Íran og sagan
Sandi orpnar eru hallir Eranshar, musterin rústir einar.
Engir eldar loga lengur Ahúra-Masda til dýrðar…
Svona mætti hefja tregaljóð um eitt hinna mörgu írönsku stórvelda sem risið hafa og hnigið í aldanna rás. Stórveldi stórkonunganna af Sassanídaætt sem stóð frá 226 e.kr. til 651 e.kr.
Vesturmiðjuð sögukennsla veldur því að vestrænir menn skilja ekki stjórn Írans. Sagan er lykill að skilningi á pólitík samtímans, það gildir ekki síst um pólitíkina í þessu eldforna landi.
Fyrstu stórveldin
Þegar fyrir fimm þúsund árum var risið menningarsamfélag í Suður-Íran hjá þjóð sem kallast «Elamítar». Þeir voru mæltir á tungu sem var alls óskylt öðrum þessum tungumálum. Þeir urðu sér út ritmál ögn seinna en Súmerar, súmerska er elsta ritmál sem vitað er um. Hið egypska virðist aðeins yngra. Elam var á tímabili stórveldi og var ritmál þeirra enn notað um 300 f.kr, var þá orðið a.m.k. 2500 ára gamalt! Hin alvitra wikipedia segir að á elamísku hafi «sunki-r» þýtt «konungur», «sunki-k» «ég, konungurinn» og «sunki-me» «konungdæmi».
Um 1000 f.kr, flytja hirðingjar sem töluðu írönsk mál til þess svæðis sem nú heitir eftir tungumálum þeirra. Írönsku málin eru af sama stofni og flest Evrópumál, auk ýmissa mála á Indlandsskaga, indóevrópskt mál. Hvað um það, þjóð Meda, sem mælt var á íranskt mál, byggði þar sem nú er Kúrdistan og telja sumir fræðimenn að tungumál þeirra hafi verið frum-kúrdíska. Medía varð stórveldi undir forystu Hvakhshatrhra (625-685 f.kr.) (þekktur undir grísku útgáfu nafnsins Kyaxares). En svo gerist að héraðshöfðingi í fylkinu Pars (Persíu), Korvash (Kyros, Cyros) ( 576-529 f.kr.) gerir uppreisn gegn Medajöfri og leggur Medíu undir sig. Skipti nú engum togum að hann lagði öll meginríki Miðausturlanda undir sig og lagði grundvöll að fyrsta heimsveldi sögunnar. Persaveldi undir stjórn stórkonunga af Akemenídaætt. Ekki tókst Persum þó að leggja Grikkland undir sig, Alexander mikli lagði Persaveldi að velli á árunum 334-329 f.kr.
Frá Seleukíu til Sassanída
Eftir dauða hans féllu Íran og fleiri lönd í hlut Selevkosar, hershöfðingja hans. Ríki Selevkosar og afkomenda hans nefndist «Selevkía» og réði grísk-makedónsk yfirstétt ríkjum, Íranir urðu fyrir miklum grískum menningaráhrifum. En Selevkíu hnignaði fljótlega og reis þá enn eitt stórveldið í Íran, stórveldi Parþa en mál þeirra var af írönskum stofni. Arshak (Arsaces) stórkonungur tók við völdum árið 247 f.kr. og nefndist konungsættin parþíska «arsakídar». Ekki er mikið vitað um Parþa sem skrifuðu lítið, samfélagið líkast lénsveldi miðalda. Þó er ljóst að grísk menning og tungu léku enn mikið hlutverk í Parþíu, t.d. settu Parþar upp gríska harmleiki. Þeir voru feiknamiklir stríðsmenn og höfðu í fullu tré við Rómverja. Urðu Rómverjar að viðurkenna Parþíu sem jafnoka sinn og skiptust ríkin á sendiherrum. En sagan vill endurtaka sig, héraðshöfðingi í Pars gerði uppreisn gegn Pörþum og lagði ríki þeirra undir sig árið 226 e.kr. Hann kallaði sig «Ardashir» og mun það vera útgáfa af nafni eins af stórkonungum Akemenida, Artaxerxes (þetta er grísk útgáfa af nafninu). Ardashir virðist hafa viljað endurreisa hið forna Persaveldi, draga úr grískum menningaráhrifum og efla veldi Zaraþústratrúarinnar. Ríkið nýja nefndist «Eranshar», «Íransveldi» og konungsættin «Sassanídar». Það mun hafa verið mun miðstýrðara en Parþaveldi. Zaraþústratrúin varð ríkistrú, töluvert var um trúarofsóknir, rétt eins og í hinu hákristilega Býsansríki.
Íranskir spámenn og trúarbrögð
Samkvæmt kennisetningum íranska spámannsins Zaraþústra er skarpur greinarmunur á hinu góða og hinu illa. Guð nefnist Ahúra-Masda og berst við hinn illa djöful Ahriman. Spámaður þessi mun hafa verið á dögum um 600 f.kr. og er spekimál hans að finna í Avestaritunum. Zaraþústratrúin var þegar orðin öflug á dögum Akemenida, var þá þegar orðinn hálfopinber trúarbrögð. Hún er ein margra trúarbragða sem rætur eiga í Íran. Parþar voru aðallega Míþrasrúar, Míþra var forn sólguð og tengdist launhelgum. Trúin á hann hafði áhrif á kristindóminn. Á þriðju öld eftir Krist reis upp enn einn íranskur spámaður, Mani (216-274 e.kr) að nafni. Við hann er Manikeisminn kenndur, trú sem einkennist af jafnvel enn róttækari tvíhyggju en Zaraþústratrúin. Mani vildi sameina hið besta úr helstu trúarbrögðum samtímans. Þetta þoldi hinn Zaraþústrasinnaði stórkonungur Bahram I illa og var Mani tekinn af lífi. Á sjöttu öld eftir Krist boðaði íranski spámaðurinn Mazdak eins konar kommúnisma. Ekki má gleyma Bahaitrrúnni en hennar forsprakki var íranskur spámaður á nítjándu öld.
Frá Khosrow til Shah Abbas
Þegar Jústínanus Býsanskeisari lét loka akademíu Platons árið 529 e.kr. flúðu margir lærdómsmenn til Írans þar sem hinn lærði Khosrow stórkonungur tók vel á móti þeim. Hann var merkur hugsuður og umburðarlyndur í trúmálum, nema hvað hann barði á Mazdaksinnum. Þess utan bætti hann stjórnkerfi stórveldis síns. Enda kalla Íranir hann «Anushiruwan» («miklu sál») og bæta við «hinn réttláti». En Adam var ekki lengi í paradísinni, eins og segir í fyrri færslu féll ríki Sassanída eins og spilaborg fyrir herjum múslima. Síðasti stórkonungurinn dó árið 651. Ekki risu nema fáein, skammlíf, múslímsk stórveldi á næstu öldum í Íran, lítið á íranskan mælikvarða. Í margar aldir voru Íranir yfirleitt undir stjórn útlendinga. En landið varð að stórveldi andans í heimi múslima. Á tíundu öld orti Firdawsi (935-1020 e.kr) mikið sagnljóð um konunga Sassanída og er það hryggjarstykkið í bókmenntum Írana. Ibn Sina sem Evrópumenn kölluðu «Avicenna» var einn merkasti fræðimaður hins múslimska miðaldaheims. Ekki vantaði póesíu, margir telja írönsk ljóðskáld miðalda einhver mestu skáld sem jörðin hefur alið. Nægir að nefna Rúmí, Hafiz og Ómar Khajjam. Á sextándu öld nær Safavídaættin völdum og verður Íran stórveldi á ný, eitt hinna svokölluð púðurríkja (e. gun powder empires). Stórveldi sem byggðu á byssunotkun. Stórkonungar Safavída gerðu shíaafbrigðið af íslam að ríkistrú, m.a. að aðskilja sig frá veldi Tyrkjasoldáns. Merkastur Safavídakonunga var Shah Abbas (1571-1629).
Nútíminn
Víkjum nú að nútímanum. Hvers vegna reyndi síðasti Íranskeisari að gera Íran að stórveldi? Kannski vegna hefðarinnar, Íransjöfrar voru vanir því að veita stórveldi forystu. Hvers vegna býður klerkastjórnin íranska Bandaríkjunum byrginn? Ef til vill vegna stórveldishefðarinnar, ráðamönnum Írans finnast þeir vera jafnokar Bandaríkjastjórnar enda séu Bandaríkin nývoldugt land sem hafi ekki þann sjálfssagða rétt til stórveldisstöðu sem Íran. Hvaðan kemur allt trúarofstækið í Íran? Það kann að einhverju leyti vera runnið frá öllum þeim írönsku spámönnum sem sögðu að hið góða og illa ættu í eilífri baráttu og að guð vildi að við gjörbreyttum okkur sjálfum og samfélaginu. Sagan er okkar mikli lærimeistari en fara verður varlega með lærdóminn.
Lokaorð
Svo yrkir Ezra Pound um hina föllnu Trójuborg í Canto IV:
„Palace in smoky light,
Troy but a heap of smouldering boundary stones“.
Þetta má heimfæra á hinar fornu borgir Írans: Súsu, höfuðborg Elamíta, Ekbatana, höfuðborga Meda, Persepólis höfuðborg Akemnída og Ktsefón, höfuðborg Parþa og Sassanída.
"Vei, vei, yfir hinni föllnu borg..."
Athugasemdir