Ingi Freyr, Skandínavía og landflóttinn
Ingi Freyr Vilhjálmsson er lesendum að góðu kunnur, hann hefur stundað þéttingsgóða rannsóknarblaðamennsku um allnokkurt skeið.
Mæla má með bók hans, Hamskiptunum. Hún er ágætt uppgjör við útrás og hrun. Ekki síst er sjálfsgagnrýni hans merkileg, hann játar að hafa látið glepjast af útrásaráróðrinum.
Væri óskandi að fleiri gerðu slíkt hið sama.
Grein Inga Freys í Stundinni
Það er ýmislegt vel athugað í langri úttekt hans á landflótta af Íslandi í nýjasta tölublaði Stundarinnar.
Hann viðurkennir að Ísland sé á mörgm sviðum eitt besta land heimi að búa í og nefnir ýmsar staðtölur því til sönnunar.
Hann hefði mátt bæta við að sakmkvæmt nýlegri rannsókn er tekjujöfnuður meiri á Íslandi en annars staðar að Noregi undanskildum.
Tekjuójöfnuður hefur vissulega aukist en hið sama gildir um önnur lönd, að hinum ginnhelga og alfullkomna Noregi meðtöldu.
En Ingi Freyr bendir réttilega á að framleiðni unna klukkustund á Íslandi sé minni en í nágrannalöndunum, menn þurfi að vinna mun lengur til að afla jafnmikilla tekna og nágrannaþjóðirnar, vextir á húnæðislánum séu mun hærri o.s.frv.
Bæta má við tiltölulega ójöfn auðsdreifing hlýtur að valda áhyggjum því í auði býr vald. Það þótt staðtölur sýni að íslensk auðsdreifing sé litlu ójafnari en auðsdreifingin í Danmörku og Svíþjóð.
Auðmenn og stórfyrirtæki eru orðin alltof voldug á Fróni, það er lítil huggun að hið sama gildi um alltof mörg önnur lönd.
Niðurstaðan hlýtur að vera sú að það sé á margan hátt gott að búa á Ísland en á annan hátt ansi slæmt.
Er 1950 gott viðmið?
Ingi Freyr segir að Íslendingar hafi verið að dragast efnahagslega aftur úr öðrum vestrænum ríkjum frá því 1950 og gefur í skyn að það sé vondri pólitík að kenna.
En hversu gott viðmið er árið 1950? Þá var stríðinu nýlokið, Íslensk þjóðarframleiðsla stórjókst á stríðsárunum en hrundi víðast í Evrópu.
Eftir stríð hlutu þjóðirnar sem illa fóru út úr stríðinu að ná sér aftur og saxa á forskot Íslendinga, það sem fer niður fer einatt aftur upp. Og öfugt.
Af hverju ekki að nota 1965 sem viðmið? Þá voru nágrannalöndin búinn að ná sér eftir stríðið, ástandið þá var „normal“, ekki ástandið 1950 (þ.e. ef til er normal efnahagsástand).
Hugsum okkur að viðmiðið hefði verið árið 1930. Þá var Ísland líklega eitt fátækasta land Vestur-Evrópu.
Þá myndu staðtölur sýna að Íslendingar hefðu bætt kjör sín miðað við aðrar Vestur-Evrópuþjóðir á síðustu áttatíuogfimm árum.
En gallinn er sá að skipuleg heimildasöfnun um efnahagslíf var ekki hafin á Íslandi þá, allar staðtölur fyrir 1945 eru ágiskanir.
Hafa skal aðgát í nærveru staðtalna. Menn verða að hugsa sig vandlega um áður en þeir velja statistísk viðmið.
Landflótti
Hvað um landflótta? Ingi Freyr virðist telja það merki um stórfelldan landflótta að rúmlega 700 fleiri íslenskir ríkisborgarar hafi flutt úr landi á þessu ári en þeir sem fluttu aftur heim.
Samkvæmt fréttum Eyjunnar í fyrra hefur Færeyingum fækkað allmikið, á fáeinum árum frá 46000 manns í 42000 manns, stjórnin bað um aðstoð við að snúa þróuninni við.
Samanborið við Færeyinga eiga Íslendingar ekki við landflóttavanda að stríða.
Ekki er samanburðurinn við Bosníumenn Íslendingum heldur óhagstæður.
Norska dagblaðið Aftenposten sagði um daginn að tvær milljónir af þeirra byggju í útlöndum. Af samanlagt rúmlega fjórum og hálfum milljón íbúa.
Hitt mun þó rétt sem Ingi Freyr og viðmælendur hans segja, að menntaðir Íslendinga flytjist úr landi í alltof ríkum mæli enda borgi sig vart fyrir Íslendinga að mennta sig.
Það er alvarlegt mál.
Skandinavía
Ingi Freyr býr í Svíþjóð og mærir Skandinavíu mjög, þar búi menn við mun betri kjör en á Klakanum hræðilega.
En ég hef birt tölur í fyrri færslum sem sýna að meðal-Íslendingur hefur tíu fermetrum meira húsnæði til umráða en meðal-Svíi.
Ég hef einnig birt tölur sem sýna að bílaeign er hlutfallslega meiri á Íslandi en í Noregi.
Bendir þetta til þess að Skandínavar búi við miklu betri kjör en Íslendingar? Auðvitað ekki.
Ingi Freyr vitnar í viðtöl við Íslendinga sem nýfluttir eru til Norðurlanda og ber þeim saman um að betra sé að búa þar en heima.
En Ingi Freyr rökstyður ekki að þessir einstaklingar séu táknrænir fyrir Íslendinga sem flust hafa til Skandinavíu.
Ég frétti nýlega af ungum Íslendingum sem komu til Noregs í atvinnuleit en hrökkluðust til baka þar eð þeim þótti of dýrt að lifa í gósenlandinu norska.
Það þótt þeir væru í fullri vinnu.
Svo átti ég orðastað við leigubílstjóra í Reykjavík sem hafði nýlega unnið um nokkurt skeið í Noregi og var lítt hrifinn.
Kunningjafólk mitt íslenskt sem rak smáfyrirtæki í Noregi upp úr 1990 flutti fyrirtækið heim á þeim forsendum að betra væri að reka smáfyrirtæki þar en í hinum hinum goðumlíka Noregi.
Ég þekki Íslendinga sem búið hafa í Noregi áratugum saman og bölva landinu í sand og ösku, kvarta yfir þýlyndi, heilaþvætti, hóphyggju, húmorsleysi, leti og framtaksleysi innfæddra.
Aðrir Íslendingar eru mun ánægðari, það gildir ekki síst um þá sem fluttust hingað eftir hrun sem líkar oft mjög vel við sig, fegnir að vera lausir við íslensku efnahagskreppuna.
Kostir Noregs
Sjálfur hef ég búið í Noregi í 36 ár og tel kost og löst á landinu eins og öðrum löndum.
Meðal kosta Noregs er fegurð lands og kvenna (sjálfssagt karla líka þótt undirritaður beri ekki skynbragð á slíkt).
Enn einn kostur Noregs er sá að þjóðin er ekki að sálast úr græðgi, gagnstætt alltof mörgum Íslendingum.
Menn eru líka mun tillitsamari í umferðinni en ruddarnir íslensku.
Einnig er landið mjög gott fyrir barnafólk, eins og kemur fram í viðtali í grein Inga Freys.
Því veldur ekki síst sú staðreynd að menn lifa ágætu lífi á daglaunum, það gildir líka um undirritaðan. Húsnæðislán eru líka viðráðanleg, ekki kvarta ég yfr því.
Þess utan er þjóðfélagið óspillt og sæmilega vel skipulagt.
Og þó, Norðmenn gerðu alvarleg skipulagsmistök fyrir nokkrum áratugum, vanmátu framtíðarþörf fyrir hjúkrunarfræðinga.
Afleiðingarnar eru þær að það skortir allt að tuttugu þúsund hjúkrunarfræðinga í Noregi, þess vegna bjóða þeir íslenskum hjúkrunarfræðingum gull og græna skóga.
Íslenskir læknar fá líka mjög góð tilboð vegna læknaskorts, það er líklega þess vegna sem goðsagan hefur orðið til um Noreg sem fyrirheitna landið.
Vissulega hefur maður það allþokkalegt hér í Noregi en ekki verður sagt að smjör drjúpi hér af hverju strái.
Gallar Noregs
Gallarnir eru m.a. þeir að norska járnbrautakerfið er í ólestri, forsjárhyggja of mikil, m.a. er varla leyft að hafa búðir opnar á sunnudögum og á kvöldin.
Íslenskur líffræðingur tjáir mér að banngleði Norðmanna standi erfðafræðirannsóknum norskra fyrir þrifum.
Norska Morgenbladet sagði nýlega að árið 2003 hefðu norskir fræðimenn birt að meðaltali aðeins 50% það magn fræðigreina sem starfssystkini í Danmörku og Svíþjóð birtu.
Þetta kom mér ekki á óvart, meðal galla Norðmanna er skortur á frumkvæði, metnaði og einstaklingsframtaki.
Það er kannski þess vegna sem Noregur dróst efnahagslega á eftir nágrannalöndunum fyrstu áratugina eftir stríð, áður en olían tók að streyma.
Þann 13 febrúar síðastliðinn birti norska dagblaðið Aftenposten grein um efnahagsþróun landsins.
Þar er vitnað í hagtölur frá 1971, þá nam verg landsframleiðsla (VLF) á mann í Svíþjóð rúmum 90% af VLF Bandaríkjanna, sú danska nam 83.4%.
Noregur var langt á eftir með aðeins 64.7% af ameríska VFL, minna en Ítalir (67.7%) og Frakkar (72%), mun minna en Þjóðverjar (75.9%), litlu meira en Grikkir (61.9%).
Flestar þessara þjóða fóru mun verr út úr síðara heimsstríði en Norðmenn.
Þar á móti kemur að Norðmenn búa yfir miklum samtakamætti, án hans enginn olíusjóður. Íslendinga skortir samtakamátt, það er ein af mörgum ástæðum þess að margt fer aflaga á Fróni.
Miklu nánar um það í öðru bloggi.
Vandinn í norska heilbrigðiskerfinu
Rétt eins og annars staðar á hnettinum eru erfiðleikar í norska heilbrigðiskerfinu, margir sjúkrahússjúklingar verða að sofa á göngum, langar biðraðir eru í aðgerðir o.s.frv.
Þess utan segja menn að pappírsvinna og fundafargan sé algerlega að kaffæra lækna og hjúkrunarfólk.
Mér hefr verið sagt frá norskum skurðlæknum sem fóru til Bretlands og uppgörtvuðu sér til furðu að starfssystkini þeirra þar skæru upp eftir hádegi, ekki bara fyrir hádegi eins og Norðmennirnir gerðu.
Restin af vinnutíma þeirra síðastnefndu fór í pappírsvinnu
Nýlega dó barn í bæ á vesturströnd Noregs vegna þess að barnadeild spítalans var lokuð um helgi.
Var það vegna þess hve tregir Norðmenn eru til að vinna um helgar? (Íslendingar vinna of mikið, Norðmenn of lítið)
Íslenskur geðlæknir sem starfað hefur í báðum löndunum sagði mér að hann gæti sinnt 6 sjúklingum á Íslandi á sama tíma og hann gæti bara sinnt 1 ½ sjúklingi í Noregi.
Það er margt gott um Noreg og Skandinavíu, fleira gott en slæmt.
En að tala um þessi lönd sem einhvers konar paradísir er hreinlega hlægilegt.
Lokaorð
Niðurstaða mín er sú að Ísland sé ekki eins og grábölvað, Skandinavía (alltént Noregur) ekki eins frábær, og Ingi Freyr virðist telja.
Hann gerir líka heldur mikið úr fólksflótta af Íslandi.
En haldi áfram sem horfir með ríkra-ríkisstjórn, sægreifaveldi og okurvexti má Guð hjálpa Íslendingum.
Elds er þörf.
PS Ég varð að breyta færslunni því mér yfirsást að Ingi Freyr nefndi að ýmsar rannsóknir bentu til þess að það væri á margan hátt gott að búa á Íslandi.
Athugasemdir