Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hundseðlið og kattareðlið

Hundseðlið og kattareðlið

 Feita fressið: Ég verð nú að segja fyrir mig og mína parta og með fullri

virðingu fyrir ykkur hundum að mér  finnast við kettir merkari skepnur en þið hundar. Við erum sjálfsstæðir og sterkir, þið óttalegar hópsálir og undirlægjur. Okkar siðferði er herrasiðferði, ykkar þrælasiðferði.  (kisa hefur greinilega lesið Nietzsche!)

Stjúphvolpurinn: Vitleysa, við hundar erum trygglyndir og fórnfúsir, við kunnum að vinna saman, þið kisurnar vitið ekki hvað samvinna er. Þið eruð  eigingirnin uppmáluð, svo drepiði svo mikið af fuglum að ýmsar tegundir eru í útrýmingarhættu. Þið eruð réttnefnd meindýr!

Feita fressið: Della, við sjáum til þess að rottur og mýs ráðist ekki inn á heimili manna. Við erum mönnum þarfir þjónar, annað en þið,  þessi  sígeltandi skriðdýr.

Stjúphvolpurinn: Þegiðu, fitubollan þín!

Feita fressið: Ég er alls ekki feitur, ég er bara með þykkan feld!

Stjúphvolpur: Nei, þú ert akfeitur, hí á feitu kisu, hí á feitu kisu!

Feita fressið: Hvæs, hvæs, nú er nóg komið, ég skal lúskra á þér,  seppadjöfull!

Skiptir nú engum togum að fressið ræðst á hundinn sem ver sig með kjafti og klóm.

Ég: Mér sýnist allt vera komið í hund og kött hér (skil fressið og hvolpinn að, gríp í hnakkadrambið á báðum) Tekið hef ég hér hvelpi tvö, úps, hvolp og kött. Hættið að slást, annars fáiði ekki kvöldmat!

Hvolpurinn og fressið: Við skulum lofa að vera stilltir.

Ég: Hlustiði á  ræðu mína. Bæði hundseðlið og kattareðlið eru af hinu góða í hóflegum skömmtum. Norðmenn hafa meira hundseðli en Íslendingar, það gerir þá samvinnuþýðari og samstilltari, án þess hefðu þeir aldrei getað byggt upp olíusjóð. En   kattareðli Íslendinga er ekki án sinna kosta. Sagt hefur verið að íslenskir knattspyrnudrengir séu metnaðargjarnari og tilbúnari til að fórna miklu fyrir frama en þeir norsku. Án þessa metnaðar, án kattareðlisins, ekkert íslenskt fótboltaævintýri.  Um leið hefur íslenska landsliðið notið góðs af skandinavískum aga og hóphyggju í boði Lagerbäcks, hann bætti hundslegum þætti við. Sem sagt, hundar og kettir hafa sína kosti, best er að þeir vinni saman eins og Lagerbäck og landsliðið.

Feita fressið: Athyglisvert. En mér finnst þú meiri köttur en hundur. Eigi rannst þú sem rakki á eftir útrásarvörgunum glópagullsslóð heldur hvæstir sem  sannur fressköttur, hvæstir á útrásarhundana, alla þessa geltandi og ýlfrandi  businessmenn, stjórnmálamenn, blaðasnápa og skáldbjálfa.

Ég: Vel mælt,  högni sæll, ég þakka þér fyrir að lofa mig óverðugan. En ég hef nú svo sem mitt hundseðli líka sem er ekki endilega slæmt.  En bæði eðlin hafa sína galla. Stundum fer sál mín  í hund og kött!

Feita fressið: Sennilega er þetta rétt hjá þér, kettir og hundar ættu að vinna saman (hvíslar að Stjúphvolpinum) Við  gætum kannski unnið saman að því að komast í ísskápinn þegar stjúpi er í vinnunni.

Stjúphvolpur (hvíslar): Flott, við getum unnið afrek saman.

Ég: Jæja, það er kominn kvöldmatur. Geriði svo vel!

Stjúphvolpurinn og Feita fressið: Húrra fyrir kvöldmatnum!

Ferfætlingarnir hámuðu matinn í sig og stukku að því búnu upp í sófa og lögðust hlið við hlið.

Stjúphvolpurinn (geispar): Veistu, þú ert bara ágætasta kisulóra.

Feita fressið (malar): Og þú  prýðishvutti.

Innan skamms hrutu báðir allhressilega, ég glotti illgirnislega.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni