Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ísland ónýtt eftir allt saman?

 Einu sinni var norskur starfsbróðir minn spurður hvaða stjórnmálaskoðanir ég hefði.

Hann svaraði „Stefán er contraire-isti, andhyggjumaður, á móti sérhverri vinsælli skoðun, ávallt á móti meirihlutanum“. Mér hefur löngum  fundist „hype“-ið hæpið og því forðast tískuskoðanir. Það var ein af ástæðum þess að ég gagnrýndi útrásina á þeim árum þegar yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga var henni hlynntur. Á síðustu árum hefur verið lenska að fordæma íslenskt samfélag, lýsa því eins og helvíti á jörð. Þeir sem lengst ganga í fordæmingu fá mest klappið. En á útrásarárunum var ákafast  klappað fyrir þeim sem gengu lengst í að lofsyngja útrásina. Margir úr lofsöngskór  útrásarinnar eru nú í fordæmingarklappliðinu. Þessari fordæmingu hef ég andæft, m.a. í færsluflokknum um ónýta Ísland í fyrra. Um leið hef ég gagnrýnt ríkra-ríkisstjórnina og hennar attaníossa af fyllstu hörku.

Panamaskjöl o.fl.

En á síðustu mánuðum hafa runnið á mig tvær grímur, Panamaskjöl, Borgunarmálið  og fleira efla mjög þá tilgátu að eitthvað mikið sé bogið við íslenskt samfélag. Ég nefndi í færsluflokknum að samkvæmt opinberum hagtölum sé tekjum álíka jafn skipt á Íslandi og í Noregi. Nýjar tölur frá 2013 benda í sömu átt. En hvað er að marka þær? Um 600 Íslendingar eru í Panamaskjölunum, bara 200 Norðmenn. Þetta og margt fleiri gæti bent til þess að tekjuskipting sé ójafnari á Íslandi en í Noregi, að íslenskir auðmenn skjóti stærri hluta tekna sinna og eigna undan en þeir norsku. Þó ber að hafa í huga að tekjudreifing hefur orðið mun ójafnari víðast hvar heiminum á undanförnum áratugum, meira að segja í Noregi og Svíþjóð. Nú tekur ríkasta norska prósentið til sín næstum tvöfalt stærri hluta af þjóðarkökunni en það gerði árið 1980. 

Kvótar og skattar

Norðmenn voru reyndar að verða sér út um kvótakerfi í íslenskum anda, verði þeim að góðu! Í færsluflokknum sagði ég að kvótakerfið hefði þrátt fyrir allt vissa kosti, þrátt fyrir gjafakvóta-ósómann. En ég athugaði ekki að vel má koma á uppboðskerfi fyrir kvóta sem myndi skila auðlindarentunni til almennings í mun ríkari mæli en í dag og varðveita kosti kerfisins. Slíkt uppboðskerfi hefur sjálfsagt sína galla líka en það getur vart verið verra en gjafakvótakerfið.  Í Fréttatímanum segir að tæplega 100 manns hirði árlega 33 milljarða í auðlindarentu. Þetta gerir þennan fámenna hóp gífurlega valdamikinn, Gunnar Smári Egilsson segir að þeir gætu jafnvel keypt íslenskt efnahagslíf í heild sinni (hafa þeir ekki keypt tvo stjórnmálaflokka?). Batnandi manni er best að lifa og skrifa, Gunnar Smári hefur skrifað nokkra prýðilega pistla undanfarið í Fréttatímann. Hann setur saman  athyglisverða úttekt á skattsvika-„hefð“ íslenskra stórbokka og byggir m.a.  á rannsóknum prófessors Þórólfs Matthíassonar og Jóhannesar Karlssonar. Þeir hafa skrifað mjög forvitnilega  grein um íslenska skattsvikasögu, nánar um hana  síðar.  Í færsluflokknum  nefndi ég tölur frá Hagstofunni um skattbyrði Íslandi en samkvæmt þeim er hún minni en nágrannalöndum. Mér yfirsást að vel má telja lífeyrissjóðsgreiðslur skatta. Séu þær taldar skattar þá er skattbyrðin íslenska engu minni en á hinum Norðurlöndunum. Og hverjir ráðskast með lífeyrissjóðsgreiðslurnar og hvernig?

Orku-vistarband

Í færsluflokknum velti ég því fyrir mér hvort raforkusamningar við álfyrirtæki kynni að hafa  verið ill nauðsyn, komst reyndar ekki að neinni niðurstöðu. En ég efast stórlega um það  í dag, flest bendir til að þessi fyrirtæki borgi alltof lágt verð fyrir raforkuna. Raforkuverð til álfyrirtækja er sagt 34% lægra en meðaltalið í öðrum löndum. Kolbeinn Óttarsson Proppé ræðir   Kárahnjúkavirkjun og samningana  við Alcoa um álver á Reyðarfirði.  Þriðjungur íslenska rafmagnsins fari í þetta álver og það á gjafaverði. Kolbeini reiknast svo til að þessi uppákoma muni  kosta  Íslendinga 120 milljarða á þeim fjörutíu árum sem samningar verði í gildi. Ritstjórn Kjarnans veltir því fyrir sér hve mikið slíkir samningar hafi kostað íslenskan almenning.  Og hvað um meintar bókhaldsbrellur álfyrirtækjanna?

„Ég stillti mína strengi gegn stormum og hríð…“ orti skáldið frá Fagraskógi Ég nefndi möguleikann á lagningu sæstrengja til Bretlands, stilla mætti sæstrengi almenningi til hagsbótar. En ég athugaði ekki að álfyrirtækin hafa hag af að berjast gegn slíku. Þau muni tapa á slíkum streng því hann muni leiða til meiri eftirspurnar eftir rafmagni og því hærra verði til fyrirtækjanna. Standa þau á bak við áróðurinn gegn sæstrengjum? Getur verið að við séum í orku-vistarbandi í „boði“ álfyrirtækja? Orku-vistarbandið hindrar lagningu sæstrengs, rétt eins og gamla vistarbandið hindrað framgang sjávarútvegsins . Hvað segja hlutlausir aðilar um málið, borgar sig að leggja slíka strengi? Norðmenn hafa lagt sæstreng til Hollands.

Allt ónýtt? Arðræningjabæli?

Þýðir þetta að ég sé sammála öllu ónýta-Íslands talinu? Nei, ef allt væri satt sem sagt er um mergsog á íslenskum almenningi þá væri hann dauður úr hungri fyrir löngu. Sumt gengur vel á Íslandi, staðtölur sem ég nefndi í færsluflokknum sýna m.a. að farsæld manna er talsverð, lítill skortur sé á lífsnauðsynjum o.s.frv. En ef bara helmingurinn af því sem sagt er um arðrán og  auðvaldsþróun á Íslandi er sannur þá er landið orðið að arðræningjabæli.

Lokaorð

Á útrásarárunum skóp  ég nýyrðið „útrásarauðvald“ og varaði við aukinni misskiptingu auðs og tekna. Erfitt er að verjast þeirri tilhugsun að Ísland sé orðið spillt auðvaldsríki. Gegn því ber að berjast með ráðum  og dáð. En án þess að taka heilann úr sambandi og syngja  í einhverjum  eftirhruns-móðursjúklinga-kór.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni