Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Ísbjarnarblús, rokkklassík

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég færslu um pólitíska gagnrýni í verkum  Bubba og Megasarog var heldur neikvæður í garð þess fyrrnefnda.

 Aðalástæðan var sú að ég var fúll út í Bubba vegna samskipta hans við þá Bónusfeðga.

Bubbi sendi mér mjög elskuleg skilaboð í kommentakerfinu, tók gagnrýninni með stillingu.

Alltént er mér nú runnin reiðin vegna Baugstengsla hans og get hlustað á verk hans opnum huga.

Af einhverjum ástæðum hef ég aldrei hlustað vel á Ísbjarnarblúsinn, það þótt ég hefði sjálfur unnið í slorinu hjá Ísbirninum sumar eitt fyrir hartnær fjörutíu árum.

En ég festi kaup á disknum nýlega og hef legið yfir honum.

Og hrífst mjög, þetta er kannski besta rokkplata íslenskrar tónlistarsögu.

Hún fjallar mestanpart um hráan veruleika sjómennsku og fiskvinnslu.

Enda er rokkið hressilega hrátt, textar skemmtilega hráir og röddin hrá, heimur plötunnar allur fallega hrár.

Lagið   Ísbjarnarblús er ekta rokkbúggí, í Hrognin eru að koma má finna seiðandi rokk-hrynjandi og a.m.k. eina gullvæga setingu:

„Stæltur er skrokkurinn, djöfull sljór er hugurinn“.

En Bubbi kann fleira en að rokka og syngja um sjómennsku, hann syngur um mr. Dylan, Agnes og Friðrik, Gretti og Glám (síðastnefndi textinn er eftir Þórarinn Eldjárn).

Mr. Dylan er skemmtilega paródía á lögum og textum Dylans en um leið undirstrikar það meginboðskap Bubba sjálfs um að ríkisbubbar ríki yfir lýðnum.

Ekki má gleyma Stál og hnífur,  lagi  í þjóðlagastíl, svo lítið í ætt við amerísku mótmælasöngvana frá sjöunda tugnum:

„Stál og hnífur er merki mitt, merki farandverkamanna…“

 

Er það ekki einmitt það sem við þurfum nú á dögum sægreifa og ríkra-ríkisstjórnar? Harðsoðna mótmælasöngva.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni