur Laxness hafi verið honum til aðstoðar). Einnig staðfesti fangavörðurinn Hlynur Þór Magnússon hluta af ásökunum Sævars, reyndar tveimur átatugum síðar, minni getur brenglast á styttri tíma (bls. 161-162).
Það fylgir sögunni að Jón Oddsson, verjandi Sævars, framdi þá meginsynd að hrósa harðræðisrannsókninni og fær bágt fyrir hjá sínum alvitra nafna (bls. 256). En ekki er hægt að útiloka að lögregla og fangaverðir hafi beitt sakborninga ofbeldi og jafnvel neytt þá til að játa með hótunum. Þess utan má kalla langa einangrunarvist „harðræði“, harðræðisrannsakendurnir hafa örugglega ekki hugsað út í þann möguleika (þó virðist einangrunin ekki alltaf hafa verið mikil, Jón segir að sakborningar hafi getað komið skilaboðum sín á milli, bls. 59-60).
Jón skrifar reyndar af skynsamlegu viti um afstöðu yfirvalda til einangrunarvistar. Þau hefðu vanist því að menn segðu sannleikann eftir stutta einangrunarvist og því hafi lögregla og dómarar haldið að löng einangrunarvist hefði sömu afleiðingar en reynsla af að setu í löngum vistum var engin á Fróni. Þeir hefðu ekki gert sér grein fyrir því að löng vist gæti leitt til þess að menn væru tilbúnir til að játa hvað sem er, þeir yrðu sem leir í höndum yfirheyrenda (bls. 134-135). Hér kemur Jón með vitlega kenningu um óætlaðar afleiðingar af ákvörðunum og um áhrif vanþekkingar á hugsun manna og gerðir.
Alla vega hefur Gísli Guðjónsson, sálfræðingur, haldið því fram að sakborningar hafi verið manípúleraðir til að játa (t.d. Gísli 2013). Nú er vissulega sálfræði ekki nákvæmust vísinda, ég hef áður gagnrýnt ofurtrú á rannsóknir Gísla með tilvísun til vandkvæða sálfræðinnar og til þess að hann gerði rannsóknina áratugum eftir viðburðina. Samt er kenning Gísla skömminni skárri en samningakenningin, m.a. vegna þess að kenningin um brigðult viðburða-minni er vel rökstudd. Einnig vegna þess sem menn telja sig nú vita um áhrif einangrunarvistar á menn.
Vel má hugsa sér svipaða kenningu, köllum hana „hópefliskenninguna um játningarnar“. Samkvæmt þessari kenningu minni kann að hafa skapast hópefli (e. group dynamics) meðal sakborninga og þeirra sem þá yfirheyrðu. Sakborningar hafi fengið Stokkhólmseinkenni, tekið að samasama sig yfirheyrendum sem vald höfðu yfir þeim, auk þess hafi fleiri en Albert verið jámenn. Því hafi sakborningar samsinnt flestu sem yfirheyrendur sögðu. Ekki hafi það verið meðvituð ákvörðun lögreglumanna að „sýkja“ þau með Stokkhólmseinkenni heldur hafi einkennin orðið til vegna flókins samleiks lögreglu og sakborninga. Þær hafi verið óætlaðar afleiðingar fjölda ákvarðana, ekki vegna gefins ásetnings.
Athugið að í heimi ásetningarvillumanna stjórnast allt sem gerist af meðvituðum ásetningi, það er ekki líklegt. Vissulega svífur hópeflis-kenning mín í lausu lofti en hún er alltént ekki billeg samsæriskenning, þess utan er hún í samræmi við virtar kenningar um óætlaðar afleiðingar. Takið eftir að ég útiloka ekki að yfirheyrendur hafi meðvitað manipúlerað sakborninga, hafi rannsóknarlögreglan meðvitað blekkt verjendur og dómara hefði henni verið trúandi til slíks. Ég er aðallega að sýna fjölbrigði kenninga, það má skýra G&G ferlið með ýmsum meira eða minna jafngóðum tilgátum.
Þess utan gætu sumar játningar hafa verið samdar af lögreglu, aðrar orðið til vegna manipúlasjona, þær þriðju vegna ofbeldis, þær fjórðu vegna hópeflis, hinar fimmtu hreinlega verið sannar.
Hvað um afturköllun játninga? Hér er mikilvægt að muna kenninguna um hið brigðula viðburða-minni. Samkvæmt henni getur annað fólk haft þau áhrif á minni einstaklingsins að í huga hans verði til gerviminningar, einnig geti menn haft ómeðvituð áhrif á sitt eigið minni með sama hætti, ekki síst þegar óskhyggja á í hlut. Sjálfsagt hafa sakborningar verið einlægir í afturköllun játninga en ekki er hægt að útiloka að óskhyggja hafi komið við sögu, orðið hafi til í huga þeirra gerviminningar sem „sönnuðu“ sakleysi þeirra. Einnig kann slík ómeðvituð óskhyggja að hafa komið við sögu þegar þeir staðhæfðu að játningarnar hefðu verið samdar, þeir hafi þá gleymt sínum eigin, mögulega einlægu, játningum.
Nefna má að í frægu norsku morðmáli, Orderud-málinu, voru menn dæmdir þótt ekki fyndust handfastar sannanir og þótt sakborningar harðneituðu sök og gera enn (Orderud saken). Mönnum er svo frjálst að kalla þetta „dómsmorð“. En kannski sýnir þessi dómur að morðmál eru oft mjög erfið úrlausnar og einatt ekki gefin formúla fyrir lausn þeirra. Hið sama gildir um G&G málið.
Við höfum séð að samningakenninginn er engan veginn traust þótt hún gæti kannski verið sönn. Hið sama gildir um aðrar kenningar um þessar játningar, sjálfum þykir mér hópefliskenningin skást. Alla vega bendir margt til þess að eitthvað gruggugt hafi verið við játningarnar, þær jafnvel verið falsjátningar.
5. Fjarvista- og sakleysissannanir
Jón telur sig getað sannað að Sævar hafi ekki farið til Keflavíkur Geirfinnskvöldið og sé því saklaus í málinu. Hann notar m.a. sem sönnunargagn vitnisburð Vilhjálms Knudsens, kvikmyndagerðarmanns, sem sagðist hafa hitt Sævar þá um kvöldið en mundi ekki alveg, þó sennilega upp úr átta eða níu (bls. 55-56). Um leið viðurkennir Jón að minni kvikmyndagerðarmannsins hafi ekki verið nógu traust og kemur með dæmi sem sýnir að svo var (bls. 190). Í ljósi þess má spyrja hve traustur vitnisburður hans er. Ekki bætir úr skák að Vilhjálmur staðhæfir þetta sex mánuðum síðar, minni manna getur skolast til á styttri tíma. Og ef hann hitti Sævar upp úr klukkan átta má spyrja hvort hann hefði getað komist Keflavíkur á tilskyldum tíma. Þessi fjarvistarsönnun er því ekki traust.
En Jón telur sig hafa pottþétta fjarvistarsönnun: Þremur árum eftir viðburðinn lýsir Sævar því allt í einu yfir að hann hafi verið heima hjá móður sinni umrætt kvöld, horft á sjónvarp og lýsir inntaki eins þáttar fremur nákvæmlega (bls. 214-218, bls. 270, sjá einnig Dóm 1980, bls. 201). En hver trúir því að hann hafi munað þáttinn þremur árum síðar og munað í þokkabót hvaða kvöld hann var sýndur? Hafði hann klísturheila? Samkvæmt Dómi 1980 tók hann mjög lágt greindarpróf í fangelsinu, hafi það verið raunhæft þá er útilokað að hann haft svo gott minni. Reyndar segir sálfræðingurinn í skýrslunni um greindarfar Sævars að hann væri líklega betur greindur en prófið sýndi, alveg í meðallagi (Dómur 1980, bls. 36). Alla vega var hann hvorki séní né ofviti (idiot savant) og því ólíklegt að hann hafi haft klísturheila. Í ofan á lag má spyrja hvers vegna nefndi hann þetta ekki miklu fyrr. Af hverju datt honum þetta allt í einu í hug þremur árum seinna? Kannski eftir að hann frétti að Einari Bollasyni var sleppt eftir að hann hafði einu og hálfu ári síðar lýst sjónvarpsþætti sem sýndur var Geirfinnskvöldið. Gæti verið að Sævar hafi beðið einhvern um að rekja inntak þáttarins?
Það er engin ástæða til að telja þessa staðhæfingu Sævars vera afgerandi fjarvistarsönnun eins og Jón heldur, þvert á móti er lítið að marka hana. Ekki síst vegna þess að sjónvarpsmál Einars Bollasonar eru allt öðru vísi en mál Sævars. Í fyrsta lagi fékk Einar tækifæri til að horfa á slitrur úr þáttum sem sýndir voru þetta kvöld, hann segir í viðtali að þá hafi rifjast upp fyrir honum að hann hefði séð tiltekinn þátt þetta kvöld (Mannamál (2017). Sævar fékk ekkert slíkt tækifæri, það dregur úr líkum þess að hann hafi munað þáttinn. Í öðru lagi varð lögreglan að sleppa Einari vegna traustra fjarvistasannana (bls. 51, bls. 215-218). En auðvitað má velta fyrir sér hvort ekki hefði verið rétt að gefa Sævari líka tækifæri á að líta á slitrur úr dagskrá.
Alla vega tekst Jóni ekki að finna fullnægjandi fjarvistarsannanir og sýnir furðu barnalegt traust á Sævari (það útilokar auðvitað ekki að Sævar hafi sagt sannleikann um sjónvarpsgláp sitt en erfitt er að kveða á um það). Annað dæmi um barnalegt traust hans á Sævari er umfjöllun hans um bréf sem Sævari tókst að smygla út úr fangelsinu. Hann gefur sér að skýring Sævars á bréfskriftunum sé rétt og gefur honum sjálfdæmi eins og venjulega (bls. 258).
Athugið að hér bætist við dæmi sem sýnir að einangrunin var í reynd ekki alger (sjá líka bls 57-58). Ef til vill mátti smygla bréfum inn líkt, t.d. með lýsingum á sjónvarpsþáttum.
Traust Jóns á Sævari er furðulegt í ljósi þess að hann kemur með ýmis dæmi um að Sævar hafi logið. Bæði hann og Erla hafi ástundað svik og lygar í póstsvikamálinu (bls. 14). Jón bendir á fleiri dæmi um ósannsögli Sævars, hann hafi sagt sjálfur að hann hafi reynt að ljúga sig í sátt við Erlu (bls. 179). Kannski vantreystu dómararnir honum vegna þessa.
Bæta má við að Jón telur ófærðarrökin valda því að Guðmundarmálið hrynji til grunna (bls. 174). Hann athugar ekki þann möguleika að meintir atburðir næturinnar hafi gerst nokkru fyrr en sagt var, t.d. að líkflutningar (ef einhverjir voru) hafi gerst klukkan þrjú, klukkutíma fyrir ófærð. Kannski misminnti sakborninga um tímann, kannski lugu þeir. Hann sér heldur ekki þann möguleika að nágrönnum hafi misminnt, þeir voru ekki yfirheyrðir um hávaða og mannaferðir fyrr en tveimur árum eftir hvarf Guðmundar (bls. 174-176).
Ekki bætir úr skák þegar Jón vitnar fjálglega í ummælum nágrannakonu sem leysir frá skjóðunni rúmum tuttugutveimur árum eftir atburðinn og segist ekki hafa orðið vör við bílferðir á þessum slóðum nóttina þá (bls. 178-179). Þetta er vart svaravert, þarf ég segja það aftur? Minni manna getur brenglast á styttri tíma en tveimur árum. Rúsínan í pysluendanum er endanleg sönnun Jóns fyrir því að Sævar hefði ekki verið heima hjá sér nóttina sem Guðmundur hvarf og væri því saklaus.
Þremur árum eftir atburðinn hefur Sævar samband við rannsóknarlögreglumann og segist verið í burtu og fyrst birst á heimili sínu daginn eftir mannshvarfið. Erla staðfestir svo lýsingu hans á samræðum þeirra þann dag. Þetta sé endanleg sönnun á sakleysi hans, segir Jón. Dómararnir hafi átt að taka tillit til þessa en ekki gert (bls. 179-180). En af hverju nefndi Sævar þetta fyrst þremur árum síðar? Er gefið að menn muni orðaskipti svo vel þremur árum eftir að þau áttu að eiga sér stað? Einnig má velta fyrir sér hvort Sævar og Erlu muni dagsetninguna rétt þremur árum síðar, kannski kom Sævar heim einhvern annan sunnudag. Gætu Erla og hann hafa haft samband sín á milli, kannski með aðstoð þriðja aðila, og samhæft framburð sinn?
En hvað ef Sævar var einangrun? Áður hefur komið fram að þrátt fyrir einangrun gátu sakborningar komið boðum sín á milli (sjá líka bls. 258 og 261). Kannski þótti dómurunum þetta svo augljós blekkingarleikur að þeim fannst ekki þessi virði að athuga málið. En enn og aftur verður að játa að Sævar gæti hafa ratast satt orð á munn í þessu máli, kannski áttu þessar samræður við Erlu sér stað þennan dag. Vandinn er sá að það var og er erfitt að sannreyna það, ef þetta eru fullnægjandi fjarvistarsannanir þá er ég karlinn í tunglinu.
Jón gerir mikið veður út af því að sími Sævars og Erlu hafi verið lokaður kvöldið örlagaríka og því útilokað að menn hefðu geta hringt í Albert Klan og beðið hann að koma og bera lík. Um leið viðurkennir hann að þess voru dæmi að lokaðir símar væru opnaðir ef eigendur þeirra lofuðu borgun. Með því að gefa sér ekki að síminn hafi verið lokaður hafi Sakadómarar ekki látið vafann koma sakborningum til góða (bls. 181).
En hvað nú ef Sakadómararnir og ákæruvaldið höfðu einhverjar þær upplýsingar undir höndum sem sýndu að síminn hefði hreint ekki verið lokaður? Gott og vel, kannski hefðu Sakadómarar átt að athuga betur bæði mögulega símalokun og sögu Sævars. Hvað sem því líður þá verður ekki séð að þær meintu fjarvista- og sakleysissannanir sem Jón tilgreinir séu óyggjandi, öðru nær.
6.Dylgjur um dómarana
Jón hraunar yfir dómara, bæði Saka- og Hæstaréttar með sínum venjulega sannanasnauða hætti og með beitingu ad hominem „raka“. Eins og áður segir ber hann lygar á Sakadómara án sannanna. Einnig að þeim hafi verið ljóst að málin stæðust alls ekki en viljað dæma sakborninga til að bjarga heiðri réttarkerfisins (bls. 181). Spurt er: Hvernig veit Jón þetta? Hefur hann lesið hugsanir dómarana? Auðvitað ekki, hann fremur ásetningavillu af gömlum vana. Og hafi þessir Sakadómarar verið þeir þrjótar sem Jón segir þá hafa verið þá má ætla að þeir hafi ekki haft mikinn áhuga á heiðri réttarkerfisins.
Hann gefur í skyn að dómarar hafi velt með ólögmætum hætti velt sönnunarbyrði á sakborninga þegar þeir staðhæfðu að játningar hefðu verið þvingaðar með ofbeldi (bls. 184). En hann skilur ekki að í þessu tilviki er lögreglan borin sökum, sakborningarnir ákærendur og þess vegna er sönnunarbyrðin þeirra. Þetta sýnir algeran misskilning á því hvaða sönnunarbyrði er.
Annað dæmi um misskilning hans á hugtakinu um sönnunarbyrði er þegar hann býsnast yfir því að Sakadómur hafi ekki tekið afturköllun játninga gilda á þeim forsendum að sakborningar hafi ekki haft haldbær rök fyrir henni. Hér sé sönnunarbyrði velt yfir á sakborninga, staðhæfingar þeirra um hótanir og harðræði væru haldbær rök, segir Jón í miklum hneykslunartóni (bls. 186). Hann athugar ekki að dómurinn tók mið af harðræðisrannsókninni sem verjandi Sævars tók gilda. Eins og málin horfðu við dómurunum á þessum tíma var ekki ástæða til að ætla að harðræði hafi verið beitt, þeir gátu ekki vitað að löng einangrunarvist yrði síðar réttilega flokkuð sem harðræði.
Nefnum annað dæmi um lagasnilld Jóns. Hann nefnir að rannsóknarlögreglumaður hafi verið spurður fyrir Sakadómi hvort hann teldi að aka hefði mátt á Volkswagen til Keflavíkur á tilskyldum tíma Geirfinnskvöldið. Lögreglumaðurinn svarar „já ég held að sé möguleiki“ (bls. 203). Jón býsnast yfir þessu og segir hér hafi dómarar brugðist þeirri skyldu sinni að láta vafann koma sakborningum til góða. En hvers vegna kröfðust verjendur ekki þess? Kannski voru þeir betur að sér í lögum en Jón og höfðu ástæður til að ætla að hér væri ekki um að ræða vafa af slíku tagi. Kannski voru Sakadómararnir of vissir um að hér væri enginn vafi vegna þess að verjendur nefndu þann möguleika ekki. Kannski var það glappaskot en Jón telur öruggt að um illan ásetning hafi verið að ræða: „Og það virðist hreinlega hafið yfir vafa að þeir hafi gert það vísvitandi“ (bls. 205). Hvernig veit hann þetta? Hvað segir meiðyrðalöggjöfin?
Jóni finnst gaman að ögra þeirri löggjöf, t.d. þegar hann segir að dómararnir hafi ákveðið fyrirfram hver niðurstaða málsins ætti að vera, þ.e. að sakborningar skyldu sakfelldir (bls. 210). Hvenær var þetta ákveðið, af hverjum og hvernig? Jón hefur engar sannanir fyrir þessu, þetta er ekkert annað en ómerkileg samsæriskenning.
Lítum á símhringingarmálið, Kristján Viðar játaði að hafa hringt í Geirfinn úr Hafnarbúðum kvöldið sem sá síðarnefndi hvarf (hann dró allar sínar játningar tilbaka). Jón gerir mikið úr því að afgreiðslustúlka Guðlaug að nafni hafi ekki kannast við að Kristján hafi hringt þetta kvöld. Jón Tveimur árum eftir atburðinn hafi hún verið fengin í sakbendingu, stillt var upp sjö mönnum, þ.á.m. Kristjáni Viðari, en hún kannaðist ekki við að neinn þeirra hefði hringt (bls. 206). Þarf ég að endurtaka að viðburða-minni getur skolast til á tveimur árum? Hún endurtók áratugum síðar þessa staðhæfingu í viðtali við endurupptekningarnefnd. Í því sambandi kemur Jón með eftirfarandi ódauðlega staðhæfingu: „Það liggur auðvitað í hlutarins eðli að Guðlaug hefur sagt nokkurn veginn það sama frammi fyrir Sakadómurum tæpum aldarfjórðungi fyrr“ (bls. 207). Bíddu nú við, getur viðburða-minni alls ekki skolast til á tæpum tuttuguogfimm árum? Jón heldur ótrauður áfram og segir að Sakadómur hafi bókað frásögn hennar öðruvísi, hún hafi sagt að Kristján Viðar hefði kannski komið við og hringt (bls. 207).
Jóni dettur náttúrulega ekki í hug að hún hafi einfaldlega sagt þetta við Sakadómara en verið búinn að gleyma því áratugum síðar. Hann tekur nú að hamast á bæði Saka- og Hæstaréttardómurunum og reynir að sína fram að þeir hafi gefið sér að annað hvort Sævar eða Kristján Viðar hafi hringt úr Hafnarbúðum. En það gæti ekki staðist, Guðlaug hefði komið með ótvíræðan vitnisburð um að svo væri ekki (bls. 208-209). Sem sagt viðburða-minni Guðlaugar er algerlega óbrigðult eða hvað? Raunar gerir Jón enn eina þekkingarvilluna hér, hann heldur ranglega að hægt sé að fullsanna staðhæfingar um staðreyndir. En svo er ekki, þær eru fallvaltar og verða aðeins staðfestar með talsverðum líkum. Þess vegna er tómt mál að tala um ótvíræðan vitnisburð.
Þess utan er spurning hvort treysta megi staðreynda-staðhæfingum Jóns, t.d. lýsingu hans á rannsóknar- og dómsferlinu í símhringingarmálinu. Maður sem gerir sekan um að gera æði margar rök- og þekkingarvillur væri vís með að bæta nokkrum við, t.d. þeirri að sjá það sem hann vill sjá, hagræða staðreyndum og túlka þær með villandi hætti. Í ofan á lag er þekkingu hans á lögfræði ábótavant, samanber að hann virðist ekki skilja hvað sönnunarbyrði er.
Jóni til afbötunar skal sagt að símhringingarmálið er allt hið furðulegasta. Hann er iðinn við dylgjukolann og ber það á Sakadómara að þeir hlytu að hafa vitað að tímatafla Schütz um akstur Keflavíkur stæðist ekki (bls. 205). Enn skortir sannanir, staðhæfingin snertir ekki jörðina. Hvernig í dauðanum þykist maðurinn vita þetta? Enn og aftur gerir Jón sig sekan um ásetningavillu. Í ljósi eðlilegs trausts á hinum virta Þjóðverja og þeirri staðreynd að verjendur höfðu ekkert við tímatöfluna að athuga var eðlilegt að dómararnir tækju hana gilda. Hafi Jón að einhverju leyti á réttu að standa kann hér að vera dæmi um keðju mistaka að ræða, ekki samsæri gegn sakborningum. Kannski enn eitt dæmið um hið íslenska sleifarlag.
Í ljós kemur að verjandi Sævars, Jón Oddsson, hrósaði rannsókninni, sagði hana nákvæma og sérlega vel á henni haldið (bls. 255). Í ljósi þessa er skiljanlegt að dómararnir hafi talið rannsóknina réttmæta. Og hvernig bregst Jón Daníelsson við? Auðvitað með því að beita ad hominem rökum, nafna hans Oddssyni er borið á brýn að hann hafi látið löngun til að koma sér vel við dómara og rannsóknaraðila haft þau áhrif á hann að hann hafi sagt þetta og ýmislegt annað. Hann hafi rakið furðulegar kjaftasögur en við fáum ekki að vita hvaða sögur það voru (bls. 255). Gætu þessi ummæli um lögmanninn talist ærðumeiðandi? Er ekki lang eðlilegast að gera ráð fyrir að Jón lögmaður hafi einfaldlega verið einlægur og talið rannsóknina vel gerða þótt honum kunni að hafa skjátlast. Annars staðar í bókinni segir að lögreglan hafi blekkt verjendur og dómara, var ekki lögmaðurinn bara blekktur? Jón virðist hafa gleymt þessu með blekkingarnar.
Enn og aftur sýnir Jón vanþekkingu á eðli þekkingar, hann skilur ekki að þekkingarleysi og mismunandi jafnréttháar túlkanir geta valdið miklu um skoðanir manna. Hann virðist halda að annarlega sjónarmið hljóti að valda því að menn komist að annarri niðurstöðu en þeirri sem hann telur rétta. Þannig hugsa samsæriskenningarsmiðir og ásetningarvillumenn einlægt.
En áfram með smjörið og dómarana. Jón telur að Hæstiréttur hafi gerst brotlegur við lögin þegar hann tók ekki tillit til staðhæfinga Sævars um sjónvarpsgláp sitt kvöldið sem Geirfinnur hvarf (bls. 270). En eins og áður eru þessar staðhæfingar Sævars svo furðulegar að beinast lá við að telja þær lið í blekkingarleik. Ef lögregla og dómarar eiga að taka tillit til allra yfirlýsinga og krafna fanga myndu þeir ekki gera annað. Það er álitamál hvort dómararnir hefðu átt að taka tillit til staðhæfingarinnar um sjónvarpsgláp, því verður ekki séð að þeir hafi brotið lögin.
Samt segir Jón að þeir hafi skapað sér refsiábyrgð „..í þeim göfuga tilgangi að vernda orðspor réttarkerfisins“ (bls 270). Enn og aftur gerist Jón hugsanalesari. Hvaða heimildir hefur hann fyrir þessari staðhæfingu? Auðvitað engar fremur en venjulega! Eins og þetta sé ekki nóg segir Jón að dómurunum hlýtur að hafa verið ljós að meginreglur sakamálaréttarfars hafi verið sniðgegnar (bls. 271). Með þessu móti hafi dómarar skapað sér refsiábyrgð (bls. 273). Eina ferðina enn setur Jón fram staðhæfingar án sannana, hann þykist enn og aftur geta lesið hugsanir annarra. Þess utan er eins og áður segir engan veginn ljóst að þessar meginreglur hafi verið sniðgengnar. Til að kóróna allt saman viðurkennir Jón að erfitt sé að sanna meint lögbrot dómara (bls. 278). Eins og lesandinn hlýtur að hafa séð tekst Jóni ekki að sýna fram á að svo sé, ummæli hans eru sennilega ærumeiðandi.
Vissulega var meinbugur á rannsókn málsins en dómararnir gátu ekki vitað það enda bendir margt til þess að þeir hafi verið blekktir. Ég er kannski að gera Jóni upp skoðanir en mér sýnist hann trúa því að samsærisfélag hafi spannað lögreglu, Sakadóm og Hæstarétt (t.d. bls. 285-286).
Í fyrsta lagi hefur hann staðhæft að lögregla hafi falið gögn fyrir dómurum sem þýðir að ekki getur verið um mikið samkrull að ræða, hvað þá samsæri.
Í öðru lagi eru meiri líkur á að samsæri takist, því færri sem taka þátt, t.d. bara einn ráðherra og tvær löggur. Því fleiri sem taka þátt því meiri líkur eru á að einhver „kjafti“. En enginn meintra samsærismanna hefur kjaftað, kannski vegna þess að samsærið er bara hugarburður.
Í þriðja lagi er Hæstiréttur í litlum tengslum við lögreglu og Sakadóm, eins og Jón raunar viðurkennir. Sennilegt er að að skapist liðsandi (fr esprit de corps) í stofnun þar sem menn vinna saman sem teymi og eru að miklu leyti á sama vinnustað dag hvern, það gildir um lögreglu. Vel má vera að þar á bæ sé samtryggingarfélag og það hafi bitnað á sakborningum en ósennilegt að það spanni stofnanir hvers starfsmenn eru í litlum tengslum við lögregluna, þ.á.m. Hæstarétt. Í Hæstarétti vinna dómarar lítið saman, sumir vinna aðallega heima, þeir dæma aldrei allir í sama máli.
Því má ætla að þar ríki lítill liðsandi, þar af leiðandi eru litlar líkur á samtryggingarfélagi. Pólitíkusar gætu hugsanlega hafa haft óviðurkvæmileg áhrif á rannsóknarlögreglu og Sakadóm, miklu síður á Hæstarétt (sumt sem Jón segir um Sakadómarana gæti bent til þess að þeir hafi gert rangt í sumum tilvikum, bls. 265 og 267). Hæstiréttur hafði þegar um 1980 á sínum ferli ógilt sex lög sem Alþingi hafði sett, danski Hæstiréttur engin lög danska þingsins. Það sýnir að rétturinn var ekki vasanum á þingmönnum.
Auk þess eru Hæstaréttardómarar komnir eins langt á framabraut og þeim er unnt, því þýðir ekki fyrir stjórnmálamenn að „múta“ þeim með loforðum um stöðuhækkun. Í ofan á lag nutu þeir mikils efnahagslegs öryggis þar eð þeir héldu launum óskertum sem eftirlaunaþegar. Þess utan voru þeir Hæstaréttardómarar sem dæmdu í málinu 1980 nokkuð rosknir, komnir á þann aldur þar sem menn breytast lítið, samanber það sem segir um Schütz. Enginn þeirra hafði svo vitað sé brotið lögin og því ósennilegt að þeir hafi fundið upp á þeim ósóma komnir á þennan aldur. Flestir þeirra voru mjög vel gefnir menn, það klárir að þeir hafa tæpast tekið áhættuna á lagabroti sem gæti þýtt fangelsun ofl.
Eins og málið birtist Hæstarétti veturinn 1979-1980 voru fyrirliggjandi játningar Erlu (í Guðmundarmálinu), Guðjóns og Alberts, þótt Sævar og fleiri hefðu dregið sína játningu tilbaka fyrr. En það er eins algengt og kvef að sakborningar drægi játningar tilbaka, væri slíkt sönnun sakleysis í öllum tilvikum væri heldur fámennt í fangelsum (munið Orderud-málið norska). Dómararnir voru ekki nauðbeygðir til að trúa afturköllununum, eðlilegt var að álykta sem svo að með þessu væru sakborningar að reyna að bjarga eigin skinni. Hafði ekki Sævar byrjað við yfirheyrslu Sakadómara á því að játa sekt sína í Guðmundarmálinu? Samkvæmt rannsókninni voru ýmis verksummerki og vitni í báðum málunum (t.d. Dómur 1980, bls. 5, 12, 110, 118-119, 300-348).
Dómararnir höfðu ekki ástæðu til að véfengja lögreglurannsóknanna enda hafði verjandi Sævars hrósað henni. Og hafði ekki virtur, þýskur lögreglumaður verið íslensku lögreglunni til aðstoðar? Enginn hafði borið brigður á aksturstímatöfluna og engin nefnt ófærð í Hafnarfirði.
Auk heldur hafði verjandi Sævars hrósað harðræðisrannsóknunum, því höfðu dómararnar höfðu enga ástæðu til að efast um að þær hefðu verið rétt framkvæmdar.
Berum þetta saman við stöðu eðlisfræðinnar á nítjándu öld: Flest sönnunargögn bentu til þess að ljósið væri bylgjufyrirbæri, eðlisfræðingarnir gátu ekki séð fram í tímann, séð að Albert Einstein myndi hressa upp á eindakenninguna og sameina hana bylgjukenningunni. Með líkum hætti bentu flest sönnunargögn árið 1980 til sektar. Dómarnir gátu ekki vitað að þeir höfðu (vel mögulega) verið blekktir af lögreglu. Þeir gátu ekki séð fram í tímann og gátu því ekki séð fyrir að fram kæmu vel rökstuddar kenningar um að viðburða-minni sé brigðult og að einangrunarvist gæti brotið vilja manna niður. Þeir gátu heldur ekki vitað að ýmislegt mundi koma fram sem benti til þess að lögreglurannsóknin hefði verið hreinræktað klúður. Af þessu má sjá að engin ástæða er til að ætla að dómarnir hafi brotið lög, þess meiri að Jón brjóti gegn meiðyrðalöggjöfinni.
Víkjum aftur að vísindum, ýmsir vísindaheimspekingar (Popper hreint ekki) telja að svonefnd „ályktun að bestu skýringu“ (e. inference to the best explanation) sé ein meginaðferð vísindannan (Harman 1965, bls. 88-95). Slík ályktun byggir á því að menn leita að bestu skýringu á tilteknu fyrirbæri, í ljósi fyrirliggjandi gagna. En slíkar ályktanir eru fallvaltar, kannski er veila í fyrirliggjandi gögnum, kannski hafa þeir sem ályktunina draga ekki aðgang að öllum gögnum sem máli skipta. Þannig má vel vera að dómararnir hafi komist að sinni niðurstöðu með því að beita ályktun að bestu skýringu en dómurinn hafi samt verið rangur, dómararnir ekki þekkt öll gögn sem máli skiptu.
Auk þess er vafasamt að tala um „ályktun að bestu skýringu“, betra að tala um „ályktun að nothæfri skýringu“. Í ljósi þess sem sagt hefur verið um fjölbrigði kenninga hlýtur fleiri en ein skýring að vera nothæf. Líklegt má þykja að einhver möguleg nothæf skýring hafi bent til þess að rétt væri að sýkna sakborninga. Til dæmis ef dómararnir hefðu sýknað þá á þeim forsendum að ekkert fannst líkið, reyndar mildaði Hæstiréttur dóminn á þeim forsendum. Það er reyndar alls ekki gefið að líksskortur hljóti að leiða til sýknunnar, nýlega var maður dæmdur í Danmörku fyrir morð á Henrik nokkrum Haugberg Madsen þótt ekkert fyndist líkið og engar sannanir væru fyrir því að ódæði hefði verið framið (mönnum er svo frjálst að kalla þenna danska dóm „réttarmorð“) („Drabsag uden lig“). Það er matsatriði hve mikið „líkskortur“ vegur í morðmáli, matsatriði eru ekki til í heimi Jóns.
Hæstaréttardómararnir í G&G málinu voru kannski of auðtrúa, of trúaðir á vitnisburð lögreglu og jafnvel niðurstöður Sakadóms. Ef til vill athuguðu þeir ekki þann möguleika að verjendur sakborninga hefðu einfaldlega staðið sig illa (um verjendur, sjá m.a. bls. 252-254). Dómurunum í G&G málinu kann að hafa skjátlast en það varðar ekki við lög að gera mistök.
En í heimi samsæriskenningasmiða eru hvorki til álitamál né túlkunaratrið, ráðamenn ávallt alvitrir og þátttakendur í djöfullegu samsæri gegn sannleikanum. Handhafi hans heitir Jón Daníelsson.
Ekki þýðir að koma með yfirlýsingar um að ég sé bara að verja föður minn, Hæstaréttardómarann, það eru ad hominem „rök“. Annað hvort eru staðhæfingar mínar í samræmi við staðreyndir eður ei, faðerni mitt hefur engin áhrif á sannleiksgildi þeirra.
Sannleikshafanum Jóni finnst ekki nóg að níða skóinn af látnum mönnum heldur ræðst hann á endurupptökunefnd og Hæstaréttardómarana sem dæmdu í endurupptökumálinu í fyrra. Þeim láðist að fara í einu og öllu eftir forskrift alvitra Jóns og teljast því vera í bræðralagi og samtryggingarfélagi með löngu dauðum dómurum. Fyrir þessu hefur hann engar sannanir nema hann geti lesið hugsanir. Auk þessa endurtekur Jón ásakanir sínar um lögbrot í G&G málinu og reynir ekki einu sinni að rökstyðja þær (Jón 2018).
Honum dettur ekki í hug að Hæstaréttardómararnir í endurupptökumálinu kunni einfaldlega að hafa haft góða og gildi ástæðu til að ætla að enginn flugufótur sé fyrir ásökunum um lögbrot dómarana 1977 og 1980. Þeir eru kannski ögn lögfróðari en Jón.
Hvað sem því líður þá biður Jón um að láta afgreiða sín skrif sem lið í samsæri, einhver kann að saka hann um að vera tæki í höndum falinna afla og tauta „ekki ertu einn í ráðum, karla, karl“. Einnig kunna menn að beita ad hominem „rökum“ gegn honum, einhver kann að segja að annarlegar hvatir ráði skrifum hans. Enn skal spurt: Ef samsæri ráða svona miklu um mikilvæga þætti í G&G málinu, af hverju skyldi þá hans þáttur vera síður samsærisdrifinn? En auðvitað eru ekki til neinar sannanir fyrir því að skrif hans séu af samsæristoga spunnar, ég hef litla trú á að svo sé.
Vandinn er sá að vopnin snúast í höndum Jóns, ásaki hann aðra fyrir samsæri án sannana og beiti ad hominem „rökum“ fær hann slíkt hið sama í hausinn.
8.Lokaorð.
Velta má því fyrir sér hvers vegna bókin kom ekki út hjá virtu forlagi heldur einhverju sem virðist vera einkaforlag Jóns. Það þótt talsverður áhugi sé á málinu og bókin því líkleg til að seljast sæmilega vel. Kann skýringin að vera sú að handritið hafi ekki þolað ritrýningu alvöruforlags? Ekkert bendir til þess að Jón hafi leitað aðstoðar lögfróðra manna við samningu þessarar bókar enda eftirtekjan eftir því.
Og hver er hann að telja sig geta kveðið á um mælingar á aksturshraða til Keflavíkur árið 1974? Þarf ekki sérfróða menn til þess arna? Eina fólkið sem hann vitnar í eru sakborningarnir og hann kokgleypir flestu sem þeir segja.
Verri eru þó ad hominem „rökin“, ásetningarvillurnar, samsæriskenningarnar og aðrar rök- og þekkingarvillur. Bestur er Jón þegar hann ræðir vanþekkingu manna á einangrunavist, líka þegar hann bendir á fúsk lögreglu enda styður hann þær staðhæfingar með tilvísun til heimilda. Einnig eflir hann þá skoðun rökum að sumir rannsóknarlögreglumenn hafi ætlað að sanna sekt sakborninga, hvað sem það kostaði.
Verstar eru dylgjur hans, hann má þakka fyrir að bók hans vakti litla athygli, annars hefði hann vel mögulega fengið meiðyrðamál í hausinn. Hann hefur engar haldbærar sannanir fyrir því að dómararnir og Karl Schütz hafi framið lögbrot. Fremur hið gagnstæða, þrátt fyrir að hafa lesið hillumetra af málskjölum í G&G málinu finnur hann engar sannanir. Hann hefur velt hverjum steini, ekkert fundið og þá gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn.
Líkja má bók hans við Pótemkintjöld, á ytra borði virðist hann beita reynslurökum en nánari aðgæsla sýnir að hann hunsar þau þegar hann „rökstyður“ sínar megintilgátur. Hann slær við og við varnagla sem gefur boðskap hans yfirvegunarblæ en sá blær er bara hluti af Pótemkintjöldunum. Bak við þau leynist hreinræktaður áróður.
Hvað um það, óreiðukenningin um G&G málið er mun skárri en samsæris/ásetningarkenningar Jóns enda í samræmi við vísindalega hugsun.
Lítum á hana: Fyrsti hlekkurinn í keðjunni kann að hafa verið setning laga sem gerði kleift að dæma sakborninga í langar einangrunarvistir. Þeir sem dæmdu þá í svo langar vistir vissu ekki að hún gæti brotið menn niður, þvert á móti trúðu þeir því að einangrunarvist myndi gera að verkum að þeir segðu sannleikann. Óætluð afleiðing þessa hafi verið að sakborningar urðu svo meyrir að þeir játuðu á sig hvaðeina, mögulega sem lið í hópefli þar sem meðvitaður ásetningur yfirheyrenda kom lítið við sögu. Einnig má mögulega finna samsærisþátt, lögreglan kann vísvitandi að hafa blekkt verjendur og dómara. Enn einn hlekkur i keðjunni var vanhæfni lögreglu, við kann að bætast möguleg slæleg framstaða verjenda og hugsanlegir ómeðvitaðir fordómar í garð sakborninga. Næst síðasti hlekkurinn er sá að Hæstiréttur hafði ekki nægar upplýsingar um málið en gat ekki vitað að svo væri, m.a. vegna blekkinga. Lokahlekkurinn er reynsluleysi bæði lögreglumanna og dómara að fást við mál af þessu tagi. „Þökk“ sé öllum þessum hlekkjum í keðjunni voru gerð mistök við dómsuppkvaðningu. Nema svo ólíklega vilji til að sakborningar (alla vega sumir þeirra ) hafi hreinlega verið sekir.
Rökleysis-bygging Jóns Daníelssonar hrynur með braki og brestum.
Heimildir:
Dómur 1980 http://www.rikissaksoknari.is/media/arsskyrslur/Domur-i-mali-Haestrettar-nr.-214.1978.pdf Sótt 5/10 2018.
„Drabsag uden lig“. https://www.fyens.dk/indland/Drabssag-uden-lig-To-maend-doemt-for-drab-paa-Haugberg-Madsen/artikel/2469851. Fyns.dk. Sótt 9/7 2019.
Gísli Guðjónssson (2011): „Flestir geta játað falskt. Viðtal við Gísla Guðjónsson réttarsálfræðing“, http://www.laeknabladid.is/tolublod/2011/11/nr/4374 Sótt 5/10 2018.
Harman, Gilbert H. (1965): «The Inference to the Best Explanation», Philosophical Review, Vol. 74, No. 1, janúar, bls. 88-95.
Jón Daníelsson (2016): Sá sem flýr undan dýri. Reykjavík: Mýrún.
Jón Daníelsson (2018): „Aumingjalegasta hænufet sögunnar“, Stundin 1 október, https://stundin.is/grein/7536/ Sótt 8/7 2019
Loftus, Elizabeth (1997): „Creating False Memories“, Scientific American, október, 277 (3), bls. 70-75).
Mannamál (2017). Sjónvarpsviðtal Sigmundar Ernis Rúnarssonar við Einar Bollason á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.
Orderud saken. https://no.wikipedia.org/wiki/Orderud-saken. Sótt 9/7 2019.
Athugasemdir