Jólaprósar
Ég ritdæmdi nýlega tvær jóla-ljóðabækur, nú hyggst ég líta á tvær prósabækur frá árinu. Fyrst
Og svo tjöllum við okkur í rallið, bók Guðmundar Andra um föður sinn Thor. Svo fornritið nýja, Geirmundar sögu heljarskinns eftir Bergsvein Birgisson. Bækur um tvo stórbrotna menn.
Stílkonfekt II
Einhverju sinni skrifaði ég blogg um Sæmd, skáldssögu Guðmundar Andra. Kallaði hana „stílkonfekt“. Nýi konfektkassinn er jafnvel enn betri, bókin um Thor er einhver best skrifaða bók sem ég hef lesið, höfundurinn er kannski besti stílisti Íslands í dag.
Sá hefur löngum verið ljóður á ráði Guðmundar Andra að honum lætur ekki ýkja vel að skapa persónur. Sögurnar vilja vera of stuttar, svo stuttar að persónurnar ná ekki að lifna verulega vel. En með Thor skapar hann magnaða persónu, persónu sem var goðsögn í lifanda lífi og skóp sig að miklu leyti sjálfa. Guðmundur Andri lýkur sköpunarverkinu því. Sonurinn verður faðir föður síns.
Hann minnist föður síns með hlýju, virðingu og þakklæti en er óhræddur við að benda á galla hans. Thor var stórbrotinn í kostum sínum og göllum.
„reika svipir fornaldar“
Bergsveinn Birgisson hefur getið sér gott orð sem skáldsagnahöfundur, Svar við bréfi Helgu
er afbragðsskáldsaga. Nýlega skrifaði hann skáldlegt fræðirit á norsku um Geirmund Heljarskinn og hét það Svarti víkingurinn. Þar leiðir hann getum að því að Geirmundur hafi verið valdamestur landnámsmanna og ástundað eins konar útrás.
Samræmd stafsetning forn. Ljóðrænt orðasamband. Geirmundar saga heljarskinn
er skrifuð með þeirri stafsetningu, á fornsagnamáli. Bókin hefur ytra borð bóka í bókaflokknum Íslenzk fornrit, með löngum formála þar sem síður er merktar rómverskum bókstöfum, all mikið um neðanmálsgreinar o.s.frv. En hér er verið að fjalla um nýlega skáldað fornrit og koma ýmsar skáldaðar persónur við sögu þess. Ein þeirra, Svanur Kjerúlf, reynir að fá vélritaða útgáfu Geirmundar sögu birta í fornritasafninu en hefur ekki erindi sem erfiði. Hann getur ekki sannað að hann hafi vélritað eftir fornu handriti.
Bergsveinn hefði kannski mátt vinna aðeins betur úr þessum persónum, gefa þeim líf og lengri sögu. Átti Svanur erfiða æsku, hvernig skapi var hann farinn? Sjálf sagan um Geirmund er læsileg og velgerð stæling á fornsögu. Lokaorð hins skáldaða skrifara í handriti með eyður eru „Guð blez…land“ (bls 185). Samanber orð Geirs Haarde, „Guð blessi Ísland“. Gefið er í skyn að útrásarbrölt Geirmundar hafi haft slæm áhrif á efnahag landsins. Eins og allar góðar skáldssögur fjallar þessi um samtíma sinn.
Lokaorð
Þá er ekkert eftir annað en að hvetja lesendur til að lesa þessar ágætu bækur, hafi þeir ekki þegar gert það. Þeim sem óvanir eru að lesa texta með samræmdri stafsetningu fornri skal bent á að besta leiðin til skilnings er að lesa hann upphátt fyrir sig sjálfan. Eða bara tjalla sér í fornsagnarallið.
Athugasemdir