Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ingi Freyr og Kredda í kreppu

 Um þessar mundir eru fimm ár liðin frá útkomu bókar minnar Kreddu í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni.

Þar leitast ég við að sýna fram á að frjálshyggjan sé sjálfsskæð speki. Tilraunir til að raungera frjálsan markað eru sennilega dæmdar til að misheppnast. Enn fremur segi ég að hugmyndir frjálshyggjumanna um frelsi, lýðræði og réttlæti séu meingallaðar. Velferðarríki og blandað hagkerfi séu góðir kostir, sé rétt á málum haldið. Miðjan harða og hentistefnan mjúka sé móteitrið gegn hægristefnu frjálshyggjunnar og vinstristefnu róttækra sósíalista. Frjálslynd jafnaðarstefna er sögð miðjuhörkustefna og hún varin (í dag hefði ég notað annað orðasamband, „frjálslynd jafnaðarstefna“ er notað af mörgum um frjálshyggju með velferðarglassúr). Ég endurlas bókina í vor sem leið og sá að margt hefði mátt  betur fara, til dæmis er tekið á allt of mörgum málum á of fáum blaðsíðum. Mér lá of mikið á hjarta. Víkur nú sögunni að móttöku bókarinnar. Yfirleitt voru bókadómar jákvæðir, t.d. dómur Inga Freys Vilhjálmssonar í DV. Ritdómurinn er hressilega skrifaður, bókinni er hrósað fyrir margt en einnig gagnrýnd eins og vera ber. Það er ýmislegt vel athugað í gagnrýninni, t.d. bendir Ingi Freyr á að misnota megi  áherslu mína á dómgreind og andúð á formúluhyggju í siðferðilegum málum.  Hana megi nota sem vörn fyrir siðferðilegt ístöðuleysi, það að forðast að fylgja siðferðilegum meginreglum í þeim tilvikum sem það kunni að eiga við. Mjög athyglisverð gagnrýni.  Síður sannfærandi er sú staðhæfing Inga Freys að ég hafi ekki vitað nógu mikið um útrásina vegna vistar í Noregi. Vissulega bendir hann á villu hjá mér í einu tilteknu útrásarmáli. En hvers vegna sá ég í gegnum útrásina fyrr en flestir aðrir? Af hverju spáði ég falli útrásarfyrirtækjanna í Silfri Egils fyrir rúmum áratugi? Kannski sá ég eitthvað sem aðrir sáu ekki. Önnur veila við bókarýnina er sú ranga staðhæfing Inga Freys að bókin sé ekki ýkja frumleg. Ég held að honum  hafi yfirsést að það er allmikið um frumlegar smákenningar í bókinni þótt hún byggi kannski ekki á einni allsherjar,  spánýrri teoríu. Þessar frumlegu smákenningar eru oft vafðar inn í umfjöllun um kenningar frægra fræðimanna og vilja kannski drukkna í þeirri umfjöllun. Ég  vil taka mér það bessaleyfi að benda á nokkrar þessara smákenninga sem ég fæ ekki betur en að séu frumlegar, þótt þær kunna að vera slæmar af öðrum ástæðum. Skulu þær nú tíundaðar (Varúð! Menn þurfa helst að hafa lesið bókina og hafa hana við hendina til að græða eitthvað á þeim langa lista sem hér fylgir):

 

  1. Kannski er miðjan harða og henti stefna mjúka gamalt vín á nýjum belgjum en samt ekki alveg ófrumleg hugmynd. Orðavalið er alltént frumlegt.

  2. Á blaðsíðu  18 spyrði ég frjálshyggju og kommúnisma saman, ég  gerði það fyrstur manna í Dagblaðsgrein árið 1979.

  3. Á blaðsíðu 19 set ég fram þá kenningu að ofstæki blindi frjálshyggjumenn með þeim hætti að þeir sjái ekki þegar markaðsreglur voru vanvirtar t.d. í einkavinavæðingu banka. Svipað gildir um kommúnista, þeir sáu það sem þeir vildu sjá, yfirsást því kúgunin  austantjalds. Ég segi að þessar stefnur laði til sín fólk með þessa ofstækisblinduhneigð því stefnurnar bjóði upp á svör við öllum samfélagsvanda og þannig svör elska fanatíkusar. Þessi ofstækishneigð er ein margra ástæða þess að frjálshyggjan er sjálfsskæð. Þetta hefur mér vitanlega engin sagt á undan mér.

  4. Á blaðsíðu 28 segi ég að sjokk-kredda Miltons Friedmans sé skyld byltingarhyggju kommúnista. Sennilega frumlegt.

  5. Á blaðsíðu 33 beiti ég regluspeki austurríska heimspekingsins Ludwigs Wittgensteins  gegn pólitískri  kreddutrú. Sennilega frumlegt.

  6. Frumleiki birtist oft í samtvinnun eldri hugmynda, ég samtvinna áherslu  Aristótelesar á upplýsta, aðstæðubundna dómgreind (phronesis), málleikjakenningu Wittgenstein og kenningu Michaels Polanyis um þögla þekkingu til að rökstyðja pólitíska andformúluhyggju.

  7. Ég  tengi saman gagnrýni  á lögmálshyggju í siðfræði og lögmálshyggju i hagfræði. Þessi samtvinnun   hlýtur að teljast frumleg.

  8. Í því sambandi segi ég að upplýst dómgreind verði að ríkja jafnt í hagfræði sem siðferði.

    Sennilega frumlegt.

  9. Ég bý til dæmi  um hagfræðitilraun á heimsvísu (blaðsíðurnar 51-53) sem lið í gagnrýni á hagfræðilega lögmálshyggju. Ég kannast ekki við að neinn annar hafi búið til svipað dæmi.

  10. Kenningin á blaðsíðunum 57-58  um dulda lögmálsskýringu hjá frjálshygggju-hagfræðingnum Friedrich A. Hayek er sennilega frumleg.

  11. Ég ræði á  blaðsíðu 60-61  hugmyndir  vísindaheimspekingsins Mary Hesse um það hvernig hugmyndafræði fylli eyður í  öllum vísindum. Engar vísindakenningar eru fullsannanlegar og hugmyndafræði getur fyllt í sönnunareyður. Ég heimfæri þetta  á hagfræði. Hagfræðikenningar séu illa vansannaðar og því mikið rúm fyrir hugmyndafræði.  Sennilega  frumlegt.  

  12. Á blaðsíðu 63 nefni ég  kenningar  norska heimspekingsins  Hans Skjervheims um að hugtök í félagsvísindum séu með nauðsyn gildishlaðin.  Þessari greiningu beiti ég á hagfræði, mörg af hugrtökum hennar eru gildishlaðin og það með nauðsyn.

  13. Á bls. 72 segi ég að frjálshyggjumenn þjáist af smáhópahyggju, sjái samfélagið eins og það sé smáhópur. „Smáhópahyggja“ er hugtak sem ég hef búið til, frumleg hugmynd atarna.

  14. Á blaðsíðu 74 líki ég  markaðnum við Netið. Veit ekki til þess að aðrir hafi gert það.

  15. Á blaðsíðunum 71-74 tengi ég saman pælingar John Grays og Joseph Stiglitz til að sýna fram á að frjálsum markaði verði ekki komið á koppinn. Sennilega frumleg samtenging.

  16. Á blaðsíðu 103: Ég  efast um að hægt sé að ákvarða með öruggri vissu í hverju  rétt skilaboð á markaði sé fólgið. Frumlegt?

  17. Á blaðsíðu 105: Án ríkisábyrðgar á innistæður gætu menn fjárfest í gulli eða stungið peningum í koddann, slæmt fyrir athafnalífið. Frumlegt?

  18.  Á blaðsíðu 118 held ég því fram að mótsögn sé í kenningum Hayeks: Annars vegar hefur engin yfirsýn yfir hagkerfið hins vegar hefur hann svo góða yfirsýn að hann veit að ríkisafskipti leiða til ófarnaðar o.s.frv.  Sennilega frumlegt.

  19. Á blaðsíðu 127 segi ég að við getum ekki vitað hvort framtíðartækni grafi undan náttúrulegri einokun eða öfugt. Sennilega frumlegt.

  20. Á blaðsíðu 130 segi ég kostnað af öllu meira að segja samkeppni. Frumlegt?

  21. Á blaðsíðu 131 segi ég það þumalfingursreglu að  því erfiðara sem er að skilgreina einkaeign á tilteknu sviði því verr virkar markaðurinn. Örugglega frumlegt.

  22. Á blaðsíðunum 144-155 set ég fram kenningu um ýmsar þversagnir hnattvæðingar, skiptakostnaður sé af henni vegna mismunar á hugsunarhætti í hinum ýmsu menningarheimum sé (samhæfing mismunandi hugsunarhátta kostar fé). Hinn kosturinn sé að allir verði eins en þá kann að draga úr nýsköpun. Frumlegt.

  23. Á blaðsíðu 166 set ég fram kenningu  um  markaðsfrelsisbogann, örugglega frumleg.

  24. Á blaðsíðu 168 bendi ég á að túlka megi meginhugmyndir frjálshyggju með þeim hætti að þrælamarkaðir geti verið frjálsir og kem með söguleg dæmi um slíkt. Frumleg kenning hjá mér?  

  25. Á blaðsíðu 170 bendi ég að samkvæmt skilgreiningum frjálshyggjumanna  á frelsi séu fleiri frelsisathafnir hindraðar í velferðarsvíþjóð en í frjálshyggjueinræði  Pinochets. Sé velferðaríkið leiðin til ánauðar og lýðræði ógnun við frelsi eins og frjálshyggjumenn segja má réttlæta valdarán í velferðarríkjum (þessa kenningu setti ég fram í DV grein um 1982). Frumleg kenning.

  26.  Ég bendi líka á að efasemdir frjálshyggjumanna um ágæti lýðræðis kunni að vera skýringin á vanvirðingu  Davíðs Oddssonar  á leikreglum lýðræðisins. Örugglega frumleg kenning.

  27. Á blaðsíðu 176 gagnrýni ég breska heimspekinginn Isaiaha Berlin og hugmyndir hans um jákvætt frelsi sem ávísun á alræði. Gegn honum segi ég að rétt skilið þá  lágmarki jákvætt frelsi  það sem takmarkar sjálfræði. Ég kynni kenningu mína neikvæða jákvæðnishyggju hvað frelsi varðar. Örugglega frumlegt.

  28. Á blaðsíðu 177 bendi ég (fyrstur manna?) á að  rökleiðsla Berlins sem sýna eigi að jákvætt frelsi leiði til ófrelsis standist ekki, hann hrapi að niðurstöðum.

  29. Á blaðsíðu 185  beiti ég regluspeki Wittgensteins á frelsishugtakið og  gagnrýni  eðlistrú um frelsi. Sennilega frumlegt.

  30. Á blaðsíðu186 segi ég aðstöðubundið hvaða frelsisskilningur sé frjóastur, sennilega frumlegt.

  31. Á blaðsíðu 187 tala ég um  kjarnamerkingu  frelsishugtaksins, hún sé röklega bundin  skólabókardæmum  um beitingu þess. Sennilega frumlegt.

  32. Á blaðsíðu 200  segi ég að af kenningum frjálshyggjumanna  um lýðræðið leiði að milljónaríki geti talist lýðræðislegt þótt bara 20 manns hafi kosningarétt. Frumlegt.

  33. Á blaðsíðunum 201-203  staðhæfi ég að ekki hægt að sanna að markaðsfrelsi sé nauðsynleg forsenda lýðræðis. Hún sé örugglega ekki rökleg nauðsyn lýðræðis, ekki heldur orsakanauðsyn og vart forskilvitleg nauðsyn. Hvað orsakatengsl varðar þá bendi ég (fyrstur manna?) á að frjálsar kosningar voru haldnar í Póllandi 1989 þótt 90% hagkerfisins væri í höndum ríkisins. Þessi gagnrýni á hugmyndina um markað sem nauðsynlegar forsendur X og Y á sér rætur í blaðagrein sem ég skrifaði 1979.  Verður að teljast frumlegt.

  34. Á blaðsíðunum 206-7 bendi ég á takmarkanir markaðslýðræðis, þ.e. hugmyndarinnar um að markaðurinn bjóði upp á hið eina sanna lýðræði. Að einhverju leyti frumlegt.

  35. Á blaðsíðu num  208-9 segi ég villandi að líkja lýðræði við markað. Það sé annar málleikur þótt málleikir markaðar og lýðræðis vilji skarast. Frumlegt.

  36. Á blaðsíðu 211 segi ég að hverfi öll  hugmyndafræði úr  pólitík þá muni stjórnmál  hverfast í markað eða tækniræði. Örugglega frumlegt.

  37. Á blaðsíðu 213 bendi ég á að kommúnistar tóku völdin áður en þeir komu á áætlunarkerfi. Því sé ekki alveg öruggt að altækt áætlanakerfi leiði til alræðis. Kannski frumlegt.

  38. Á blaðsíðu 236 bendi ég á að í „formoderni“  samfélögum trúi menn á  hringrás tímans sérhvert haust bara endurtekning fyrri hausta, eins sé  sérhver einstaklingur eins og aðrir. Ekki kannast ég  við að neinn annar hafi tengt tímahugtak formoderni samfélaga við hóphyggju þeirra.

  39. Á blaðsíðu 237 kynni ég stebbastuðkarlsrökin. Orðasambandið er alla vega frumlegt.

  40. Á blaðsíðu 252 set ég fram þá kenningu  án lágmarkssamstöðukenndar hefði mannkynið dáið út. Þess geti maðurinn ekki verið 100% eigingjarn. Enn fremur hafi mannkynið lifað af vegna þess að maðurinn sé  óútreiknanlegur vegna frjálss vilja. Þessi rök hljóta að teljast æði frumleg.

  41. Á blaðsíðunum  270-1 kynni ég orðsamband mitt um þversögn sjálfseignar. Sjálfseignarrök Nozicks leiða til þversagna. Innblásið af rökfærslu Susan Okin Mollers en ögn öðruvísi,  pinkufrumlegt.

  42. Á blaðsíðu 274 bendi ég að Nozick vísi bara til innsæis um að einstaklingurinn hafi réttindi. Innsæi ættbálkamannsins segir honum að einstaklingurin sé bara hluti af heild og heildin ein hafi réttindi. Hvort innsæið er betra? Örugglega frumlegt.

  43. Á blaðsíðu 276 segi ég að skuldaþrælkun sé samþýðanleg rökum Nozicks. Menn eigi sjálfan sig og geti því selt sig mansali, því sé eðlilegt að lánadrottnar geti tekið menn eignanámi ef þeir geta ekki borgað með öðrum eignum. Frumlegt.

  44. Á blaðsíðu 277 segi ég að best sé að líta svo að réttur manna til eigna sé  í réttu hlutfalli við mikilvægi þeirra fyrir lífsafkomu eigandans. Frumlegt.

  45. Á blaðsíðu 278 bendi ég að heimspekingurinn  andfrjálshyggjusinnaði, Gerry Cohen,  sjái  ekki þann möguleika að menn í náttúruástandi gætu tilheyrt hver öðrum. Sennilega frumlegt.

  46. Á blaðsíðu 281 segi ég að Nozick haldi  ranglega að hægt sé að mæla framlag hvers og eins til auðsköpunar.  Hann sér ekki að  uppeldi til vinusemi og aga getur verið framlag til auðsköpunar en það mælanlegt? Hvað með samfélagslegt traust? Sennilega frumlegt.

  47. Á blaðsíðu 282 segi ég að ef ríkið á að gæta öryggis manna eins og frjálshyggjumenn vilja, sé rétt að það verndi menn gegn gerlum.  Öryggisgæsla og heilsugæsla skarast, gagnstætt því sem frjálshyggjumenn halda. Örugglea frumlegt.

  48. Á blaðsíðu 294 segi ég að gagnrýnislaus þjóðernishyggja Alasdair  Macintyres geti orðið vörn fyrir útrýmingu uminnihlutahópa. Frumlegt.

  49. Í umfjöllun um hina svonefndu lýðveldishyggju á blaðsíðu 300 nefni ég hugmynd mína um hið estetíska lýðveldi, hugmynd sem ég hef reynt að vinna úr lengi, án mikils árangurs. Frumleg samt.

  50. Á blaðsíðu 304 boða ég fyrstur manna neikvæða jafnaðarstefnu.

     

 

Góðfús lesandi getur litið í skrudduna ef hann nennir, kannski hann komist þeirri niðurstöðu að ég ofmeti eigin frumleika og að Ingi Freyr sé nærri sannleikanum. Honum eru þökkuð málefnaleg skrif og óskað velfarnaðar í nýju starfi.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni